Rjúpnaveiðin í haust

Umhverfisráðherra, Þórunn Sveinbjarnardóttir, tilkynnti um miðjan september að rjúpnaveiðitímabilið í haust skuli standa frá 1. til 30. nóvember. Mælt er með því að veiddir verði að hámarki 38.000 fuglar. Ákvörðun ráðherra byggir á mati Náttúrufræðistofnunar Íslands á veiðiþoli rjúpnastofnsins og mati Umhverfisstofnunar á heildarveiði árið 2006.   Íslenski rjúpnastofninn er veikur og hefur átt undir högg að sækja. Því er full ástæða til að hafa áhyggjur af stöðu hans og mikilvægt að haga stjórnun veiðanna þannig að þær séu sjálfbærar og að við gerum allt sem hægt er til að byggja stofninn upp aftur.  Miðað við fyrri reynslu af rjúpnastofninum í niðursveiflum, mun rjúpu fækka næstu þrjú til fjögur árin og veiðiþol stofnsins minnka að sama skapi. Því hefur verið ákveðið að minnka rjúpnaveiði enn frekar í ár en gert hefur verið undanfarin ár og er það vel.Nánari skilmálar eru eftirfarandi:
  • Veiðidagar verða alls 18 á tímabilinu 1. til 30. nóvember.
  • Veiðar verða heimilaðar fimmtudaga, föstudaga, laugardaga og sunnudaga.
  • Sölubann gildir áfram á rjúpu og rjúpnaafurðum.
  • Áfram verður u.þ.b. 2.600 ferkílómetra svæði á Suðvesturlandi friðað fyrir veiði
  • Veiðimenn verða sem fyrr hvattir til að stunda hófsamar og ábyrgar veiðar.
  • Virkt eftirlit verður með veiðunum á landi og úr lofti eftir því sem kostur er.

Fáir veiðidagar á stuttu tímabili

Allur er varinn góður og friðunaraðgerðir ráðherra eru nauðsynlegar.  Árið 2006 voru veiðidagar alls 26 en árið þar á undan, 2005, voru þeir 45.  Það er áhyggjuefni hve veiðidagar eru fáir í ár, einungis 18 dagar, sem þýðir að fólk fer á veiðar jafnvel þó veðurútlit sé mjög óhagstætt.  Og í nóvember eru veður oft válynd.  Með því að leyfa veiðar yfirhöfuð í haust, þó dagarnir séu fáir, er þó líkur á að veiðimenn treysti því að veiðar verði leyfðar að einhverju marki á hverju ári og það dregur úr því að þeir reyni að veiða mikið til þess eins að eiga varabirgðir til næstu ára í frysti.Ýmsar tillögur hafa komið fram um skipulag veiða, s.s. að úthluta hverjum veiðimanni kvóta.  Það er hætt við að einhvers konar ,,verslun” yrði fljót að myndast með þann kvóta eins og í stóra kvótakerfinu okkar og það er ekki fýsilegur kostur.  Hins vegar má velta því fyrir sér hvort hefði mátt hafa meiri sveigjanleika varðandi þessa 18 leyfilegu veiðidaga eftir veðri, því það er ekki ólíklegt að nokkuð margir þeirra nýtist alls ekki vegna veðurs.Það kemur einstaka sinnum fyrir, þegar þúsundir manna ganga til rjúpna á haustin, að kalla þarf út björgunarsveitir til að leita einhverra og það er meiri hætta á slíku þegar veður er vont.  Þá upphefst alltaf sami söngurinn í fjölmiðlum, að rjúpnaskyttur eigi að borga sjálfar fyrir leitina!  Samt er það svo að allt árið er leitað að fjallgöngufólki, án þess að sama krafa sé sett fram.

Verður almenningsíþrótt að fokdýrum lúxus?

Rjúpnaveiðar hafa hingað til verið stundaðar af almenningi á Íslandi, fólki úr öllum stéttum, um allt land.  Nú eru hins vegar blikur á lofti, og frést hefur að veiðilendur séu leigðar á hundruðir þúsunda, fyrir gæsa- og rjúpnaveiði.  Það er mjög miður ef þessi náttúrulega, takmarkaða auðlind þjóðarinnar verður seld hæstbjóðendum.  En við verðum líka að vernda þau gæði sem fuglastofnarnir eru, ef við ætlum að njóta þerra. Atvinnumennska á ekki að vera tengd þessum veiðum.  Eftirspurn eftir rjúpu fyrir jólin er gríðarleg og þá hefur svartamarkaður með rjúpu blómstrað með tilheyrandi ofurverði.  Við því er aðeins eitt svar:  Að flytja inn meira af erlendri villibráð og bjóða hana á betra verði í verslunum.  Það verður seint of brýnt fyrir veiðimönnum að gæta hófs og veiða bara fyrir sig og sína fjölskyldu.

Höfundur er rjúpnaskytta.              
         

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Bragi Bragason.

Jamm þetta er ekki gott með Rjúpnaveiðina.....en til lukku með daginn í dag

Höfundur er einnig Rjúpnaskytta.

Einar Bragi Bragason., 11.10.2007 kl. 17:46

2 identicon

Þetta sagði eg þér     .    jk

jói (IP-tala skráð) 11.10.2007 kl. 19:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband