8.2.2007 | 01:38
Framtíðarlandið (og nýtt farsímanúmer mitt)
Margir biðu með nokkurri eftirvæntingu niðurstöðu fundar Framtíðarlandsins í kvöld varðandi framboð til kosninga í vor.
Ómar Ragnarsson segir svo á sínu bloggi:
"Mér fannst óþarfi að sundra Framtíðarlandinu vegna málsins þegar hægt er að ná árangri á annan hátt, með algerlega óháðu og frjálsu framboði sem gæti meðal annars nýtt sér þá frábæru vinnu sem hópur fólks í Framtíðarlandinu hefur unnið vegna hugsanlegs framboðs og laðað til sín krafta fólks sem stendur utan Framtíðarlandsins en hefur sömu hugsjónir. "
Ég tek heilshugar undir þetta. Framtíðarlandið er þverpólitísk hreyfing og regnhlífarsamtök náttúruverndarsinna og á að vera það. Hins vegar má vænta þess að einstaklingar úr þeim hópi gefi kost á sér til framboðs og því ber að fagna.
ÁRÍÐANDI TILKYNNING: Án fyrirvara missti ég farsímanúmerið mitt og þurfti að fá mér nýtt hið snarasta. Nýja númerið er 661-1996.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
6.2.2007 | 10:10
Lýðræði?
Grundvöllur okkar lýðræðis á að byggja á frjálsum kosningum og skýrri aðgreiningu framkvæmdavalds, dómsvalds og löggjafarvalds.
Nú í febrúarbyrjun getum við minnst þess að þann 1. febrúar 1904 var eiginlegur fæðingardagur þingræðis á Íslandi. Þá fyrst fékk Alþingi vald til að velja forystu framkvæmdavalds í landinu sem starfaði í umboði þess.
Misjafnt vægi atkvæða
Stærsti galli á lýðræðinu í framkvæmd hér á landi og þar með stærsti galli þingræðisins er misjafn kosningaréttur kjósenda sem erfitt virðist vera að jafna. Vegna misvægis atkvæða hefur rúmlega helmingur kjósenda á Íslandi aðeins hálfan atkvæðisrétt sem þýðir í raun að minnihluti kjósenda ræður för. Þetta gengur þvert á lögmál raunverulegs lýðræðis. Einnig er það áhyggjuefni, að áhugi almennings á pólitík virðist heldur hafa dvínað frá því sem áður var, líklega vegna aukins áreitis. Það er ekki vafamál, að fengi fólk að segja álit sitt oftar í þjóðaratkvæðagreiðslu um stærstu mál, myndi áhuginn vaxa verulega.
Ofríki ráðherra
Það þarf að aðgreina betur framkvæmdavald, löggjafarvald og dómsvald. Löggjafarvaldið (Alþingi) hefur verið að veikjast og framkvæmdavaldið (ráðherrarnir) fært sig stöðugt upp á skaftið. Skýrasta dæmið um yfirgang framkvæmdavaldsins gagnvart löggjafarvaldinu í seinni tíð var ákvörðun um stuðning íslensku þjóðarinnar við innrásina í Írak. Tveir menn, þáverandi forsætisráðherra og utanríkisráðherra landsins, tóku þessa afdrifaríku ákvörðun án minnsta samráðs við löggjafarsamkunduna -og þar með þjóð sína. Að spyrja ekki þjóðina var verst, því ég leyfi mér að fullyrða að meirihluti hennar vill aldrei fara með stríði á hendur öðrum þjóðum.
Þingið reyndist of veikt af því þingmenn stjórnarmeirihlutans þorðu ekki að fara gegn ráðherrum sínum. Jafnvel ráðherrarnir sjálfir virtu æðstu stofnun þjóðarinnar að vettugi. Stjórnarmeirihlutinn á Alþingi gleymdi því að ráðherrunum ber að starfa í umboði Alþingis. Alþingi má ekki vera máttlaus afgreiðslustofnun sem framkvæmdavaldið ryðst yfir.
Annað nærtækt dæmi: Alþingi á að kjósa sér forseta við upphaf hvers þings, en þó hefur verið tekin upp sú aðferð að gera það um leið og ráðherrastólum er útdeilt í næstu ríkisstjórn. Hvar er þingræðið þá?
Keypt lýðræði?
Varðandi lýðræðið þá skiptir líka máli sú þróun að völdin hafa verið að færast til fjármálaheimsins. Sameign þjóðarinnar var afhent örfáum mönnum og bankarnir seldir á hálfvirði. Og varla viljum við sjá ,,bandarískt kosningakerfi" þar sem einungis auðkýfingar geta boðið sig fram til æðstu embætta.
Þeir sem ráða fjármagninu styðja gjarnan þá stjórnmálaflokka sem vernda hagsmuni þeirra best. Þess vegna má fagna sérstaklega nýjum lögum um opinber fjármál stjórnmálaflokka, því hingað til hafa sumir flokkar ekki viljað upplýsa hvernig þeir hafa getað rekið kosningabaráttu fyrir milljónatugi sem hefur jafnvel ráðið úrslitum um niðurstöðu ,,lýðræðislegra kosninga".
Valdið hefur iðulega legið hjá þeim sem öllu vilja ráða án tillits til þess að framkvæmdavaldinu ber að lúta Alþingi. Við verðum að minnsta kosti að horfast í augu við alvarlegasta dæmið um það, sem varð til þess að við erum enn á lista ,,hinna staðföstu þjóða", þjóðanna sem studdu innrásina í Írak. En því getum við þó breytt með atkvæði okkar í lýðræðislegum kosningum í vor.
Þessi grein birtist í Blaðinu í dag
3.2.2007 | 23:24
Laugardagur til lukku og Spaugstofan
Nýtt afl (grín ) er að koma fram á sjónarsviðið í íslenskri pólitík. Fundað var í dag og á næstunni verða sett fram skýr markmið framboðs sem er hægra megin við miðju í pólitísku litrófi stjórnmálanna. Bíðið spennt eftir framhaldinu - dokið við - hér rétt handan við hornið verða æsispennandi tíðindi...
Spaugstofan í kvöld lýsti frábærlega vel glundroðanum á landsþingi Frjálslynda flokksins um liðna helgi og það var líka bráðfyndið að gera grín að frasanum mínum: ,,Það var ekki ég sem yfirgaf flokkinn heldur flokkurinn sem yfirgaf mig". Það var með vilja gert hjá mér að orða þetta svona, því eins og margir vita orðaði faðir minn brotthvarf sitt úr Sjálfstæðisflokknum með sama hætti. En ég minni á yfirlýsingar þingflokksins: ,,Þingflokkurinn vill ekki Margréti" (Sjá Mbl. 18. janúar sl.). Þeir yfirgáfu mig svo sannarlega, ekki satt?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 4.2.2007 kl. 00:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Vegna ummæla formanns Frjálslynda flokksins á Rás 2 í gær um röðun fólks á framboðslista "minn" til miðstjórnar Frjálslynda flokksins, þá birti ég hann hér, ef einhver hefur áhuga... Þessum framboðslista var dreift af mínu fólki á landsþinginu. Hann var annar tveggja lista sem ég vissi af. Hinn listinn var helmingaskiptalisti forystu þingflokksins og Nýs afls, birtur hér neðar á síðunni. Allir á "mínum" lista hafa verið skráðir í Frjálslynda flokkinn um langa hríð, nema Ragnheiður Fossdal, sem gekk í hann sl. haust.
Formaður flokksins nefndi í útvarpsviðtalinu að ég hefði m.a. sniðgengið eftirtalda flokksmenn, sem hefðu mjög mikla reynslu: Pétur Bjarnason, Eyjólf Ármannsson, Óskar Þór Karlsson, Hönnu Birnu Jóhannsdóttur, Þorstein Árnason og Ernu Ingólfsdóttur.
Svar mitt við því er að ég bauð Ernu reyndar fram í fjármálaráð og hún hlaut kosningu. Hanna Birna og Grétar Mar voru bæði hlynnt samstarfi við Nýtt afl og komu því ekki til greina. Eyjólfur hefur unnið frábært starf fyrir Frjálslynda flokkinn eins aðrir sem hér eru nefndir, en ég gerði varla ráð fyrir að hann eða Óskar styddu mig nægjanlega til að vilja taka sæti í miðstjórn minni miðað við ýmislegt sem á undan var gengið. Þorstein Árnason hefði ég sannarlega viljað hafa á lista okkar fólks. Mér datt bara ekki annað í hug en að formaðurinn hefði teflt honum fram fyrir sig, sínum allra dyggasta stuðningsmanni frá því flokkurinn varð til, að frátöldum Pétri Bjarnasyni sem er prýðismaður og félagi Guðjóns til áratuga.
Ég hvet fyrrverandi og núverandi félaga í Frjálslynda flokknum til að íhuga hvert stefnir úr því fram var lagður helmingaskiptalisti Nýs afls og þingflokksins á þessu þingi. Fæstir áttu von á því, enda var svar þingflokksins ávallt á þá leið að svona fámennur hópur gæti aldrei náð neinum undirtökum í flokknum... - Ónei, ekki nema með fulltingi þingflokksins sjálfs!
Listi Margrétar-fólks:
Varaformaður: Margrét Sverrisdóttir
Ritari: Sólborg Alda PétursdóttirFormaður: Daníel Helgason
Aðrir: Sverrir Hermannsson, Eyþór Sigmundsson, Matthías Sveinsson, Erna V. Ingólfsdóttir
2. Sigurlín Margrét Sigurðardóttir, varaþingmaður Garðabæ
3. Svanur Sigurbjörnsson, læknir, Mosfellsbæ
4. Rannveig Þorvaldsdóttir, kennari, Ísafirði
5. Ásta Þorleifsdóttir, jarðverkfræðingur Rvk
6. Egill Örn Jóhannesson, kennari Rvk
7. Auður Matthíasdóttir, félagsráðgjafi Garðabæ
8. Ingileif S. Kristjánsdóttir, doktor, Hveragerði
9. Kristín Þórðardóttir, verkakona, Grindavík
10. Ásgeir Yngvason, prentari, Akureyri
11. Ragnheiður Fossdal, líffræðingur, Seltjarnarnesi
12. Margrét Óskarsdóttir, skólafulltrúi, Kópavogi
13. Baldvin Nielsen, bifreiðastjóri Reykjanesbæ
Nöfn til vara í miðstjórn:
Jóhanna Guðmundsdóttir, sölufulltrúi, Reykjanesbæ
Kristín Helgadóttir, kennari, Hafnarfirði
Eftirtaldir eru komnir inn í miðstjórn og þarf ekki að kjósa:
Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi Rvk S
Kjartan Eggertsson, skólastjóri Rvk N
Guðmundur Wiium, skógræktarbóndi NA
Pétur Guðmundsson, selaveiðimaður SV
- - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - -
Helmingaskiptalisti þingflokks og Nýs afls
Formaður: Guðjón Arnar Kritjánsson
Varaformaður: Magnús Þór Hafsteinsson
Aðalmenn:- Ásgerður Jóna Flosadóttir (Nýtt afl)
- Hanna Birna Jóhannsdóttir, Vestmannaeyjum (Frjálsl.)
- Höskuldur Höskuldsson, Rvk (Nýtt afl)
- Óskar Þór Karlsson, Reykjanesbæ, (Frjálsl.)
- Pétur Bjarnason, Rvk (Frjálsl.)
- Tryggvi Agnarsson, Rvk (Nýtt afl)
- Ásthildur Cesil Þórðardóttir (Frjálsl)
- Eiríkur Stefánsson (Áróðursmeistari Nýs afls á Útvarpi Sögu)
Erna V. Ingólfsdóttir (Frjálsl..)
Grétar Mar Jónsson (Frjálsl. en ötull baráttumaður fyrir samstarfi við Nýtt afl)
Guðmundur Bergþórsson (Nýtt afl)
Guðrún Þóra Hjaltadóttir (Nýtt afl)
Hanna Þrúður Þórðardóttir (Frjálsl.)
Helgi Helgason (Frjálsl.)
Jónbjörg Þórsdóttir (Nýtt afl)
Ólafur Ögmundsson (Frjálsl.)
Valdimar Jóhannesson (Nýtt afl)
Stjórnmál og samfélag | Breytt 3.2.2007 kl. 23:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
31.1.2007 | 12:09
Vísa Þórarins Eldjárns
Hvert er Frjálslyndra frjálslyndi?
Fæst það gegn borgun?
Ef til vill haft sem hálsbindi
hálfrautt í dag, bláleitt á morgun?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.1.2007 | 22:30
Yfirlýsing mín
Stjórnmál og samfélag | Breytt 30.1.2007 kl. 00:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
27.1.2007 | 19:57
Framboðsræðan mín í dag
Ég vil nota tækifærið hér og vísa á bug kenningum um að ég hafi búið til einhvern málefnaágreining til þess eins að sækjast eftir valdastöðu innan flokksins. Hvenær hófst ágreiningur innan Frjálslynda flokksins? Hann hófst sl. haust þegar þingflokkurinn hafði forgöngu um að taka upp samstarf við Nýtt afl. Ég hef aldrei farið leynt með þá skoðun mína að samstarf við forystumenn þess stjórnmálaafls væri Frjálslynda flokknum ekki til framdráttar eftir bitra reynslu af Nýju afli frá því í kosningunum 2003, þar sem þeirra kosningabarátta beindist öll gegn Frjálslynda flokknum. Þeirri atlögu Nýs afls gegn okkar flokki lýsti Sigurjón Þórðarson alþingismaður með eftirfarandi orðum í pistli á Útvarpi sögu þann 12. desember sl. og virtist afar hrifinn:
,,Ég hef fengið að kynnast á eigin skinni útsjónarsemi og dugnaði hans þegar hann veitti stjórnmálasamtökunum forstöðu sem öttu kappi við Frjálslynda flokkinn."
Það var einmitt það. Ég er ekki jafnfljót að gleyma. Eftir fyrri reynslu mína var ég, ásamt fleirum í miðstjórn, mjög mótfallin því að svo liti út sem um sameiningu væri að ræða, þó svo liðsmenn Nýs afls gætu gengið til liðs við okkar flokk sem einstaklingar svo fremi að samtök þeirra væru lögð niður. En hugmyndir forystu okkar flokks og forystu Nýs afls voru ekki á sama veg og miðstjórnar. Því hefur verið neitað af forystu flokksins að hugmyndin hafi verið að sameina Frjálslynda flokkinn og Nýtt afl. Ég hef í mínum fórum tölvupóst sem Jón Magnússon sendi á Guðjón Kristjánsson, Magnús Þór og Höskuld Höskuldsson þann 1. september 2006 sem lýsir hugmyndum Jóns um blaðamannafund þar sem samstarf flokkanna yrði kynnt. Þar segir:
,,Endilega ekki tveir kallar einir við borð. Nauðsynlegt að hafa konu með. Hafa blómvönd eða skreytingu á borðinu. Hafa salinn skipaðan fólki þannig að það séu milli 10 og 20 manns í salnum fólk sem þekkt er af báðum stöðum. Kveðja, Jón Magnússon"
"Eftir kynningu af Margréti Sverrisdóttur þá liggur fyrir að hún og sannleikurinn eiga ekki alltaf samleið og aðferðir hennar og störf eiga ekkert skylt við eðlilegt félagsstarf. Búið væri að reka hvern einasta framkvæmdastjóra stjórnmálaflokks sem hefði hagað sér eins og hún og unnið gegn hagsmunum eigin flokks."
Mér hefur oft orðið hugsað til sögu sem ég las í menntaskóla þegar ég hugsa um aðkomu forystumanna Nýs afls að Frjálslynda flokknum. Sagan hét ,,Biederman og brennuvargarnir". Í örstuttu máli var sagan á þá leið að herra Biederman vissi að brennuvargar fóru um bæinn hans og brenndu fjölmörg hús til grunna. Þegar brennuvargarnir komu til Biedermans, ákvað hann að taka nógu vel á móti þeim til að þeir fengju sig ekki til að gera neitt á hans hlut. Brennuvargarnir komu sér fyrir á háaloftinu í húsi hans, og fluttu þangað olíutunnur og alltaf var Biederman hinn ljúfasti við þá. Það endaði meira að segja með því að hann færði þeim eldspýtur í þeirri trú að þeir hlytu að hlífa honum ef hann væri nógu samvinnuþýður, Þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig fór.
Þeir sem hafa augun opin hér í dag hljóta að sjá hvað er að gerast í okkar flokki. Liðsmenn Nýs afls lögðu undir sig félagsmiðstöð flokksins í Aðalstræti fyrir þingið og hvað er að gerast hér? Formaður Nýs afls var settur varaþingforseti flestum að óvörum og fólk úr röðum þeirra býður sig fram til trúnaðarstarfa. Ég veit að margt fólk úr röðum Nýs afls er gott fólk sem vill starfa af heilindum. En framkoma forystumanna Nýs afls hefur verið með þeim hætti að ég tel útilokað að þeir bæti ímynd okkar flokks. Ég furðaði mig líka á því þegar fv. varaformaður Nýs afls kom fram í Silfri Egils sem talsmaður Frjálslynda flokksins, maður sem er alls óþekktur innan flokksins sem utan.
Eins og komið hefur fram opinberlega hefur fólk úr öðrum flokkum komið að máli við mig og lýst áhuga sínum á að ég gangi til liðs við það. Ég hef svarað öllum á sama veg: Ég er í Frjálslynda flokknum og hef hugsað mér að vera það áfram. En hvers vegna skyldi annarra flokka fólk sækja á mig um slíkt? Ekki hef ég gefið tilefni til þess. Gæti verið að framganga sumra flokksmanna gagnvart mér hafi vakið hugmyndir þeirra um að ég yrði á lausum kili? Til dæmis látlaus óhróður og rógur fulltrúa Nýs afls í Útvarpi Sögu síðustu mánuði? Aldrei hefur forysta flokksins talið ástæðu til að andmæla þeirri atlögu að mér þó svo varaformaðurinn nefndi það hér áðan að ekki ætti að ræða mál flokksins í fjölmiðlum. Þess í stað hefur forystan kosið að styrkja umrædda útvarpsstöð með lesnum auglýsingum formanns og varaformanns fyrir þetta landsþing og greitt fyrir það nú þegar um tvö hundruð þúsund kr. úr sjóðum Frjálslynda flokksins og kannski eru fleiri reikningar á leiðinni.
Ég vona að mínir fylgismenn láti aldrei draga sig niður á það plan, sem helstu málflytjendur Nýs afls hafa verið á. Og það er rétt að árétta að þeir sem enn eru skráðir félagar í þeim stjórnmálaflokki, geta aldrei verið félagar í Frjálslynda flokknum, hvað þá boðið sig fram til trúnaðarstarfa fyrir flokkinn. Samþykktir Frjálslynda flokksins banna að menn séu jafnframt félagar í öðrum stjórnmálasamtökum og því var lofað að Nýtt afl yrði lagt niður sem stjórnmálaflokkur ef af samstarfi yrði. Við höfum öll heyrt fulltrúa Nýs afls lýsa því yfir að nú séu samtök þeirra eins konar málfundafélag eða félag áhugafólks um þjóðmál. Staðreyndirnar tala hins vegar sínu máli: Nýtt afl var skráð sem stjórnmálaflokkur árið 2003 og um þrjúleytið í gær fékk ég staðfest hjá Fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra að sú skráning stendur enn. (Ég er hér með plögg því til sönnunar þar sem segja að stjórnar- og ábyrgðarmenn séu Guðmundur G. Þórarinsson, Jón Magnússon, Tryggvi Agnarsson og Valdimar Jóhannesson) . Þeir menn, sem enn titla sig formann og varaformann Nýs afls, eiga engan rétt á að vera skráðir í Frjálslynda flokkinn, né heldur aðrir liðsmenn þeirra og samkvæmt lögum flokksins er þeim alls óheimilt að bjóða sig fram til trúnaðarstarfa á þessu þingi.
