Eyðilegging við Laugaveg

Ábyrg framganga F-listans í borgarstjórn varðandi varðveislu eldri húsa í borginni síðastliðin ár hefur vakið jákvæða athygli. 

Frá upphafi hefur það verið á okkar stefnuskrá að 19. aldar götumynd Laugavegarins verði varðveitt.  Við höfum því margoft mótmælt  stórtækum áformum um niðurrif gamalla húsa við Laugaveg.  Ekki heyrðist þá rödd í borgarstjórn nema hjá okkar fólki um að fara bæri varlega í að rífa gömul hús eða hús sem hafa mikla þýðingu fyrir menningarsögu borgarinnar.

Gröndalshús og Alliance-húsið

Við höfum lagst gegn því að hús séu rifin upp með rótum og flutt á safn ef unnt er að finna þeim veglegan sess í borginni.  Það á m.a. við um hús skáldsins Benedikts Gröndal - Gröndalshús, sem við viljum að verði fundinn staður í Vesturbæ eða miðborginni þar sem það getur verið lifandi tákn um liðna tíma. 

Einnig stóðum við vörð um Allianz-húsið við Tryggvagötu, en því máli lyktaði farsællega þannig að það hús verður áfram verðugur minnisvarði um atvinnusögu borgarinnar.  Það verður jafnframt   lifandi miðstöð nýrrar starfsemi í borginni, því húsinu fylgir sú kvöð að þar verði lista- og menningartengd starfsemi. 

 Aðrar byggingar

Við höfum líka barist fyrir varðveislu annarra bygginga sem hafa menningarsögulegt gildi, þótt ekki séu þær gamlar.  Þannig börðumst við ein gegn fyrirhuguðu niðurrifi Austurbæjarbíós og höfðum sigur í því máli og einnig lögðumst við ein gegn sölu Heilsuverndarstöðvarinnar í stjórnartíð R-listans. Við höfum ávallt varað við því að of geyst væri farið í að heimila niðurrif húsa sem hafa ríkt menningarsögulegt gildi og birta okkur sögu íslenskrar byggingalistar á ýmsum tímaskeiðum.  Við höfum einnig lagt til að borgin styðji eigendur gamalla húsa með einhverjum hætti til að gera þeim betur kleift að halda þeim við, enda viðhald eldri húsa oft dýrt, en þau geta verið sannkallaðar perlur í borginni sé þeim vel við haldið. Þá höfum við bent á mikilvægi þess að viðhalda götumynd þar sem hún er heildstæð og í því sambandi lýst sérstökum áhyggjum af elstu húsum við Laugaveg.      

Húsin verða aldrei endurheimt

Nú hefur lokaákvörðun verið tekin um að húsin við Laugaveg 4-6 verði rifin og í stað þeirra byggt steinsteypt hótel á lóðunum.Þessi hús eiga sér merka sögu.  Húsið að Laugavegi 4 var byggt árið 1890 og var fyrsta húsið við Laugaveg sem byggt var sem atvinnuhúsnæði. Húsið að Laugavegi 6 er ennþá eldra, frá árinu 1871, og þar var Litla kaffihúsið lengi til húsa, en mörg skáld voru fastagestir á þeim stað. Við hörmum þessa niðurstöðu.  Það er með ólíkindum að Reykjavíkurborg skuli ekki sjá sóma sinn í að þyrma þessum merku húsum heldur ganga þvert gegn vilja Húsafriðunarnefndar og Borgarminjaverndar.  En þessu verður víst ekki breytt héðan af.  Því er óskandi að við hönnun og byggingu nýja hússins verði þó að minnsta kosti tekið tillit til álitsgerðar sem rýnihópur vann varðandi ytra útlit þess, svo það falli betur að götumynd en mörg önnur nýrri hús við Laugaveg gera.   

 

Og að lokum: Það er vissulega fagnaðarefni ef héðan í frá má reikna með stuðningi Vinstri Grænna gegn niðurrifsáformum á eldri húsum við Laugaveg – en það er líka miður að í tilfelli húsanna við Laugaveg 4-6 skuli sá stuðningur fyrst koma fram þegar það er um seinan.

Því verður ekki bjargað sem búið er að farga.    

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Ég er sammála varðveislu þeirra húsa sem eru varðveislunnar virði :)  En Laugavegur 4-6 er ekki þess virði að varðveita þau að mínu mati.  Þessi hús eru forljót og í engu samræmi við þau flott hús sem eru í næsta nágrenni sem sagt Bernhöftstorfan.  rífa þessi hús sem fyrst og ég vil líka bæta við að ég vil byggja nýtískulegt hús í stað þeirra sem brunnu í vor við lækjartorg.  Þessi hús eru börn síns tíma og oft afskaplega óhagkvæm og erfið í rekstri..

Óskar Þorkelsson, 14.8.2007 kl. 14:02

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég vil minna á að á sínum tíma var sagt um Bernhöftstorfuhúsin að þau væru forljótir kumbaldar og í engu samræmi við hin flottu hús í næsta nágrenni.

Eftir að húsin voru gerð upp af reisn og myndarskap vildu flestir þá Lilju kveðið hafa.

Ég vil endurtaka það sem ég sagði í samtali við Þóri Guðmundsson í hádeginu síðasliðinn Laugardag um Gleðigönguna, að á okkar landi, þar sem sólin kemst svo lágt á himininn mestallt árið er afar varasamt að varða suðurhlið Laugavegar með háum húsum sem gera götuna myrka og kalda.

Ómar Ragnarsson, 14.8.2007 kl. 18:42

3 identicon

Íslendingar eru duglegir að afmá söguna og erfiðlega gengur að halda í 19. aldar götumynd Laugavegs. Þegar við ferðumst til annara landa förum við til að skoða gamlar glæsilegar byggingar með mikla sögu. Í nokkrum löndum er hægt að sjá heilu borgirnar, 500 ára byggingarsögu.

Á Tenerife er fyrrum höfuðborg eyjarinnar San Cristóbal de la Laguna. Borgin komst á Heimsminjaskrá UNESCO árið 1999. Árið 1497 stofnaði Alonso Fernández de Lugo borgina við lón uppi í dal í 550 metra hæð. La Laguna var höfuðborg til 1723 en þá fluttist stjórnsýslan til hafnarborgarinnar Santa Cruz. Nú er borgin biskupssetur og háskólabær með 30.000 stúdenta.

Það var einkennileg tilfinning að vera í miðbænum í la Laguna á heitum júlídegi um síestuna. Mér leið eins og ég væri statisti í S-Amerískri bíómynd. En la Laguna var notuð sem módel af Kólumbusi fyrir margar borgir í Ameríku. Borgin var skipulögð frá byrjun og takmarkaðist ekki af víggirtum veggjum. La Laguna hefur varðveist vel og er miðbærinn upprunalegur. Borgin skiptist í tvo kjarna. Upprunalega óskipulagða Efra þorp og Neðra þorp en það var skipulagt frá grunni og byggðist upp á 16 til 18. öld. Það hafði breiðar götur og opin svæði með nokkrum glæsilegum kirkjum einnig byggingar fyrir almenning, sjúkrahús, skóla og stjórnsýslu. Síðan komu íbúðarhús þar á milli.

Stjórnvöld á Tenerife eru meðvituð um þarfir ferðamanna og hafa sóst eftir að fá útnefningu Heimsminjaskrár UNESCO. Þau líta á útnefninguna sem tákn "emblem" sem gerir eyjuna sögulegri í hugum ferðmanna. Þeir vita að því verður ekki bjargað sem búið er að farga.

Það var eins gott fyrir íbúa La Laguna að Vilhjálmur Vilhjálmsson var ekki borgarstjóri þar. Hann hefði rifið niður miðbæinn til að þóknast öflugum byggingarfyrirtækjum.

Sigurpáll Ingibergsson (IP-tala skráð) 14.8.2007 kl. 22:29

4 Smámynd: Torfusamtökin

Takk fyrir þessi orð Margrét, og einnig vil ég þakka Ómari fyrir hans inlegg. Sveinn er varla svaraverður en ég vil aðeins leggja út af orðum Óskars.

Ég hef tekið eftir því að að það virðist engu máli skipta hversu oft er sýnt fram á það að forljót hús verða að perlum ef rétt er gert við þau. Alltaf virðist meginþorri fólks líta svo á að þegar hús verður fallegt sé það vegna þess að akkúrat það hús hafi verið einsdæmi, allar hinar ljótu byggingarnar hljóta alltaf að hafa verið ljótar. Byggingin þar sem Nasa er til húsa í dag er afskaplega gott dæmi þetta, hús sem meginþorri almenning leit svo á að um væri að ræða lítlivert kofaræksni, en lítið á það í dag.

Er ekki tími til kominn að tengja......

Ef að einhver hús í dag eiga sterka samsvörun við Torfuna þá eru það einmitt Laugavegur 4-6 þar sem um er að ræða svipaða húsagerð, með Laugavegi 2 gætu þau myndað húsaröð sem myndi ekki vera síðri en Torfan. Gluggar og klæðningar hafa verið fjarlægðar af þessum tveimur húsum en leyfið mér að benda á að Þegar Torfan var gerð upp á sínum tíma þurfi einmitt að skipta um glugga og klæðningu. Það er svo merkilegt að það eina sem þarf til að endurgera eyðilögð hús(eins og 4-6) svo að það ljómi af þeim er endurgera yfirborðslega þætti sem hvort sem er þarf að endurgera með ákveðnu millibili. Stór hluti af þeim efnivið sem hefur haldið sér í Torfunni eftir endurgerð er einmitt til staðar á Laugavegi 4-6.

Það virðast líka fáir átta sig á því að aðferðin sem notuð var við að byggja timburhús á þessum tíma á ekker skylt við "kofa" samtímans. Húsin eru gerð með bindingsverki sem þykir svo dýrt í dag að engin treystir sér til að gera svoleiðis lengur. Bindingsverkið er nánast óskemmt í þessum húsum, þó að það væri það eina sem fengi að halda sér væri samt um töluverð verðmæti að ræða.

Ég held að margir muni ranka við sér þegar þeir sjá nýju bygginguna gnæfa yfir Laugaveg 2, en þá verður það vitanlega of seint.

Torfusamtökin , 15.8.2007 kl. 00:46

5 identicon

Ég vil svara einni fullyrðingunni frá frú Dhörmu, öðru nenni ég ekki að svara.

"það er lítið mál að reisa ný hús sem hafa svipað útlit og stíl og þau sem rifin er."

Segir frú Dharma, þó að það hljómi undarlega þá er það einfaldlega ekki valmöguleiki eins og staðan er í dag. Ástæðan fyrir því að svo hart er sóst eftir niðurrifi til að byrja með er að lóðabraskarar sjá sér færi á að margfalda byggingarmagnið með ódýrum byggingum, ef að það ætti einfaldlega að reisa ný hús með svipað útlit þá yrðu að öllu leiti hagkvæmara að gera við gömlu húsin.

Ég veit ekki hvort að þú ert með röntgen augu og sérð í gegnum klæðningarnar á þessum tilteknu húsum og sérð fúnar spítur, en sagan segir okkur að nánast í hvert einasta skipti sem að svona hús eru tekin í gegn er allt í toppstandi á bak við illa farna klæðningu, það er ólíklegt að annað eigi við í þessu tilfelli.

Það er síður en svo kjánalegt að líkja þessum húsum við Bernhoftstorfuna, á þeim tíma voru einmitt svona besservisserar sem töldu að um væri að ræða ónýta kofa.

Þórður Magnússon (IP-tala skráð) 15.8.2007 kl. 19:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband