Evrópusambandið - breyttar forsendur

Mér hefur verið núið því um nasir nýverið að ég hafi breytt um afstöðu gagnvart inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Það er vegna þess að fyrir nokkrum árum skrifaði ég grein um afstöðu mína til Evrópusambandsins þar sem ég var mótfallin inngöngu Íslands í ESB.  Ekki löngu áður en ég skrifaði hana hafði Franz Fischler, þáverandi yfirmaður sjávarútvegsmála Evrópusambandsins, talað tæpitungulaust varðandi undanþágur til handa Íslendingum. Hann útilokaði varanlega undanþágu fyrir Ísland frá sjávarútvegsstefnu sambandsins. Hann útilokaði að Íslendingar gætu gengið í Evrópusambandið og jafnframt haldið fullum yfirráðum yfir sjávarauðlindinni. Fischler sagði hreint út að við myndum missa yfirráð okkar yfir miðunum í kringum landið frá 12 mílum að 200 mílum ef við gengjum í sambandið. Það lá sem sagt fyrir að formleg yfirráð yfir Íslandsmiðum yrðu í höndum framkvæmdastjórnar ESB ef kæmi til aðildar Íslands að Evrópusambandinu.  Í ljósi þessara upplýsinga varaði ég eindregið við inngöngu í Evrópusambandið eins og staðan var þá, enda værum við þar með að gefa frá okkur fullveldi og sjálfstæði Íslands. 

Hvað hefur breyst?

Ég hef alltaf haft þann fyrirvara að á meðan stefna Evrópusambandsins væri óbreytt varðandi yfirráð yfir okkar auðlindum kæmi aðild Íslands að ESB ekki til greina.  En nú hefur tónninn breyst og meira að segja Þorsteinn Pálsson fyrrum forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins heldur því fram að við getum vænst þess að halda yfirráðum yfir fiskimiðunum okkar.Önnur breyting á högum Íslendinga er sú að eftir brotthvarf varnarliðsins hafa ráðamenn leitað hófanna varðandi samninga um varnir.  Það hlýtur að teljast eðlilegast að hugað sé að samstarfi við aðrar Evrópuþjóðir, ekki síst nágrannalöndin Noreg og Danmörku, um ýmis verkefni á sviði öryggismála.  Þriðja breytingin er sú að sá óstöðugleiki sem hefur einkennt krónuna um langa hríð hefur valdið því að við virðumst aðeins eiga um tvennt að velja: Að halda áfram með krónuna og flotgengisstefnuna eða taka upp evru með aðild að Evrópusambandinu. 

Efasemdir

Við Íslendingar erum sannarlega Evrópuþjóð en þrátt fyrir það hef ég ennþá mínar efasemdir gagnvart Evrópusambandinu.  Lýðræði innan Evrópusambandsins hefur verið gagnrýnt á þeirri forsendu að þar vanti grasrótartengingu, þ.e. lýðræðið kemur ekki frá grasrótinni heldur er yfirborðskennt og fjarlægt almenningi í þeim löndum sem tilheyra ESB. Það er langur vegur frá almenningi í hverju aðildarlandi til ákvarðana framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Þá má einnig velta því fyrir sér hvernig Evrópusambandið mun þróast næstu áratugina. Hversu langt í suður nær hin nýja Evrópa Evrópusambandsins?  Lengra en til Tyrklands? Og hversu langt í austur teygir hin nýja Evrópa sig? Alla leið til Kamchatka í Rússlandi? Þurfa komandi kynslóðir á Íslandi hugsanlega að ganga í samevrópskan her? Það er ástæða til að velta þessum atriðum fyrir sér, ásamt fjölmörgum öðrum.   

Stefna Íslandshreyfingarinnar

Íslendingar geta ekki hugað að inngöngu í ESB nema uppfylla skilyrði til þess, en þau uppfyllum við ekki nú. Í stefnuskrá Íslandshreyfingarinnar segir að nota skuli næsta kjörtímabil til að gera úttekt á kostum og göllum þess að Ísland gangi í Evrópusambandið.  Í þessu felst að við munum skilgreina samningsmarkmið okkar og vega og meta kosti og galla.  Þegar sú úttekt liggur fyrir er hægt að hefja samningaviðræður og eftir að niðurstaða er fengin þarf þjóðaratkvæðagreiðslu um hana. Hjá Eystrasaltslöndunum tók þetta ferli næstum áratug og það má ætla að það taki varla skemmri tíma fyrir okkur. Algjört skilyrði verður að við höldum fullum yfirráðum yfir okkar auðlindum.



(Viðhorfsgrein í Fréttablaðinu 17. apríl)


Líf og fjör!

Það er mikið fjör að færast í kosningabaráttu Íslandshreyfingarinnar og nóg að gera þessa dagana. Við erum að ljúka við að koma saman framboðslistunum og í gær héldum við góðan fund með væntanlegum frambjóðendum. Næstu daga er svo fjöldi funda á dagskránni:

Í dag mæti ég á stjórnmálafund í Kennaraháskóla Íslands, þar sem verða fulltrúar frá öllum flokkum.

Í fyrramálið kl. 8-9:30 er morgunverðarfundur á Grand Hóteli á vegum ellefu kvennasamtaka undir yfirskriftinni: 

Launamisrétti kynjanna - úr sögunni árið 2070 eða hvað?

Ég mæti fyrir hönd Íslandshreyfingarinnar Lifandi lands. Þarna verða fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna og fundurinn er öllum opinn.

Á morgun held ég líka fyrirlestur um stjórnmálaþátttöku kvenna hjá Exedra, sem er félagsskapur kvenna í stjórnmálum, atvinnulífi og menningargeiranum.

Það er gaman að komast út á meðal fólks og kynna stefnu Íslandshreyfingarinnar. Við finnum mikinn meðbyr þessa dagana, sem mun bara aukast þegar listarnir okkar liggja fyrir, með öllu því góða fólki sem þar verður að finna.

 

 

 


Fundur í Reykjanesbæ í kvöld og fundur um fiskveiðimálin í Iðnó í gær

Í kvöld verður Íslandshreyfingin með opinn spjall- og skemmtifund á Ránni í Reykjanesbæ, þar sem stefnan verður kynnt og hlustað eftir viðbrögðum.  Lifandi tónlist í lok fundar.  Allir velkomnir.

Vorum með fund í Iðnó í gærkvöldi þar sem Friðrik Arngrímsson frá LÍÚ og Arthur Bogason frá Landsambandi smábátaeigenda tókust á og sátu fyrir svörum. Mjög áhugaverðar umræður.

 

 


Fundir á Egilsstöðum og Höfn

Í dag, 10. apríl, er Íslandshreyfingin með fund í veitingaskálanum á Egilsstöðum kl. 12.

Í kvöld kl. 21 er fundur í veitingahúsinu Vík á Höfn í Hornafirði.

Komið og kynnið ykkur málefnaskrá Íslandshreyfingarinnar - lifandi lands!

Allir velkomnir!


Aldrei fór ég suður

Ég óska landsmönnum öllum gleðilegra páska.  Ég er stödd á Ísafirði og hér slær hjarta rokktónlistarinnar með tónleikunum "Aldrei fór ég suður".  Skrapp í gærkvöldi og kíki aftur í kvöld þegar ættmenni láta ljós sitt skína. 

Íslandshreyfingin er að vinna að uppstillingu lista um páskana.

 


Stofnfundur ungliða og hringferðin um landið

Í kvöld (mánudag 2. apríl) var stofnfundur unga fólksins hjá okkur í Íslandshreyfingunni.  25 frábær ungmenni úr framhaldsskólum og háskólum voru mætt í Kirkjuhvol og komu með fjölmargar mjög góðar hugmyndir fyrir baráttuna framundan.  Virkilega skemmtilegur fundur og flestir gáfu kost á sér til stjórnar svo áhuginn var mikill. 

Á morgun dreifum við okkur um landið (klofið framboðGrin), ég ek til Ísafjarðar þar sem ég verð á stjórnmálafundi hinn daginn og aðrir fara norður á Blönduós og Sauðárkrók. Dagskráin á morgun og hinn:

Þriðjudagur 3. apríl.

12:00 Blönduós, veitingahúsið Við árbakkann. Súpa, spjall og söngur. Ómar og Ósk. 17:00 Sauðárkrókur, Kaffi Krókur.Kaffi, kleinur, spjall og söngur. Guðrún Ásmunds, Ómar, og Ósk.  

Miðvikudagur 4. apríl.

10:00 Fundur á Litla Hrauni með frambjóðendum allra flokka.

 12:00 Húsavík, veitingahúsið Salka.Súpa, spjall og söngur. Ómar, Jakob og Ósk.

Ísafjörður/Bolungavík. Almennur stjórnmálafundur í NV kjördæmi. 

Frá Íslandshreyfingunni: Margrét Sverrisdóttir

Fundur á Akureyri og ferming

Í dag fór ég með Ómari Ragnarssyni,  Ósk Vilhjálmsdóttur og Jakobi Frímanni Magnússyni  til Akureyrar og héldum við góðan fund á kaffihúsinu Bláu könnunni.  Við erum að vinna að uppstillingu lista fyrir öll kjördæmi. 

Heimasíðan okkar, www.islandshreyfingin.is er komin í loftið og verður efni bætt inn á hana jafnt og þétt næstu daga.

Svo náði ég í seinni hluta fermingarveislu hjá systurdóttur minni.  Til hamingju með daginn, elsku Marta Bryndís!


Lýðræði í þágu þjóðar?

Þegar þetta er skrifað er búið að telja öll atkvæði í íbúakosningu í Hafnarfirði um hvort stækka skuli álverið í Straumsvík.  Úrslitin eru ekki afgerandi, kjósendur skiptast í tvo nánast jafnstóra hópa. 6382  eru á  móti stækkun en  6294 eru fylgjandi stækkun.   Það munar innan við hundrað atkvæðum á milli fylkinga.

Tæplega 13.000 manns greiddu atkvæði um þetta mál sem varðar alla þjóðina. 

Við í Íslandshreyfingunni teljum, að mál sem varða alla þjóðina, eigi ekki að afgreiða á sveitarstjórnarstiginu einu.  Það varðar ekki bara eitt sveitarfélag hvort stærsta álver í Evrópu rís þar eða ekki.  Það varðar alla þjóðina.

 


Íslandshreyfingin með 5,2% í fyrstu Gallup-könnun

Gallup30mars07  Ég vil þakka þeim sem lýstu stuðningi við Íslandshreyfinguna - lifandi land í fyrstu Gallup-könnun sem mælir fylgi við okkur.  Það er mjög hvetjandi að finna þennan hlýhug og stuðning þegar við erum rétt að byrja - hvernig sem fer.

Ég hvet ykkur öll sem hafið áhuga á Íslandshreyfingunni, til að fylgjast með okkur og koma í heimsókn þegar við höfum opnað kosningaskrifstofur.  

Við setjum efni inn á heimasíðuna okkar: www.islandshreyfingin.is um helgina. 

Verið með frá upphafi, það er gaman!


Fjölmiðlaframboð

Það er orðið þannig, að fjölmiðlarnir stýra kosningabaráttunni.  Nú er hafin hringferð Stöðvar 2 um kjördæmi landsins.  Fyrsta beina útsendingin var frá Stykkishólmi í kvöld.  Stjórnendur sögðu okkur í Íslandshreyfingunni að við fengjum að vera með ef við værum búin að tilnefna fulltrúa fyrir hádegi í dag.  Við gerðum það.  Helga Jónsdóttir, vélsmiður frá Akranesi, ætlaði að vera okkar fulltrúi í Norðvesturkjördæmi í umræðunum og því var brunað alla leið til Stykkishólms. 

Þegar þangað kom var okkur sagt að við fengjum ekki að taka þátt af því reglurnar hefðu verið þannig í fyrra að enginn fékk að taka þátt nema vera búinn að kynna lista í kjördæminu.  Þeir hefðu mátt vita það umsjónarmennirnir þegar þeir sögðu fyrir hádegi sama dag að við yrðum með.  En þá vissu þeir reyndar ekki að Frjálslyndir og VG yrðu æfir þegar þeir fréttu að okkur yrði hleypt að.

Það þarf ekki að tilkynna um framboð fyrr en eftir mánuð skv. kosningalögum.  En fjölmiðarnir eru farnir af stað.  Það eru 5 dagar síðan við kynntum okkar framboð og listar verða ekki kynntir fyrr en eftir páska.  Þá verðum við búin að missa af þessari fjölmiðlalest.

Svo gera fjölmiðlar umræðuna óheyrilega leiðinlega með sínum úrelta hanaslags-stíl.  Á okkar vegum var mætt ung kona sem lætur sér fátt fyrir brjósti brenna - hún er vélsmiður og eina konan í slökkviliði Akraness - en það er ekki öfundsvert að mæta í sjónvarp í svona þátt.  Hversu margir skyldu hafa skipt um stöð?  Þessi dagskrárgerð er úrelt og það væri forvitnilegt ef stjórnendur sjónvarpsstöðvarinnar mældu áhorf á svona þætti.  Þeir geta gert það um leið og þeir mæla fylgi við flokkana, sem virðist gert daglega.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband