Borgaryfirvöld í gíslingu verktaka?

Borgarþróun í Reykjavík er alltaf í brennidepli.  Sem betur fer eru borgarbúar almennt vel meðvitaðir um umhverfi sitt og borgina í heild og láta sig því miklu varða hvaða stefna er tekin hverju sinni.  Íbúa- og hverfasamtök gæta hagsmuna borgarbúa og oft verður umræðan heit, sérstaklega um einstaka framkvæmd sem deilt er um hverju sinni.     

 

 

 

Flestir muna eftir hörðum átökum um staðsetningu Ráðhúss Reykjavíkur í Tjörninni á sínum tíma.  Ég er reyndar ennþá á þeirri skoðun að sú bygging hefði sómt sér betur uppi á hæð eða hól en úti í Tjörninni og mér finnst hún ennþá stinga í stúf við gömlu húsin sem raða sér hringinn í kringum Tjörnina - jafnvel þó mosagróinn vatnsveggur Ráðhússins sé til mikillar prýði í miðborginni, jafnt að vetri sem sumri. Það þarf að horfa til fjölmargra þátta við stefnumótun í borgarskipulagi.  Þar má til dæmis nefna mannlíf og menningarsögu, lífsgæði borgarbúa,  félagslega þróun og virðingu fyrir náttúrunni.    

 

 

 

Borgaryfirvöld í gíslingu verktaka?

Því er lykilspurning hver það er sem ræður för við þróun og mótun borgarskipulagsins.  Ég veit að þeir sem eru kjörnir til að stjórna borginni vilja gera það eins vel og kostur er.  En eru þeir alltaf sjálfráða?  Því miður virðist það vera svo, að verktakar ráði oft meiru um þróun tiltekinna svæða en borgaryfirvöld.  Það má orða það svo að verktakarnir fjárfesti í væntingum.  Þeir kaupa upp eignir á tilteknu svæði í trausti þess að þeir geti margfaldað fjárfestinguna síðar.  Þeir vænta þess að skipulagið verði þeim hliðhollt og þjarma jafnvel að borgaryfirvöldum til að svo megi verða.Þetta er einmitt það sem gerst hefur við Laugaveginn.  Verktakar keyptu upp fjölda gamalla húsa um leið og ljóst varð að niðurrif þeirra yrði heimilt, í trausti þess að þeir gætu byggt marfalt stærri eignir á lóðunum og þannig ávaxtað sitt pund. Það er ástæða til að óttast að hið sama verði upp á tengingum varðandi byggðaþróun í Örifirisey, því þar hafa verktakar einnig fjárfest í þeirri trú að þar rísi mikil íbúabyggð í framtíðinni.      

 

 

 

Ég ákæri

 Ég ákæri borgaryfirvöld vegna fyrirhugaðs niðurrifs tveggja af elstu húsum borgarinnar, húsanna við Laugaveg nr. 4 og 6.  Það er með ólíkindum að borgaryfirvöld skuli ekki sjá sóma sinn í að þyrma þessum húsum. Borgaryfirvöld bregðast þar með því mikilvæga hlutverki sínu að standa vörð um menningarsögu borgarinnar.  Menningarsaga okkar er einmitt vörðuð húsum á borð við Laugaveg 4 og 6 og ef þau væru færð í upprunalegt horf þá myndu þau sannarlega efla ímynd neðri hluta Laugavegarins sem hluta af ,,gamla miðbænum” sem allir þykjast vilja vernda.Þetta eru afglöp af hálfu borgaryfirvalda, en það sem kemur í staðinn eru önnur afglöp, ekki minni, því á lóðinni á að rísa fjögurra hæða steinsteypt hótelbygging.  Halda menn virkilega að þarna sé hentug aðkoma að hóteli?  Og gamla, fallega húsið á horni Laugavegs og Skólavörðustígs verður í besta falli kjánalegt þegar búið verður að setja það í þetta nýja samhengi.

Það er líka með ólíkindum að sumir skuli tala um að senda bara “kúluna á kofana” því þetta séu svo ljótir kumbaldar.  Flestöll gömul hús sem í dag eru mesta borgarprýði voru áður í niðurníðslu eða afskræmd vegna seinni tíma breytinga, eins og þessi hús eru í dag.  Umræða um skipulagsmál og borgarþróun varðar alla borgarbúa og við þurfum öll að gæta þess, kjörnir fulltrúar borgarbúa sem og borgarbúar sjálfir, að horfa á heildarmyndina og samhengið milli allra þátta í borgarþróuninni. 

Þegar við horfum til framtíðar ber okkur ekki síst skylda til að varðveita menningararfinn fyrir þær kynslóðir sem þá munu ganga um götur og torg. 

     

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jakob Falur Kristinsson

Það er búið að breyta þessum húsum það mikið að lítið er eftir sem minnir á gamlan menningararf.  Kannski má finna einhverjar gamlar spýtur frá þeim tíma að þessi hús voru byggð en útlit þeirra í dag er þannig að þau gleðja ekki augun.  Þetta eru einfaldlega gamlir kofar sem fáir munu sakna þótt þeir verði rifnir.  Það er lítt skiljanlegt að vera á móti steinsteyptum húsum sem endast mun betur en gamlir spýtukofar sem byggðir voru af vanefnum.  Ég tel það ekki mikla menningu þótt við skríðum aftur inn í moldarkofana.

Jakob Falur Kristinsson, 23.8.2007 kl. 12:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband