5.3.2007 | 22:17
Jákvætt fólk á förnum vegi
Ég tók eigin Þjóðarpúls í dag. Fyrst þurfti ég að fara á bensínstöð til að fylla bílinn af bensíni og svo átti ég erindi í bankann. Á báðum stöðum vildi fólk heilsa upp á mig og óska mér alls góðs í baráttunni framundan. Það er ómetanlegt að finna svona stuðning og ég þakka fyrir allar góðar kveðjur. Ég tek sérstaklega mikið mark á fólki á förnum vegi og reyni að hlusta á það sem það hefur að segja. Ef manninum við bensíndæluna liggur eitthvað á hjarta, þá má gera ráð fyrir að það brenni á fleirum.
Þetta var annasamur dagur eins og flestir um þessar mundir, hófst á fundi í Velferðarráði kl. 9 og svo var fundur í Menntaráði frá kl. 10-12 og Forsætisnefnd kl. 13:30-14. Svo vann ég að framboðsmálunum þar til rétt í þessu.
Snemma í fyrramálið fer ég til London og kem aftur síðla á miðvikudagskvöld. Geri ekki ráð fyrir bloggfærslum að utan, það er svo seinlegt á flestum hótelum..
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
3.3.2007 | 16:17
Enn af framboðsmálum
Enn dragast tilkynningar um framboðið á langinn, en það þýðir ekki að ekkert sé að gerast. Við höfum verið að vinna mikið og mikilvægast er að mynda heildstæða stefnu sem það fólk sem ætlar að bera uppi framboðið getur sætt sig við og barist fyrir sem ein heild. Svo eru ótal praktísk atriði sem við höfum verið að undirbúa sem snúa að framkvæmdinni. Sem sagt: Engar fréttir eru góðar fréttir í þessu tilviki.
Ég vil biðjast velvirðingar á fjarveru minni frá bloggheimum, sem skýrist af annríki og einnig af vandræðaástandi sem skapaðist vegna þess að ég þurfti að flytja nettengingu milli staða, ef svo má segja.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
25.2.2007 | 21:58
Græn skán á Sjálfstæðisflokki
Það er pínlegt að sjá hvernig Staksteinar reyna í dag að sannfæra lesendur um að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið að "laga sig að nýjum viðhorfum í umhverfismálum" og þakkar það fyrst og fremst Illuga Gunnarssyni fyrrum aðstoðarmanni Davíðs Oddssonar. Segir að Einar Oddur sé líka kominn í þennan hóp grænna sjálfstæðismanna - en það vill reyndar svo til að Einar Oddur er tengdafaðir Illuga. Fleiri flokksmenn eru nefndir sem hafa viðrað umhverfisvæn viðhorf.
Við skulum ekki láta þetta blekkja okkur nú í aðdraganda kosninga. Það er ekki langt síðan Ólafur F. Magnússon var úthrópaður - í orðsins fyllstu merkingu - af landsfundi Sjálfstæðisflokks af því umhverfisviðhorf hans áttu alls ekki upp á pallborðið í flokknum. Græna skánin er aðeins þunnt lag yfir gráa skrápnum.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur áður lofað þjóðarsátt um stór mál fyrir kosningar en lítið orðið um efndir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
22.2.2007 | 23:31
Þorsteinn Joð og fagnaðarerindi Jóns Baldvins
Jón Baldvin Hannibalsson flutti eldmessu í Bæjarbíói í gærkvöldi og ég ætla að leyfa mér að vísa til myndskeiðs sem frændi minn, Þorsteinn Joð, setti á heimasíðu sína - smá stemmning frá fundinum í máli og myndum:
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
21.2.2007 | 10:49
Framboðsmál
Margar sögur hafa gengið um framboðsmál mín og sumar verulega undarlegar. Ég get líklega engum um kennt nema sjálfri mér, því ég hef ekkert látið uppi. Þannig varð það bara að vera, enda fannst mér nauðsynlegt að fá svigrúm til að vinna að næstu skrefum með helsta stuðningsfólki mínu og vinum. Við vinnum af fullum krafti og það styttist í þetta
Ég sá einhvers staðar að verið var að velta vöngum yfir því að tímaskyn mitt væri ekki eins og annars fólks. Ég boðaði í byrjun mánaðarins að tíðinda af framboðsmálum væri að vænta "handan við hornið" og enn hefur ekkert verið gefið upp. Það er ekkert dularfullt við þetta. Ég minni á að sumir vilja alltaf kalla mig "ungu konuna" í pólitíkinni. Staðreyndin er auðvitað sú að ég telst ekki ung, nema þá einna helst þegar ég heimsæki elliheimilin, eins og einn góður bloggari benti á. En ég get þó lagt mitt af mörkum til að draga tímann svolítið á langinn
Sögurnar, já. Sú skrautlegasta sem ég hef heyrt er reyndar ættuð frá innsta koppi í búri Frjálslyndra. Kappinn sat í heita pottinum í einni sundlauga bæjarins í síðustu viku og gerði sig breiðan. Hann fullyrti að ég hefði nánast grátbeðið forsvarsmenn Frjálslynda flokksins um að fá að koma í herbúðir þeirra á ný, en þeir ekki viljað mig.Þegar ég heyrði þessa sögu fannst mér hún reyndar dálítið fyndin, jafn fjarstæðukennd og hún er. En auðvitað er þetta bara enn ein sorgleg staðfesting á því hve frjálslega sumir menn umgangast sannleikann...20.2.2007 | 18:38
Borgarstjórnarfundur í dag einróma gegn klámkaupstefnunni
Í dag sat ég fund borgarstjórnar sem oddviti borgarstjórnarflokksins. Þar var m.a. rætt um malefi stuðningsbýlisins að Miklubraut 18. Ég tjái mína skoðun á trúarlegri meðferð í grein í sem birtist í Blaðinu í dag.
Þá var rætt um fyrirhugaða ráðstefnu klámiðnaðarins í borginni í byrjun marsmánaðar. Það var einkar ánægjulegt að algjör samstaða var í borgarstjórn, þvert á alla flokka, um tillögu borgarstjóra að yfirlýsingu vegna málsins.
Það er sögulegur áfangi að borgarstjórn skuli senda svo skýr og afdráttarlaus skilaboð til klámiðnaðarins: Við viljum ekki sjá ykkur hér. Við vitum að auglýst kaupstefna klámiðnaðarins getur eyðilagt það öfluga markaðsstarf sem unnið hefur verið á liðnum árum til að markaðssetja Reykjavíkurborg sem alþjóðlega menningar- og ráðstefnuborg.
Svo óska ég Sigurlín Margréti góðs gengis í störfum sínum á Alþingi, en hún tók sæti þar í dag sem óháður þingmaður. Hún er hörkudugleg og ég hlakka til að fylgjast með störfum hennar þar, nú sem fyrr.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 21.2.2007 kl. 10:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.2.2007 | 02:18
Viðtal á Bylgjunni, fertugsafmæli og opið hús
Konudagurinn
Kl. 10-12 í dag var ég í viðtalsþætti hjá útvarpskonunni Valdísi Gunnarsdóttur á Bylgjunni.
Kl. 12:30 - 14:30 var ég í fertugsafmæli svilkonu minnar, Ásdísar Ingþórsdóttur arkitekts á Nordica
Kl.15 - 17 var ég fundarstjóri á opnu húsi í Kvennaheimilinu Hallveigarstöðum í tilefni konudagsins í boði Bandalags kvenna í Reykjavík, Kvenfélagasambands Íslands og Kvenréttindafélags Íslands.
Í kvöld skrifaði ég viðhorfsgrein sem birtist í Blaðinu nk. þriðjudag.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
13.2.2007 | 22:20
Þjóðarsátt fyrir hverjar kosningar
Nú er það þjóðarsátt um náttúruvernd og minnkandi stóriðju, en það vill svo vel til að hún á ekki lengur að vera afturvirk - eins og skilja mátti á Jóni formanni Framsóknar í haust - heldur á hún að byrja að virka 2010 þegar búið verður að spilla Þjórsárverum og fleiri náttúruperlum og setja niður nokkur smærri álver hér og þar á landinu.
Þetta eru máttlaus viðbrögð hræddra stjórnmálamanna við æ háværari kröfu almennings um stöðvun frekari stóriðjuframkvæmda. Kjósendur muna fullvel eftir fagurgala um þjóðarsátt í sjávarútvegi fyrir síðustu kosningar. Hvar er sú sátt nú?
Skyldu stjórnarflokkarnir ekki líka bjóða upp á þjóðarsátt í þágu aldraðra og öryrkja fimm mínútum fyrir kosningar til að reyna að breiða yfir þá staðreynd að þessir hópar hafa iðulega þurft að sækja rétt sinn gagnvart átroðningi ríkisstjórnarinnar til dómstóla!
Ríflega 200 kennarar mótmæltu kjörum sínum með þögulli mótmælastöðu í dag. Mér finnst þörf á þjóðarsátt um bætt kjör kennara.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
11.2.2007 | 19:08
Var enginn að vakta Reykjanesfólkvang?
Við sem myndum borgarstjórnarhóp F-listans en erum nú óháð, veltum því fyrir okkur hvort stjórn Reykjanesfólkvangs hefði gert athugasemdir við þá ógnarflækju háspennulagna sem fyrirhugað er að leggja yfir Reykjanesfólkvanginn frá Hellisheiðarvirkjun og alla leið til Straumsvíkur - með tilheyrandi sjónmengun.
Á borgarráðsfundi sl. fimmtudag lagði ég því fram svohljóðandi fyrirspurn í tveimur liðum:
1) "F-listinn óskar eftir að fá samrit af athugasemdum stjórnar Reykjanesfólkvangs til Skipulagsstofnunar vegna fyrirhugaðra háspennulagna um Reykjanesfólkvang, frá Hellisheiðarvirkjun til Straumsvíkur. Borgarbúar eiga mikilla hagsmuna að gæta þar sem þetta er eitt vinsælasta útivistarsvæði þeirra og fulltrúa Reykjavíkurborgar sem er jafnframt formaður stjórnar Fólkvangsins, ber að verja hagsmuni borgarbúa."
2) " F-listinn óskar jafnframt eftir að fá upplýsingar um afstöðu stjórnar Reykjanesfólkvangs til fyrirhugaðra jarðvarmavirkjana innan fólkvangsins." Óskað var skriflegra svara.
Var það tilviljun að á sama borgarráðsfundi, var eftirfarandi tilkynningu skotið inn í dagskrá á undan fyrirspurnum mínum:
"Borgarráð samþykkir að kjósa Jakob Hrafnsson í stjórn Reykjanesfólkvangs í stað Helenar Ólafsdóttur sem beðist hefur lausnar. " Bróðir Björns Inga hlýtur að taka málið föstum tökum sem formaður, enda er formaðurinn eini pólitíski fulltrúinn í stjórninni, hinir eru skipaðir fulltrúar frá nágrannasveitarfélögum. Hann er kunnur áhugamaður um náttúruvernd sem aðstoðarmaður iðnaðarráðherra Nú bíðum við spennt eftir fundargerð fyrsta fundar undir stjórn nýja formannsins og treystum því að hagsmunir borgarbúa og íbúa þeirra sveitarfélaga sem málið varðar, verði í fyrirrúmi.
P.S. Undirbúningur nýja framboðsins gengur samkvæmt áætlun.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 12.2.2007 kl. 10:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
9.2.2007 | 15:37
Fríkirkjuvegur 11 - afstaða mín til sölunnar
Á borgarráðsfundi í gær var fjallað um margt, enda stóð fundurinn í 5 tíma. Meðal annars var rætt um söluna á Fríkirkjuvegi 11. Ég fagna því að nú er tryggt að þessu fagra og sögufræga húsi verði sýndur sá sómi sem því ber. Ég gjörþekki húsið, enda starfaði ég um árabil hjá Íþrótta- og tómstundaráði borgarinnar. Önnur tilboð sem bárust voru þess eðlis að húsinu hefði stafað ógn af fyrirhugaðri starfsemi. Ég lét bóka eftirfarandi:
"Áheyrnarfulltrúi F-lista óskar bókað: Áheyrnarfulltrúi F-lista styður heilshugar að borgarráð samþykki að fasteignin Fríkirkjuvegur 11 verði seld hæstbjóðanda. Fram kemur í greinargerð sem fylgir tilboðinu að tilboðsgjafi hyggst færa skipulag hússins til upphaflegrar gerðar og lagfæra og endurnýja þiljur og skraut eftir þörfum. Þá verði sýning, tengd sögu hússins og fyrrum eigendum þess á jarðhæð hússins, opin almenningi. Umrætt tilboð er langtum fremra öðrum sem bárust, því það tryggir að húsinu verði sýndur sá sómi sem því ber sem einu sögufrægasta húsi miðborgarinnar. Of mörg slík hafa orðið stofnunum að bráð."
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)