Sumir hafa gagnrýnt framboð mitt á þeirri forsendu að ég telji mig eiga rétt á varaformannsembættinu af því að ég er kona. Þessu vísa ég alfarið á bug og þykir raunar með ólíkindum að ég skuli þurfa að minna fólk á það starf sem ég hef unnið fyrir flokkinn hingað til. Þeir sem starfað hafa af heilindum innan flokksins vita vel hvað eftir mig liggur: Ég hef komið að stefnumótun Frjálslynda flokksins allt frá því áður en hann var formlega stofnaður (byrjaði raunar með tóma tölvu fyrir framan mig) og hef sinnt fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn, verið talsmaður hans við ótal tækifæri og setið í fjölda nefnda og ráða fyrir hans hönd. Í ljósi þessa þarf enginn að efast um að ég er hæf til að sinna embætti varaformanns og formanns þegar þar að kemur. Ég hef alltaf haft metnað til þess að vera í forystu flokksins og verið þar. Hitt er svo annað mál og það styður vissulega framboð mitt í dag - að við verðum að auka breiddina í forystu flokksins. Kosningaþáttaka kvenna er meiri en karla, en konur kjósa flokkinn okkar síður en karlar, það er staðreynd. En eftir því sem konum hefur fjölgað í flokknum, þeim mun eftirsóknarverðari hefur hann orðið fyrir fleiri konur og ég er sannfærð um að málefni okkar eiga góðan hljómgrunn meðal þeirra.
Ágætu flokkssystkin.Stuðningsmenn mínir eru margir jafnframt stuðningsmenn formanns flokksins. Ég er orðin þreytt á endalausum tilvitnunum í sjómannamál en það er kannski best að tala á þeim nótum: Sumir vilja gjarnan hafa sama ,,skipstjóra" áfram og telja hæpið að skipt sé um ,,stýrimann" þegar flokkurinn er ,,á góðri siglingu". Vafasamt sé að ,,rugga bátnum" - en þeir gera sér ekki grein fyrir að kannski muni flokkurinn ,,steyta á skeri" verði engu breytt. Ég vil líka minna á að þingflokkurinn er ekki Frjálslyndi flokkurinn. Fólkið í flokknum er Frjálslyndi flokkurinn. Þingflokkurinn hefur tekið sér mikið vald. Ég sem ritari flokksins les í blöðum að þeir hafi fengið nýjan liðsmann (og ekki lasta ég hann), en það var heldur ekki borið undir miðstjórn. Þrír menn skipa þingflokkinn okkar og þeir hafa leyft sér að lýsa því yfir æ ofan í æ að þeir séu svo öflugir og færir ,,stýrimenn" að það megi alls ekki hætta á að ,,skipta um áhöfn"! Ég geri mér grein fyrir að mörg ykkar eru í vanda vegna þess vals sem framundan er. En þar sem við Guðjón Arnar sækjum fylgi okkar að miklu leyti til sama hóps er ég sannfærð um að við getum tekið upp að nýju það farsæla samstarf, sem við áttum árum saman. Þannig gætum við barist fyrir framgangi Frjálslynda flokksins í komandi þingkosningum. Flokkurinn verður að koma sameinaður til kosninga í vor. Almennir flokksmenn velja forystu flokksins og ég veit að það gera þeir eftir bestu sannfæringu. Þetta er flokkurinn þeirra. Forystumenn eiga ekki flokkana, þeir eru aðeins kjörnir til að framfylgja stefnumálum þeirra hundruða eða þúsunda sem fylkja sér um baráttumálin. Flokksfólk veit hvað ég stend fyrir, m.a. þau málefni sem ég gat um í upphafi máls míns. Ég vil berjast fyrir málefnum frjálslyndra af fullum krafti hér eftir sem hingað til. Ég vil efla lýðræðisleg vinnubrögð innan flokksins og bæta ímynd hans. Ég óska hér með eftir að fá til þess umboð ykkar í lýðræðislegum kosningum á eigin verðleikum. Ég vil að lokum hvetja mitt stuðningsfólk til að gefa Sólborgu Öldu atkvæði sitt, enda hefur hún sýnt afburða dugnað í starfi fyrir flokkinn undanfarin ár. Takk fyrir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.1.2007 kl. 01:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
26.1.2007 | 20:51
Margréti til forystu
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
25.1.2007 | 23:37
Landsþing á morgun
Landsþing Frjálslynda flokksins hefst formlega á morgun, föstudag kl. 16:00
Ég hlakka til að sitja landsþingið. Það eru alltaf skemmtilegar samkomur, þar sem fólk tekst á af krafti um hin margvíslegu málefni sem Frjálslyndi flokkurinn lætur til sín taka.
Þetta landsþing verður áreiðanlega ekki átakalaust. Ég sækist eftir embætti varaformanns, en þar situr Magnús Þór og ætlar sér að sitja áfram.
Ég er afskaplega þakklát öllum þeim, sem hafa haft samband við mig síðustu daga og lýst yfir stuðningi. Vonandi mætir það fólk allt á landsþingið.Ég hlakka til að sjá ykkur öll!
24.1.2007 | 18:58
Varaformaður gerir lítið úr eigin flokki
Ég mætti Magnúsi Þór í Kastljósinu í gær. Mér þótti margt undarlegt í málflutningi hans, en furðulegast var þó að heyra núverandi varaformann Frjálslynda flokksins lýsa því fjálglega hversu slökum árangri flokkurinn hefði náð. Auðvitað varpaði hann ábyrgðinni af slöku gengi yfir á mig. Varaformaðurinn var greinilega ekkert sáttur við rúmlega 10% fylgi flokksins í borgarstjórnarkosningum, sem er besti árangur sem flokkurinn hefur náð, því það eina sem hann hafði um það að segja var eitthvað á þá leið að þið brennduð af í dauðafæri og var þar að vísa til myndunar meirihluta í borginni. Þessi þið sem hann vísar til eru sjálfsagt ég og Ólafur F. Magnússon, ásamt restinni af borgarstjórnarflokknum. ,,Við" í munni Magnúsar er alltaf þingflokkurinn. Heldur eru þetta nú kaldar kveðjur frá núverandi varaformanni.
Honum finnst hins vegar sæmandi að hreykja sér af eigin árangri á Akranesi, þar sem 300 atkvæði þar eru að hans mati betri árangur en 6500 atkvæði í Reykjavík og reyndar var það Karen Jónsdóttir sem leiddi listann á Skaganum.
Greinilega hafa margir fylgst með viðureign okkar Magnúsar í Kastljósinu í gær. Þeirra á meðal eru Klakinn (www.klaki.blogspot.com) og Stefán Friðrik Stefánsson (www.stebbifr.blog.is)
Fólk í öðrum flokkum hefur líka skoðanir á átökunum í Frjálslynda flokknum, þeirra á meðal Ásta Möller (www.astamoller.is)
Ég finn mikinn stuðning flokksfólks við framboð mitt. Margir hafa skráð sig í flokkinn undanfarna daga. Flestir fylla út eyðublað sem ég sé um að koma á skrifstofu flokksins, aðrir skrá sig á heimasíðu Frjálslynda flokksins www.xf.is
Hægt er að hringja á kosningaskrifstofu mína í s. 517-6996.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)