Stefnumót á Snæfellsnesi þriðjudaginn 27. mars

  • c_documents_and_settings_sigurlin_margret_my_documents_my_pictures_slandshreyfingin_logo_isl-hreyf-48  

    Komdu á stefnumót við Íslandshreyfinguna - lifandi land á Snæfellsnesi þriðjudaginn 27.mars.

  • Súpu-og hádegisspjallfundur Hótel Ólafsvík kl. 12
  • Kaffifundur Arnarbæ Arnarstapa kl. 15
  • Kvöldfundur Narfeyrarstofu Stykkishólmi kl. 18
  • Margrét, Ómar, Jakob og Ósk leggja með sér, hlusta, svara og spyrja.

              Söngur og stemning.   Allir velkomnir.


    Íslandshreyfingin fer strax af stað

     Íslandshreyfingin hóf hringferð sína um landið um helgina með mjög vel heppnuðum fundum á Akranesi og í Borgarnesi. Auk umhverfismála snerist umræðan einkum um atvinnumál, efnahagsstjórn, byggðamál og velferðarmál.

    Flokkurinn mældist strax með 5% í könnun Fréttablaðsins, daginn eftir að tilkynnt var um stofnun hans, en könnun Morgunblaðsins var ívið hærri. Þar sögðust um 15% aðspurðra vera tilbúnir að kjósa flokkinn.  Ég vil vekja sértaka athygli á því að Sjálfstæðisflokkur og Frjálslyndir töpuðu álíka miklu fylgi og Íslandshreyfingin fékk. Það er alveg á skjön við margtuggin ummæli í fjölmiðlum í dag um að við tökum bara frá vinstri flokkunum.

    Mikill fjöldi fólks hefur þegar skráð sig á: islandshreyfingin@simnet.is og í síma 694- 2100. Höfuðstöðvar flokksins í Reykjavík eru að Kirkjustorg 4 í miðbæ Reykjavíkur (hjá Dómkirkjunni og fyrir ofan Vínbarinn) og í Suðvesturkjördæmi að Hlíðarsmára 10 í Kópavogi (formlegur opnunartími kosningaskrifstofa verður nánar auglýstur).

    Kæru lesendur!  Gott gengi Íslandshreyfingarinnar er forsenda fyrir því að hægt sé að velta stóriðjuflokkunum þremur (xD, xB og xF) úr sessi.


    Vertu með frá upphafi!

    Í gær kynntum við framboðið og nú leggur Íslandshreyfingin - lifandi land strax af stað í fundaferð. 

    Á morgun, laugardaginn 24. mars, verðum við á AKRANESI í hádeginu, nánar tiltekið á kaffihúsinu Skrúðgarðinum, kl. 12:15.

    Síðan ætlum við að vera í Landnámssetrinu í BORGARNESI kl. 15:15 á morgun.

    Ég hvet alla sem hafa áhuga á nýju framboði til að koma og hitta okkur og spjalla! 

    Mætið - það felst engin skuldbinding í því að ljá okkur eyra og heyra hvað við höfum fram að færa.

    Verið með frá byrjun! 

     


    Framboðið tilkynnt í dag

    Í dag kl. 14:00 boðum við Ómar Ragnarsson til blaðamannafundar í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu þar sem við kynnum  nýja framboðið okkar ásamt þeim Jakobi Frímanni Magnússyni og Ósk Vilhjálmsdóttur.

    Ástandið fyrir vestan

    Ég hef þungar áhyggjur af ástandinu á þeim stað sem mér þykir sérlega vænt um og get leyft mér að kalla mína aðra heimabyggð, Ísafirði.

    Þaðan hafa nýverið borist fréttir þess efnis að atvinnuástand fari versnandi og að með sama áframhaldi verði vaxandi atvinnuleysi fyrirsjáanlegt í náinni framtíð.   Með vaxandi atvinnuleysi aukast fólksflutningar af svæðinu.

    Haldinn var borgarafundur á Ísafirði um atvinnumálin og var þungt hljóð í fólki. Í kjölfar fundarins skipaði forsætisráðherra nefnd sem á að gera tillögur um eflingu atvinnulífs á Vestfjörðum. Nefndin skilar tillögum innan skamms og vonandi verða þær bæði framsæknar og raunhæfar. 

    Ég hef fylgst með þróun atvinnuástandsins vestra og séð hversu grátt kvótakerfið hefur leikið þennan bæ sem var svo blómlegur áður fyrr með iðandi líf við höfnina.  Atvinnulífið verður að fá innspýtingu og stjórnvöld hafa það í hendi sér að veita hana, í formi sértækra aðgerða eða með því að gera sérstakar ráðstafanir til að laða fyrirtæki að svæðinu, svo sem með skattaívilnunum þeim til handa. 

    Vestfirðingar verðskulda leiðréttingu vegna kvótakerfis stjórnvalda sem hefur verið að knésetja byggðirnar.

     


    Olíuforstjórar sleppa!

    Fyrrverandi forstjórar stóru olíufélaganna þriggja, Olíuverslunar Íslands, Olíufélagsins og Skeljungs voru í dag lausir undan öllum ákærum því málinu gegn þeim var vísað frá.  Þeir sleppa á grundvelli málsfmeðferðargalla... gat nú verið! Ég bjóst alltaf við að undankomuleið þeirra væri greið, vissi bara ekki alveg hvernig lögmennirnir myndu snúa sér í því...

    Undankomuleiðin felst í því að vafi leikur á því hvort einstaklingar geti borið refsiábyrgð hafi fyrirtæki sem þeir starfa hjá stundað ólöglegt samráð eða misnotað markaðsráðandi stöðu sína. Allan vafa um heimild til refsingar verði þá að túlka sakborningi í vil.

    Forstjórarnir voru ákærðir fyrir brot á samkeppnislögum, fyrir að hafa haft ólögmætt samráð, ýmist sjálfir eða fyrir milligöngu undirmanna, í þeim tilgangi að hafa áhrif á og koma í veg fyrir samkeppni. Meint brot snerust um hundruðir milljóna.

    Það rifjaðist upp fyrir mér þegar ég heyrði þessa frétt að undirmálsmaður einn fékk allharðan dóm fyrir að stela frosnu lambalæri í matvöruverslun.  Ekki var þess getið hvort málsmeðferð var gölluð í hans tilviki.

     


    Gröndalshús áfram í miðborginni?

    Ég lagði það til í borgarstjórn nýlega að hús Benedikts Gröndal fengi að standa þar sem það er.  Mér finnst synd að rífa hús upp með rótum til að koma þeim fyrir á safni.  Þessari tillögu minni var vísað frá, en hins vegar lagði borgarstjóri til að skipulagsráði yrði falið að kanna hvort unnt væri að fina húsinu stað í Grjótaþorpinu.  Það væri skemmtilegt að eiga ,,skáldahús" þar, enda myndi það njóta sín á þeim stað.  Akureyringar hafa sýnt sínum skáldum mikinn sóma með Davíðshúsi, Sigurhæðum Matthíasar og Nonnahúsi.  Ekki hafa hús reykvískra skálda verið varðveitt sérstaklega til minningar um þau skáld sem í þeim bjuggu.Benedikt Gröndal var eitt merkasta skáld sinnar tíðar á Íslandi og endurminningar sínar, Dægradvöl, skráði hann í Gröndalshúsi. Sú bók er merk heimild varðandi sögu Reykjavíkur á 19. öld.  Væri verðugt að koma þar upp safni til minningar um Benedikt Gröndal og samtíð hans í Reykjavík.  Einnig kæmi til greina að hafa í húsinu lifandi starfsemi sem félli að aldri og sögu hússins, svo fremi að húsið sjálft væri alfriðað. 

     


    Frétt af Lundúnaferð

    Vegna fréttar í Fréttablaðinu í dag af kvennaferð til Lundúna, vil ég taka fram að það eina sem ég hef sagt um ferðina er það sem eftir mér var haft innan gæsalappa, enda birtist það hér á síðunni. "Þetta var frábær ferð og ég naut þeirra forréttinda að vera með stórum og skemmtilegum hópi kvenna". 

    Allt annað hefur blaðið frétt annars staðar frá, en ég hef orðið vör við að ýmsir telja það vera eftir mér haft.  Þetta leiðréttist hér með enda tek ég undir með einni samferðakonu minni sem sagði:  "What happened in London stays in London" Tounge


    Baráttuhátíð Bríetanna í gær og "Gettu betur" í kvöld

    Í gær fór ég á baráttuhátíð Bríetanna á Barnum.  Það var ótrúlega góð stemmning þar, fullt út úr dyrum af fjörugum femínistum af báðum kynjum.  Vel hafði verið vandað til undirbúnings og var boðið upp á fjölmörg skemmtiatriði, spurningakeppni, söng og fleira.  Ég var beðin um að ávarpa samkunduna og gerði það.  Ég mæli heilshugar með þessari árvissu baráttuhátíð Bríetanna á Alþjóðadegi kvenna 8. mars.

    Í kvöld horfði ég svo á spurningakeppni framhaldsskólanna ,,Gettu betur" á RÚV.  Þar kepptu tvö lið, bæði skipuð strákum eingöngu.  Bæði liðin töldu líklegt að þau kæmu aftur til leiks, eins skipuð, að ári.  Hvers vegna í ósköpunum er ekki skylda að hafa amk. einn keppanda af "hinu kyninu" í hverju liði?  Svona keppnir hafa geysilega mikil áhrif á sjálfsmynd ungmenna.  Strax í grunnskóla er hafist handa við að sérþjálfa stráka í svona keppnum en þar ætti þó að vera kynjakvóti af þeirri einföldu ástæðu að um er að ræða uppeldisstarf ómótaðra grunnskólabarna. 

    Stelpurnar okkar eru aldar upp í að vera klappstýrur og áhorfendur að vitsmunakeppni stráka. 

    MA-liðið er sannarlega ánægjuleg undantekning, svo ekki sé meira sagt, með tvær stelpur og einn strák og auðvitað hefur liðið staðið sig með miklum sóma. 


    Hremmingar og stemmningar

    Stuttri heimsókn til London lokið. Þetta var frábær ferð og ég naut þeirra forréttinda að vera með stórum og skemmtilegum hópi kvenna.

    Mér sýnist ég ekki hafa misst af miklu í pólitíkinni hérna heima síðustu tvo sólarhringa. Framsóknarflokknum hefur tekist að snúa upp á handlegginn á samstarfsflokknum vegna auðlindaákvæðisins. Alltaf áhugavert að sjá menn hrökkva upp af værum blundi rétt fyrir kosningar.

    Frjálslyndi flokkurinn á ekki sjö dagana sæla. Nú hefur leiðtogi þeirra á Akranesi yfirgefið flokkinn og það hlýtur að teljast áfall, sama hvernig Magnús Þór bölsótast. Hann veit ósköp vel –og viðurkenndi raunar í samtali við Skessuhorn- að Karen Jónsdóttir sótti það mjög stíft að kona frá Akranesi skipaði 2. sæti á lista Frjálslyndra í Norðvesturkjördæmi og Magnús Þór studdi þá tillögu. En svo sneri hann við blaðinu þegar Kristinn H. Gunnarsson gekk til liðs við flokkinn og segir núna að pólitískt landslag hafi breyst. Þetta sætti Karen sig auðvitað ekki við. Hringlandahátturinn í Magnúsi Þór hefði hins vegar ekki átt að koma nokkrum manni á óvart.

    Frá öðrum hremmingum Frjálslynda flokksins var sagt í fréttum RÚV í gær.

    Frétt RÚV er svohljóðandi:

    Iðnþing: Frjálslyndum úthýst

    Engum fulltrúa Frjálslynda flokksins er boðið að taka þátt í iðnþingi Samtaka iðnaðarins sem haldið verður á föstudaginn í næstu viku.

    Á þinginu munu m.a. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, og Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, koma fram sem álitsgjafar. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins er Illugi Gunnarsson.

    Þingið ræðir hvernig velsæld verður áfram tryggð á Íslandi. Í bréfaskriftum milli frjálslyndra og Samtaka atvinnulífsins, sem fréttastofa hefur undir höndum, kemur fram að samtökin hafi við skipulagningu þingsins gert ráð fyrir að Margrét Sverrisdóttir kæmi fram fyrir hönd frjálslyndra en hún sé nú gengin úr flokknum og ekki sé hægt að breyta dagskrá þingsins.


    « Fyrri síða | Næsta síða »

    Innskráning

    Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

    Hafðu samband