Nýtt miðborgarfélag – án aðkomu íbúa?

 Reykjavíkurborg hefur samþykkt að stofna nýtt miðborgarfélag og gert er ráð fyrir því að hverfisráð miðborgarinnar verði lagt niður samhliða stofnun hins nýja félags.Ég hefði talið einna mikilvægast að tryggja aðkomu íbúa miðborgarinnar að nýju miðborgarfélagi, en það gera framlagðar samþykktir hins nýja miðborgarfélags ekki.  Væri ekki einfalt mál að breyta því?  Hvaða meginreglur vill borgarstjórn hafa varðandi aðkomu íbúa og íbúalýðræði yfirleitt?  Hvaða sýn hefur borgarstjórn Reykjavíkur á íbúalýðræði?      

 

 

 

Íbúalýðræði

Íbúalýðræði á ekki að vera sýndarmennska heldur á þátttaka íbúa í stjórnun borgarinnar að vera raunverulegt samráð. Þess vegna eiga íbúar að koma að ákvarðanatöku á fyrstu stigum svo að þekking þeirra nýtist og fleiri valkostir komi fram  strax í upphafi, en ekki þegar ákvörðun liggur fyrir. Þannig er tryggt að rödd íbúanna heyrist og að á  hana sé hlustað.Skoðun íbúa skiptir máli og hana ber að virða.      
Virkt íbúalýðræði byggir á aðgengi að upplýsingum, gagnrýninni umræðu og forgangsröðun verkefna í samstarfi  við íbúa.  Aðkoma íbúa verður að vera tryggð frá upphafi og þeir þurfa að vera virkir þátttakendur við markmiðasetningu, stefnumótun, leiðaval og framkvæmdir. Virkt íbúalýðræði er forsenda þess að vel takist til með þéttingu byggðar og breytingar á skipulagi  og þjónustu. Stjórnmálamenn eiga að vinna með fólki og fyrir fólk og þess vegna skiptir skoðun íbúanna svo miklu máli.   

 

 

 

Sterk íbúasamtök eru nauðsynlegSterk íbúasamtök eru forsenda þess að hægt sé að hafa virkt íbúalýðræði. Það er æskilegt að færa aukið vald til íbúa í málefnum nærumhverfis, þ.e. innan hverfa. Íbúar eru bæði eigendur og viðskiptavinir sveitarfélagsins, allar framkvæmdir og þjónusta eiga að taka mið af lífsgæðum þeirra og eru því samstarfsverkefni. Og þekking íbúa er hvergi meiri en á sínu nærumhverfi, þar eru þeir sérfræðingar. Þess vegna eiga íbúar að vera með alla leið frá frumhugmynd í gegnum stefnumótunarferlið að ákvörðun. Til þess þarf að skapa vettvang þar sem íbúar og stjórnmálamenn starfa saman á jafnræðisgrundvelli.  Sú leið er ekki farin með því félagsformi sem liggur fyrir um miðborgarfélagið. Framsækin sveitarfélög eru  samfélög með sameiginleg gildi og markmið sem hvetja til heilbrigðis og hollra lifnaðarhátta og stuðla þannig að auknum lífsgæðum. Þau leitast við að efla félagsauð og liðsheild því góður árangur byggir á framlagi allra. Þess vegna kanna þau ánægju íbúa með þjónustu og gera sér grein fyrir því að með þátttöku sem flestra íbúa fást betri ákvarðanir. Í fyrirtækjum er þessi aðferð kölluð gæða- og þekkingarstjórnun og skilar góðum árangri.   

 

 

 

Áhrif verða tengd veltuÞað er raunverulegt áhyggjuefni að áhrif frjálsra félagasamtaka innan hins nýja miðborgarfélags skuli verða tengd veltu þeirra (þ.e. veltu félagasamtakanna sjálfra). Þá má nefna sem dæmi að Torfusamtökin koma varla til með að hafa nokkur áhrif, enda líklega ekki með háa veltu, en þó geta flestir fallist á að afar mikilvægt er að þau fái að koma sjónarmiðum sínum að. Öll miðborgin er í mótun.  Svæðið kringum Tónlistar- og ráðstefnuhúsið, nýtt Lækjartorg og endurbygging húsanna sem brunnu á horni Lækjargötu og Bankastrætis, svo það helsta sé nefnt.  Eiga hagsmunaaðilar í atvinnurekstri að ráða meiru um þróun miðborgarinnar í krafti fjármagns heldur en íbúarnir sjálfir? Er ekki mikilvægara að hagsmunir borgarinnar sjálfar og borgarbúa séu í fyrirrúmi?  Ég vara við þessari þróun, því það getur farið svo að borgin ráði minnstu um framþróun í skipulagsmálum, heldur elti bara duttlunga fjármagnsins hverju sinni. Samráð íbúa og stjórnvalda verður að byggja á gagnkvæmu trausti og vera trúverðugt.  Virkjum mannauð borgarbúa - skoðun þeirra skiptir máli.
  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guttormur

Borgaryfirvöld virðast algjörlega hafa það í hendi sér hvort íbúalýðræði sé í heiðri haft.  Á tillidögum og fyrir kosninar eru fögur loforð gefin um slíkt.  íbúasamráð þekkist ekki hér í Laugardalnum þar sem yfirvöld ætla sér með góðu eða illu að  troða íbúðarhúsi nánast ofaní skólagarðana hér við enda Holtavegar.  Því miður ekkert hlustað á okkur borgarbúa og íbúsamtök.

Andrea Þormar 

Guttormur, 19.6.2007 kl. 09:39

2 identicon

Ætli það sé meiningin að leggja niður öll hin hverfisráðin? Síðustu tvö árin hef ég heyrt talað um íbúalýðræði á tillidögum sumra stjórnmálamanna. Íbúalýðræði þykir mjög gott þegar eitthvað jákvætt frumkvæði kemur frá íbúum eins og að halda sjálfsprottnar hverfishátíðir eða annað í þeim dúr, þá vilja borgarfulltrúar mjög gjarnan tengjast því á einhvern hátt. En þegar kemur að skiðulagsmálum þá er passað að halda íbúum víðsfjarri. Þeirra aðkoma á einungis að vera sú að kynna sér illa auglýstar skipulagstillögur hjá skipulagsráði og senda inn athugasemdir og vona að tillit verði tekið til þeirra. Um samráð er sjaldan að ræða. Íbúum er stillt upp sem leiðindagaurnum, þeir fá bara það hlutverk að kvarta, það er ekki annað í boði.

kv.

Sigríður

Ps. Þetta er góð grein hjá þér Margrét. 

Sigríður (IP-tala skráð) 21.6.2007 kl. 11:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband