Húsunum verður ekki bjargað

Á borgarstjórnarfundi í dag urðu miklar umræður um húsin við Laugaveg 4-6.  Borin var upp til atkvæða tilaga VG og F-lista sem áður hafði verið felld í borgarráði um að borgin keypti húsin til að hægt væri að varðveita þau í því sem næst upprunalegri mynd.  Tillagan var felld af meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og þar með er endanlega útséð um að húsunum verði bjargað.  Auk mín og fulltrúa VG, studdi Oddný Sturludóttir tillöguna, en Dagur B. Eggertsson og Björk Vilhelmsdóttir sátu hjá.

Þegar niðurstaða atkvæðagreiðslunnar lá fyrir, lögðu F-listi og VG fram eftirfarandi bókun:

Borgaryfirvöldum ber öðrum fremur að standa vörð um menningarsögu borgarinnar. Menningarsaga Reykjavíkur er vörðuð húsum á borð við Laugaveg 4 og 6 og væru þau færð í upprunalegt horf myndu þau varðveita gömlu götumyndina og efla ímynd neðri hluta Laugavegarins sem hluta af gamla miðbænum. Meirihluti  borgarstjórnar Reykjavíkur fékk í dag sögulegt tækifæri til að þyrma þessum húsum sem teljast til örfárra 19. aldar húsa sem eftir eru í Reykjavík og standa á upprunalegum stað, en kaus að heimila niðurrif. Við hörmum þá niðurstöðu.  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Gott hjá þér Sjávarperla,  verst að ég er þessu ekki allvel sammála

Georg Eiður Arnarson, 4.9.2007 kl. 20:21

2 identicon

Ég verð að segja að mér finnst sorglegt að fólk geti ekki séð gersemina sem standa í Reykjvík. Þessi gömlu hús gefa bænum alveg sértakt útlit og gerir borgina öðruvísi en allar aðrar borgir í heiminum.

Af hverju þarf alltaf að henda þessu gamla og kaupa nýtt. Má ekki stundum gera við þetta gamla og nota það aftur. Er þjóðfélagið virkilega orðið svo einnota að allir verða að vera með það nýjasta og flottasta eins og allir hinir. Reynum að vera smá orginal.

 Með vinnu og alúð er hægt að gera upp þessi gömlu hús og með því varveitt þar með hluta af sögu borgarinna.

Margrét P (IP-tala skráð) 5.9.2007 kl. 10:32

3 identicon

Við sjáum sömu skammsýni í verki í Laugardalnum en þar eiga Íbúasamtök Laugardals undir högg að sækja gagnvart "þróunarviðhorfum" sem felast í að byggja alls staðar þar sem hægt er að stinga niður skóflu. Fyrir liggur hjá Skipulagsráði breyting á deiliskipulagi um að byggja þar á grænu útivistarsvæði sem er skelfilegt því aðeins 10-15% dalsins eru eftir sem opið, gjaldfrjálst útivistarsvæði. Það eru ekki einu sinni gjaldfrjálsar barnarólur í dalnum lengur. Þessi áform eru þvert ofan í fyrri yfirlýsingar um framtíð svæðisins og aðalskipulag. Þarna er ekki hikað við að breyta gegn fyrri ákvörðunum.

Ég las að meirihluti borgarstjórnar skýldi sér á bak við það varðandi niðurrif á Laugarvegi að þau væru aðeins að framfylgja ákvörðunum fyrri meirihluta. Það er helber hentistefna því það er ekki staðið við fyrri stefnu í málefnum Laugardalsins. Ég hvet þig, Margrét, til að kynna þér það mál í kjölinn og leggjast enn fastar á sveif með íbúum borgarinnar sem vilja halda í sérkenni hennar og manneskjulegt umhverfi enda hafa nær 200 manns skilað inn andmælum við tillögunni.

Ólöf I. Davíðsdóttir (IP-tala skráð) 5.9.2007 kl. 14:39

4 identicon

Í alvöru talað hverjum er ekki sama um þessa pappahjalla. Húsin eru ljót, sennilega handónýt og það myndi kosta umtalsvert meira að laga þau en byggja nýtt. Af hverju má ekki henda þessum hjöllum á haugana og byggja eitthvað fallegt þarna?

Sama gildir um Lækjartorgsbrunann. Það er synd að þetta brann ekki allt til grunna, Hressó meðtalið, þá hefði verið hægt að setja niður einhverja flotta byggingu þarna í stað þessara pappakofa. Miðbær Reykjavíkur má alveg við því að þessir harðfiskhjallar hverfi og þar verði reist falleg hús í staðinn.

Pétur Pan (IP-tala skráð) 5.9.2007 kl. 16:50

5 Smámynd: Árni Gunnarsson

Það er ótrúleg skammsýni og heimska að fækka þeim sögulegu minjum frá þróunartíma Reykjavíkur sem enn standa. Þar er nú fátt eftir annað en gatnakerfið sem minnir óþarflega mikið á tímabil hestvagnanna.

Árni Gunnarsson, 5.9.2007 kl. 17:57

6 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Það má vel vera að þessi hús á Laugaveginum séu handónýt og gagnlítil á nútíma mælikvarða og þau eru langt frá því að vera byggingaleg meistaraverk.  Hins vegar eru þau minnisvarði um það hvernig Reykjavík var, lítil og fátæk, kotleg og lágreist.  Í þessu máli held ég að það séu ekki neinar ákveðnar "rétt" eða "rangt" niðurstöður siðferðislega, heldur spurning um hvort að við viljum halda í raunverulega minnisvarða um hina gömlu Reykjavík.  Ég á tvær gamlar myndavélar, önnur "merkileg vél", Canon AE1 frá um 1970-1980 og hin ósköp venjuleg "imbamatic" kassettufilmuvél sem á voru teknar fullt af fjölskyldumyndum.  Þykir mér bara sú "merkilega" vera minjagripur?  Nei, hin er ekki síðri hvað skemmtilegar minningar varðar.   Þetta er ég að segja því að þó að þessi "ljótu" lágreistu hús á Laugaveginum séu ekki merkilegar byggingar fagurfræðilega, þá eiga þau sýna merkilegu sögu í lífi fjölda Reykvíkinga og bera okkur vitni þess að að lífsbarátta forfeðra okkar var síður en svo dans á rósum. 

Svanur Sigurbjörnsson, 7.9.2007 kl. 01:08

7 identicon

Litlir ljótir bárujárnskofar eru hluti af byggingarsögu Reykjavíkur. Við viljum auðvitað vera voða "kúl" með flott hús á Laugaveginum, en viljum vera svo rosalega "kúl" þannig að lokum verðum við borg með fullt af flottum húsum, teiknað af snjöllum arkítektum, en borg með engar leifar af sögu og þróun borgarinnar. Nýjasta fáránlega dæmið er að flytja Lækjargötu 4 af Árbæjarsafni aftur niður á Lækjartorg. Fyrst og fremst er það skemmdarverk gagnvart Árbæjarsafni og þeirri uppbyggingu sem hefur átt sér stað þar og í öðru lagi eyðilegging á sögu húsabyggingar í Reykjavík, því Lækjargata 4 er fyrst tvílyfta húsið í Reykjavík, en í tillögunni er hugmynd um að hækka húsið um eina hæð! Þá væri það auðvitað ekki lengur fyrsta tvílyfta húsið í Reykjavík, heldur fyrsta tvílyfta húsið í Reykjavík sem var hækkað um eina hæð á fyrsta áratug 21. aldar, en upplýsing og virðing gagnvart umhverfinu og sögu þjóðar okkar fer greinilega aftur eftir því sem árin líða.

Ingrid Örk Kjartansdóttir (IP-tala skráð) 9.9.2007 kl. 15:24

8 identicon

Ég skil bara ekki hvað er að því að byggja bara nýtt hús í gömlum stíl. Við kunnum alveg ennþá að byggja svona 19. aldar hús. Við Lindargötu veit ég af húsi frekar nýbyggðu sem er í nákvæmlega sama stíl og hin gömlu húsin, held það sé í sveitser stíl, en að vísu ekki með öllu flúrinu en öll hlutföll og gluggar eru nákvæmlega eins og fyrir 100 árum. Byggt eftir gömlum teikningum. 

Það er bara alveg hægta að byggja nýja "Lækjargötu 4" á upphækkun.  Algjör sind að flytja húsið frá Árbæjarsafni þegar við kunnum hvort eð er að endurgera svona hús frá grunnil

Sigríður Ólafsdóttir (IP-tala skráð) 13.9.2007 kl. 21:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband