Kynlegir fjölmiðlar

 Flestir landsmenn fylgdust vel með fjölmiðlum fyrstu helgina í október, vegna válegra tíðinda af fjármálamörkuðum og efnahagskreppu.  Allir sáu sírennsli karla inn og út úr Ráðherrabústaðnum við Lækjargötu, þar sem lykilmenn samfélagsins réðu ráðum sínum.  En það var ekki bara þar sem karlar voru í yfirgnæfandi meirihluta, heldur í flestum spjallþáttum líka. 

Eftirfarandi dæmi segja sína sögu:

,,Logi í beinni"  ræddi á föstudagskvöldinu við þá Kristján Jóhannsson og Björgvin Halldórsson við undirleik hljómsveitar sem er eingöngu skipuð körlum.  Logi baðst reyndar afsökunar á því að engin kona væri í þættinum og sagðist vera að ,,drulla upp á bak". 

Hallgrímur Thorsteinsson stýrði þættinum ,,Í vikulokin" á Rás 1 á laugardagsmorninum.  Gestir hans voru þrír karlmenn, Lúðvík Bergvinsson, Ögmundur Jónasson  og Andrés Magnússon.  Hefði ekki einhver kona á landinu verið fær um að tjá sig um málin?

Á laugardagskvöldið var fyrsti þáttur nýs skemmtiþáttar Ríkissjónvarpsins, ,,Gott kvöld".  Þar var kona þáttarstjórnandi, Ragnhildur Steinunn, og er það sérstakt fagnaðarefni.  En hjá henni var Bubbi aðalgesturinn ásamt tveimur karlkyns aðdáendum hans og tveimur körlum sem hermdu eftir honum.  Hljómsveit þáttarins var eingöngu skipuð körlum, en tvær stúlkur sungu.  Um helgina sem nú er að líða voru bara karlar gestir, að frátöldum þremur dansmeyjum.

Á sunnudeginum 5. okt. var Silfur Egils og þar var ein kona gestur þáttarins.  Engin kona í fjölmennu pallborði við upphaf þáttar.  Hvers vegna ekki?  Var engin kona á landinu hæfari en t.d. blaðamaður sem hefur búið í áratug erlendis?  Og af hverju þurfti fulltrúi ungu kynslóðarinnar líka að vera karlmaður þegar konur eru í miklum meirihluta langskólagenginna á Íslandi? Reyndar kom önnur kona fram í þættinum; hin frábæra fréttakona María Sigrún Hilmarsdóttir - en varla réði Egill nokkru um það hvaða fréttamaður var á vakt við Ráðherrabústaðinn þennan dag.

Á sunnudagskvöld var þátturinn ,,Mannamál" á Stöð 2, undir stjórn Sigmundar Ernis.  Þar voru mættir þrír karlkyns formenn stjórnmálaflokka, einn karlkyns hagfræðingur og tveir karlkyns álitsgjafar.  Engin kona þar.

Sama kvöld ræddi Eva María Jónsdóttir við Ragnar Kjartansson listamann og Jón Ársæll við nafna sinn Ólafsson, athafnamann. 

Þátturinn ,,Singin Bee" var líka sýndur umrædda helgi.  Þáttastjórnandi karlkyns, hljómsveitin þó með eina söngkonu og fallegar stúlkur hafa það hlutverk að dilla sér á kynþokkafullan hátt með hverju lagi.

Þá er Spaugstofan ótalin, en það er kannski eins gott að þeir eru allir karlar, annars gætu þeir ekki gert grín að samfélaginu!

Ég náði ekki að fylgjast grannt með fjölmiðlum um þessa helgi en veit af reynslunni að þakka má fyrir hvert skipti sem konur fá að segja álit sitt á þjóðfélagsmálunum.  Þó hlustaði ég á Bylgjuna fyrir hádegi í dag (sunnudagur 12. okt) og þar voru eintómir karlkyns þáttastjórnendur að tala við karla.

Fjölmiðlar bera ríka ábyrgð á því hvernig mynd þeir gefa af samfélaginu.  Ég leyfi mér að fullyrða að það er hrein móðgun við konur hvernig þessu er háttað í dag.  Hlutur kvenna í fjölmiðlum er um 30 prósent á móti 70 prósenta hlut karla samkvæmt nýlegum rannsóknum.  Þessu verður að breyta á markvissan og meðvitaðan hátt og ég skora á fjölmiðla að gera betur. 

Íslenskar konur eru alls ekki svo óverðugar að þeirra rödd þurfi hvergi að heyrast, en það viðhorf innræta fjölmiðlar komandi kynslóðum með núverandi vinnulagi sínu.  Og ég skora á konur að mótmæla þessu kröftuglega.  Það er ærin ástæða til.

Margrét K. Sverrisdóttir, formaður Kvenréttindafélags Íslands.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband