Brennuvargarnir (birt í 24 stundum 29. sept. ´08)

Ýmsir muna eftir landsþingi Frjálslynda flokksins fyrir tæpum tveim árum, þegar algjört öngþveiti varð í kringum kosningar um varaformann flokksins.  Í krafti reynslu minnar af því að vera í forystu flokksins um árabil hafði ég boðið mig fram til þess embættis gegn Magnúsi Þór Hafsteinssyni, varaformanni flokksins.  Andstæðingar mínir héldu því fram, að ég hefði búið til málefnaágreining vegna afstöðu sumra flokksmanna til innflytjenda, til þess að sækjast eftir valdastöðu innan flokksins. Ég hafði þá talið nauðsynlegt að árétta stefnu flokksins varðandi innflytjendur, enda hugnaðist mér ekki málflutningur Jóns Magnússonar o.fl. um þau mál.  

Ágreiningur innan flokksins hófst nokkrum mánuðum fyrir landsþingið, þegar þáverandi þriggja manna þingflokkur, undir forystu Guðjóns Arnars Kristjánssonar formanns, hafði forgöngu um að taka upp samstarf við stjórnmálaflokkinn Nýtt afl, þar sem Jón Magnússon var formaður.  Þetta gerði Guðjón Arnar af ótta við að Nýtt afl kynni að fara í annað sinn gegn Frjálslynda flokknum í væntanlegum kosningum og ekki síst til að styrkja sjálfan sig áfram í sessi sem formann Frjálslyndra.  Ég fór aldrei dult með andúð mína á þeim fyrirætlunum, enda taldi fjöldi flokksmanna slíkan samruna ekki verða Frjálslyndum til fylgisaukningar, heldur þvert á móti, því Nýtt afl var þá þegar dautt afl.

Á landsþingi Frjálslynda flokksins í janúar 2007, varð ljóst að Nýtt afl hafði náð tökum á forystu  flokksins og vildi yfirtaka hann.  Þá varaði ég formanninn við og sagði að aðkoma Nýs afls að Frjálslynda flokknum minnti mig á svörtu kómedíuna eftir Max Frisch: Biedermann og brennuvargarnir.  Í örstuttu máli var sú saga á þá leið, að herra Biedermann vissi að brennuvargar fóru um bæinn hans og brenndu fjölmörg hús til grunna.  Þegar brennuvargarnir komu heim til Biedermanns, ákvað hann að taka nú nógu vel á móti þeim til þess að þeir færu ekki að gera neitt á hans hlut.  Brennuvargarnir komu sér fyrir uppi á háalofti í húsinu hans og fluttu þangað olíutunnur, en Biedermann gat aldrei tekið af skarið og var ætíð hinn ljúfasti við þá.  Það endaði meira að segja með því að hann færði þeim eldspýturnar í þeirri trú að þeir hlytu að hlífa honum ef hann væri nógu samvinnuþýður.  

Ég held að Guðjón Arnar hafi ekki skilið dæmisöguna mína þá, en hann skilur hana kannski nú.  Valdimar Jóhannesson, hægri hönd Jóns Magnússonar alla tíð, birti í Morgunblaðinu þann 19. september sl.  lítt dulbúna hótun í garð Guðjóns undir fyrirsögninni ,,Glymur klukkan Kristni eða Guðjóni?".  Sá pistill  er skrifaður eftir að miðstjórn Frjálslynda flokksins krafðist þess að Jón Magnússon yrði gerður að þingflokksformanni og Kristinn settur af.  Þar hótar Valdimar því, að ef Guðjón bregðist ekki við kröfu miðstjórnar um að setja Kristin af, muni það hafa áhrif á stöðu formannsins.

Mér virðist Kristinn H. Gunnarsson vera í svipuðum sporum og ég var áður.  Honum hugnast ekki sú útlendingaandúð sem Jón Magnússon, Magnús Þór Hafsteinsson og fleiri aðhyllast, enda samræmist hún engan veginn gildandi stefnuskrá flokksins.  Því var Kristinn í fullum rétti sem þingmaður flokksins, þegar hann andmælti andstöðu Magnúsar Þórs við komu flóttamanna til Akraness sl. vor.

Nú styttist í landsþing Frjálslyndra á næsta ári og segja má að olíutunnurnar hafi verið bornar upp á háaloft.  Skyldi Biedermann færa brennuvörgunum eldspýturnar?

Margrét K. Sverrisdóttir

Höfundur sagði skilið við Frjálslynda flokkinn fyrir 2 árum vegna óánægju með samruna við Nýtt afl og vegn stefnu í málefnum innflytjenda.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband