Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
13.3.2008 | 20:00
Fiðrildi og hefðarfrúr
Í svonefndri ,,Fiðrildaviku í síðustu viku stóð UNIFEM á Íslandi fyrir metnaðarfullri fjáröflun fyrir styrktarstjóð sem berst fyrir afnámi ofbeldis gegn konum í Austur-Kongó, Líberíu og Suður-Súdan, þar sem konur og stúlkur hafa orðið fyrir gegndarlausu ofbeldi. Með fjáröflunarátakinu var Íslandi ætlað að hafa ,,fiðrildaáhrif en það hugtak vísar til þess að vængjasláttur örsmárra fiðrilda í einum heimshluta geti haft áhrif á veðurfar annars staðar á hnettinum. Það er full ástæða til að óska UNIFEM til hamingju með þetta frábæra framtak og óhætt er að fullyrða að vel hafi tiltekist hvað árangur átaksins varðar, enda hefur sá góði árangur þegar vakið athygli víða um heim.
Aðgangseyrir 70.000 krónur
Hins vegar bar einn skugga á þetta annars frábæra framtak, en það var fjáröflunarkvöldverðurinn sem haldinn var á lokadegi átaksins, laugardaginn 8. mars sl., sem jafnframt er alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Kvöldverðurinn var haldinn í Frímúrarahöllinni sem var í sjálfu sér skemmtilegt, því segja má að þar með hafi konurnar lagt undir sig þetta hefðbundna karlavígi. En aðgangseyrir að lokahátíðinni var 70.000 krónur (!) fyrir hverja konu. Fjölmargar konur höfðu þá tekið þátt í átakinu af heilum hug, gengið niður Laugaveginn í Fiðrildavikunni og hringt í söfnunarsímann til að leggja átakinu lið. En lokahátíð átaksins var einungis ætluð þeim konum sem gátu borgað heilar 70.000 krónur fyrir máltíð til styrktar þessu verðuga verkefni. Lokahátíðin var þar með einungis ætluð fáum útvöldum. Auk þess var mælst til þess að konurnar klæddust hvítu og einhverju sem minnti á fiðrildi...
Ekki til fyrirmyndar
Svona fokdýrir kvöldverðir eru að amerískri fyrirmynd og það er miður að kvennasamtök skuli styðja við þróun í átt til aukinnar stéttaskiptingar hér á landi með þessum hætti. Það hefði verið hægt að bjóða margfalt fleiri konum að taka þátt í hátíðarkvöldverði á alþjóðegum baráttudegi kvenna fyrir margfalt lægra verð og ná sama árangri hvað fjáröflun varðar og ná margföldum fiðrildaáhrifum hvað það varðar að styrkja samstöðu og tengsl kvenna hér á landi. Einnig þekkist það að félagasamtök hafi efnt til styrktartónleika með fremur hóflegum aðgangseyri þar sem flestir ættu að geta lagt sitt af mörkum og er það vel.
Það er alls ekki ætlunin að lítið úr frábæru framtaki UNIFEM með átaki Fiðrildavikunnar, en ég veit að fjölmargar konur eru sama sinnis og ég varðandi umræddan hátíðarkvöldverð og því eðlilegt að koma þessari skoðun á framfæri.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.3.2008 | 15:09
Kostnaðarhlutdeild sjúklinga
Hér á landi höfum við félagslegt heilbrigðiskerfi svipað og á Norðurlöndum, í Bretlandi og Kanada. Kerfið er mestmegnis fjármagnað af hinu opinbera sem á tæki og aðstöðu að mestu. Þó er takmarkaður einkarekstur heimill og þá bera sjúklingar kostnaðarauka af honum. Notendur heilbrigðiskerfisins hafa hingað til borið lítinn kostnað af þjónustunni og markmiðið hefur verið að tryggja jafnan aðgang allra óháð efnahag. Um þetta heilbrigðiskerfi ríkir almenn sátt í landinu. Sífellt er þó deilt á kerfið fyrir það hversu dýrt það er, en það sem veldur vaxandi kostnaði í heilbrigðiskerfinu er m.a. hækkandi meðalaldur þjóðarinnar auk stöðugt fullkomnari og dýrari tækja til sjúkdómsgreininga og lækninga. Einnig koma stöðugt á markað ný, betri og dýrari lyf. Kröfur um skilvirkni og skýra framtíðarsýn eru eðlilegar þegar miklir fjármunir eru í húfi. En þegar rætt er um háan kostnað við heilbrigðiskerfið hér á landi má ekki gleymast að við höldum uppi háþróuðu heilbrigðiskerfi - raunar á heimsmælikvarða - í mjög fámennu samfélagi.
Útgjöld hafa áhrif á aðgengi
Skortur á fjármagni krefst forgangsröðunar til að fjármagn nýtist sem best. Skortur á fjármagni eykur einnig þrýsting á að sjúklingar taki meiri þátt í kostnaði. Í því sambandi hafa verið uppi hugmyndir um hækkun þjónustugjalda og jafnvel að auka hlut sjúklinga. En hvaða áhrif hefur það? Því miður hafa komið í ljós bein tengsl milli kostnaðar og þess að fólk frestar því að leita sér lækninga. Því meiri kostnaður og því lægri tekjur einstaklings eða fjölskyldu, því meiri hætta er á að læknisheimsókn verði frestað. Það leiðir aftur til þess að beinlínis er hægt að draga úr eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu með því að auka hlutdeild sjúklinga. En hvað hefur sú leið í för með sér?Dr. Rúnar Vilhjálmsson o.fl. gerðu könnun á því hvaða hópar það væru sem bæru mestar byrðar af kostnaði í heilbrigðiskerfinu. Mest reyndist byrðin meðaleftirtalinna hópa: Kvenna, aldraðra, atvinnulausra, lágtekjufjölskyldna, langveikra og líkamlega fatlaðra. Þetta eru þeir hópar sem bera mestar byrðar núna og er ekki á bætandi. Aukin kostnaðarhlutdeild notenda heilbrigðiskerfisins er því líkleg til að leiða til þess að þeir sem hafa minnst á milli handanna borgi hlutfallslega mest fyrir kerfið. Æskilegra er að vísa eða stýra sjúklingum betur um kerfið til dæmis með því að efla heilsugæslu sem fyrsta viðkomustað sjúklinga vegna þess að hún er miklu ódýrari kostur en spítali. Undanfarin ár hefur verið gert stórátak í því að kostnaðargreina alla starfsemi Landspítala-háskólasjúkrahúss og er það afar mikilvægt til að efla skilvirkni og markvisst starf. Markmiðið er að kostnaðargreina öll verk og lyf sömuleiðis. Einnig er mjög mikilvægt að skilgreina betur hlutverkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og skiptingu verkefna innbyrðis milli ráðuneyta. Markvissara heilbrigðiskerfi leiðir til sparnaðar.
Aukinn einkarekstur?
Nú vinnur heilbrigðisráðuneytið að uppbyggingu svokallaðrar sjúkratryggingastofnunar sem á að hafa það hlutverk að kaupa heilbrigðisþjónustu fyrir hönd landsmanna. Einnig er stefnt að svokallaðri ,,blandaðri fjármögnun sem þýðir að stofnanir eru að hluta til fjármagnaðar með föstum greiðslum og að hluta til með afkastatengdum greiðslum. Sjúkratryggingastofnunin mun vonandi verða til þess að auka hagkvæmni og skilvirkni heilbrigðiskerfisins. Ég vona að ríkisstjórninni takist að forðast að þessi nýja stofnun leiði til þess að hlutur einkareksturs aukist um of í því samkeppnisumhverfi sem skapast. Það getur orðið vafasamt fyrir hagsmuni sjúklinga.Nauðsynlegt er að opin umræða fari fram í samfélaginu um stefnumótun í þessum mikilvæga málaflokki, sérstaklega ef til stendur að sveigja af þeirri leið sem þjóðarsátt hefur hingað til verið um; félagslegt heilbrigðiskerfi þar sem sjúklingar bera sem minnstan kostnað.Allra mikilvægast er að reisn og réttindi sjúklinga verði ávallt í fyrirrúmi við ákvarðanatöku og að þjóðin standi sameiginlega vörð um eitt besta heilbrigðiskerfi í heimi, hér eftir sem hingað til.
Höfundur er varaborgarfulltrúi
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.3.2008 | 14:58
Vonlaus meirihluti Vilhjálms og Ólafs F.
Ólafur F. Magnússon hefur mælst óvinsælasti borgarstjóri í Reykjavík frá upphafi vega og það virðist útilokað að hann nái að vinna hylli borgarbúa. Borgarbúar vita allir að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson mútaði honum með borgarstjórastöðunni til að koma Sjálfstæðisflokknum aftur til valda, hvað sem það kostaði. En Ólafur misreiknaði sig, því borgarbúar töldu Vilhjálm hreint ekki verðskulda að komast aftur til valda og raunar kysu flestir að þeir báðir segðu af sér. Vilhjálmur klúðraði málum Orkuveitunnar svo hrapallega sem borgarstjóri, að hann missti meira að segja allt traust sinna nánustu samstarfsmanna, svokallaðra Sexmenninga sem skunduðu á fund Geirs Haarde í vandræðum sínum. Þar með varð alvarlegur trúnaðarbrestur og glundroði innan borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins og Vilhjálmur missti meirihlutann í borginni.En hann vildi ekki sætta sig við þá niðurstöðu og ákvað að herja á Ólaf og hégómagirnd hans. Vilhjálmi lá mikið á að semja við Ólaf um meirihlutann áður en REI-skýrslan kæmi út vegna þess að hún ásamt umfjölluninni sem henni fylgdi svipti hulunni af umboðsleysi og ósannindum hans í því máli.Báðir eru þeir Vilhjálmur og Ólafur að syngja sitt síðasta í pólitík. Það vissi Ólafur reyndar þegar hann ákvað að hans síðasta verk yrði að reisa sér bautastein sem borgarstjóri.
Styður Sjálfstæðisflokkur núna stefnu F-lista?
Ólafur F. hefur haldið því mjög á lofti að hann hafi fengið öll stefnumál F-listans í gegn með viðskiptum sínum við Vilhjálm. Af umfjöllun borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks um ýmis meginmál má hins vegar ráða, að þeim málum hafi verið betur fyrirkomið hjá meirihluta undir stjórn Dags B. Eggertssonar. Það lá fyrir í þeim meirihluta að engin ákvörðun yrði tekin um brotthvarf flugvallarins á þessu kjörtímabili, enda var það skilyrðið sem Ólafur setti þá, sjálfur ,,guðfaðir þess meirihluta, eins og hann titlaði sig sjálfur.Annað dæmi er um mislægu gatnamótin á mótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. Þau á að reisa, jafnvel þótt íbúar hverfisins hafi óskað eindregið eftir því að fyrst verði hafist handa við gerð stokksins við Lönguhlíð. Hvar er þá íbúalýðræðið sem F-listinn lagði svo ríka áherslu á? Íbúalýðræði var sannarlega gert hátt undir höfði í fyrri meirihluta, þar sem m.a. var ákveðið að fjölga fulltrúum hverfaráða úr þremur í sjö og stórauka fjárframlög til hverfisráða.
Umhverfismálin
Umhverfismálin voru Ólafi sérlega hugleikin. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið sá flokkur sem síst má treysta í umhverfismálum, en Ólafur kaus samt að gera það, þó hann hafi verið ,,klappaður úr Sjálfstæðisflokknum á landsfundi eins og hann orðaði það sjálfur einmitt vegna einarðrar afstöðu sinnar til umhverfismála. Ég fullyrði að umhverfismálin voru í tryggari höndum hjá fyrri meirihluta sem Vinstri-græn áttu aðild að en þau eru nú.Og það vafðist ekkert fyrir Ólafi að semja við Vilhjálm núna, þótt Vilhjálmur hefði dregið hann á asnaeyrunum árið 2006 þegar hann þóttist vera að semja við F-listann um myndun meirihluta á meðan hann gekk frá samningum við Framsókn.
Almannahagsmunum borgið?
Ólafur F. hefur líka lagt ríka áherslu á að hann sé maður almannahagsmuna. Ein mikilvægasta niðurstaða REI-skýrslunnar var sú að fyrirtæki í almannaþjónustu sem rekin eru fyrir almannafé eigi að lúta almennum reglum um opinbera stjórnsýslu og raunar var ætlun stýrihópsins að slá hlutafélagavæðingu OR út af borðinu, en Sjálfstæðismenn vildu ekki segja það fullum fetum. Telur Ólafur þrátt fyrir það að almannahagsmunir séu tryggðir í samstarfinu með Sjálfstæðisflokki?Borgarbúar eiga ekki að sætta sig við valdarán Vilhjálms og Ólafs F. Það er augljóst að það ríkir algjör glundroði í herbúðum Sjálfstæðismanna, Sexmenningarnir eru afar ósáttir við framgöngu Vilhjálms, enda samdi hann um samstarfið við Ólaf F. án þess að þau fengju vitneskju um það fyrr en á síðustu stundu. Sexmenningarnir létu sig hafa það að ganga undir það jarðarmen, en óánægja og sundrung blasir við.
Reykjavík, 9. febrúar 2008
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.1.2008 | 21:25
"Ætlað samþykki" til líffæragjafar
Í fréttum Stöðvar 2 í kvöld kom fram að Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, styðji hugmyndir lækna um svokallað ,,ætlað samþykki" varðandi líffæragjafir. Þá er gert ráð fyrir að nýta megi líffæri til líffæraflutninga - svo fremi að hinn látni eða fjölskylda hans hafi ekki tekið annað fram. ,,Ætlað samþykki" til líffæragjafar hefur gefið góða raun á Spáni og í Belgíu og Austurríki.
Hér á landi er þessu þveröfugt farið, því ekki er heimilt að nýta líffæri nema hinn látni hafi lýst vilja sínum til þess fyrir andlátið - helst skriflega. Ég er hlynnt ,,ætluðu samþykki" af því ég tel víst að meirihlutinn vilji gefa líffæri sín eftir andlátið til að aðrir megi eiga betra líf. Fróðlegt væri að kanna afstöðu Íslendinga til þessa.
P.S. Allir Sjálfstæðismenn á landinu virðast sammála um að hundsa úrskurð Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um kvótakerfið. En þeir sömu hafa heldur aldrei séð neina vankanta á fiskveiðióstjórninni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
9.1.2008 | 23:12
Áfram Hillary!
Það er spennandi að fylgjast með undanfara forsetakosninganna í Bandaríkjunum. Ég styð Hillary heilshugar - gerði það áður en hún viknaði og felldi tár. Obama virðist mjög geðþekkur og væri frábær varaforseti með Hillary, enda yngri og reynsluminni en hún. Það skiptir okkur öll miklu máli hver verður næsti forseti Bandaríkjanna. Silja Bára Ómarsdóttir stjórnmálafræðingur var frábær í Kastljósinu í kvöld, hún varpaði sannarlega ljósi á þróun mála þar vestra.
8.1.2008 | 21:12
Húsin friðuð
Húsafriðunarnefnd samþykkti síðdegis að leggja til friðun á Laugavegi 4-6, sem eru tvö af allra elstu húsum borgarinnar.
Ég fagna þessari ákvörðun innilega, enda hef ég um árabil barist fyrir því að þessi hús fengju að standa. Þessi ákvörðun Húsafriðunarnefndar er í anda aukinnar áherslu almennt á varðveislu okkar sérstæða byggingararfs og undirstrikar mikilvægi þess að virða götumynd sem heild.
Framhaldið er nú í höndum Þorgerðar Katrínar menntamálaráðherra og bíða þarf hennar úrskurðar í málinu. Um er að ræða friðun en ekki svokallaða skyndifriðun. Því er í raun verið að leggja til að menntamálaráðherra staðfesti að húsin standi á sínum stað og verði endurbyggð í sinni upprunalegu mynd.
Það markaði tímamót í málinu þegar borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, ákvað að fá frest til að undirbúa flutning húsanna til að gera þeim til góða á nýjum stað. Þar með viðurkenndi nýi meirihlutinn í borgarstjórn sögulegt mikilvægi húsanna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
7.1.2008 | 21:50
Af ótímabærum mótmælum
Grein skrifuð í ágúst 2006 - en á alveg eins erindi í umræðuna nú:
Þegar auglýst var eftir athugasemdum við breytingar á deiliskipulagi lóða við Laugaveg 4-6 í júní sl., var ég ein þeirra sem skilaði inn athugasemdum í eigin nafni, enda ötul baráttukona fyrir því að vernda eldri götumynd Laugavegarins. Ég gerði athugasemd við að gömlu húsin þarna skuli rifin þar sem þau hafa mikið menningarsögulegt gildi fyrir borgina og tilheyra séríslenskri og reykvískri menningar- og byggingarsögu. Einnig gagnrýndi ég að þær nýbyggingar sem eiga að rísa í staðinn muni skyggja á sólu og gera Laugaveginn að kaldari og skuggalegri götu en hann er í dag. Svar frá borgaryfirvöldumÍ svarbréfi sem sent var til allra þeirra sem skiluðu inn athugasemdum sagði m.a. : ,,Öll samræða við yfirvöld um verndun umræddra húsa og húsavernd almennt hefði þurft að fara fram fyrr og eiga sér stað á öðrum vettvangi og með víðtækari tilvísun í stöðu, stefnu og löggjöf húsaverndar." (Leturbreyting mín.)
Við, sem gerðum athugasemdir, vorum sem sagt að gera rangar athugasemdir á röngum tíma og röngum vettvangi. Ég sá nafnalista yfir þá sem gerðu athugasemdir og þetta er allt málsmetandi fólk sem hefur barist fyrir verndun eldri götumyndar Laugavegarins undanfarin ár.
Ekki hafa áhyggjur mínar af þróun byggðar við Laugaveginn minnkað nema síður sé, því hin nýja borgarstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar, með minnihluta atkvæða borgaranna á bakvið sig, ætlar að halda sínu striki við uppbygginguna og farga menningarverðmætum sem verða aldrei bætt.
Einhvern veginn virðist mér sem lýðræðisleg samskipti borgaranna við borgaryfirvöld séu óeðlilega erfið. Það er nefnilega aldrei rétti tíminn fyrir borgarana til að mótmæla. Mörgum leist t.d. ekki vel á fyrirhugað vegarstæði Hringbrautarinnar á sínum tíma, en lengi vel var alltof snemmt að koma með athugasemdir en viti menn allt í einu var það um seinan.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
3.1.2008 | 22:51
Ástþór, ekki meir, ekki meir!
Ástþór Magnússon ætlar víst að bjóða sig fram til forseta í þriðja sinn, þrátt fyrir hraksmánarlega útkomu í fyrri skiptin. Er ekki hægt að stöðva þessa vitleysu? Ég hef talið mig lýðræðissinna, en þetta er ekkert grín. Kosningar eru fokdýrar og skattborgararnir borga brúsann, þeir sömu og hafa þegar hafnað Ástþóri tvisvar! En Ástþór hefur víst gert út á það erlendis að vera ,,fyrrverandi forsetaframbjóðandi" (sbr. Al Gore), af því að erlendis eru menn í þeirri stöðu yfirleitt málsmetandi.
2.1.2008 | 21:50
Höggvið að landsbyggðinni
Fiskverkunarfyrirtækið Krækir á Dalvík hefur nú sagt upp öllum starfsmönnum. Rúmlega þrjátíu stöðugildi hafa verið hjá fyrirtækinu, sem hefur glímt við mikla rekstrarefriðfleika vegna niðurskurðar kvótans. Reglulega heyrum við fréttir eins og þessar af landsbyggðinni. Núna Dalvík og nýverið var það Grímsey auk fjöldauppsagna í Þorlákshöfn og Eskifirði sl. haust. Það var nógu erfitt fyrir fiskvinnslufyrirtæki að glíma við sterkt og óstöðugt gengi og síðan bættist niðurskurður þorskkvótans við. Svo biðu menn í ofvæni eftir mótvægisaðgerðunum en þær gagnast hvorki fólkinu sem starfar til sjós og lands né fyrirtækjunum.
Niðurskurður þorskkvótans hefur engin áhrif haft til að efla viðgang þorskstofnsins, en hefur bitnað harkalega á landsbyggðinni. Kvótakerfinu var ætlað að efla byggð í landinu og vöxt og viðgang þorskstofnsins. Hvenær sjá menn þörfina á að endurskoða kvótakerfið ef ekki nú, eftir árangursleysi í 25 ár - heilan aldarfjórðung?
1.1.2008 | 16:21
Falskar söguskýringar formanns Frjálslyndra
Formaður Frjálslynda flokksins, Guðjón A. Kristjánsson, hefur haldið því fram æ ofan í æ í fjölmiðlum að ég hafi sagt mig úr Frjálslynda flokknum af því ég tapaði kosningu um varaformann flokksins gegn Magnúsi Þór Hafsteinssyni. Þetta er ósköp handhæg eftirá-skýring hjá honum en ég vil minna fólk á að það var formaðurinn sjálfur sem ákvað að sameina Frjálslynda flokkinn og Nýtt afl gegn vilja meirihluta miðstjórnar flokksins og reri að því öllum árum um langa hríð. Einhverjir hljóta að muna að Jón Magnússon, núverandi þingmaður Frjálslynda flokksins, var áður formaður Nýs afls. Með Jóni, sem talinn er vera yst til hægri í íslenskri pólitík, fylgdu miður geðþekkar áherslur m.a. í garð útlendinga og hreint ekki frjálslyndar. Það var því þegar Nýtt afl yfirtók minn gamla flokk með bellibrögðum á landsþingi, eins og frægt varð, að flokkurinn yfirgaf mig.