Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

FRÉTTATILKYNNING

Margrét Sverrisdóttir sækist eftir 3. sæti
í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík.
Margrét Sverrisdóttir  varaborgarfulltrúi og verkefnisstjóri hjá Háskóla Íslands gefur kost á sér í 3. sæti  í prófkjöri Samfylkingarinnar  í Reykjavík 30. janúar nk.
Margrét hefur verið varaborgarfulltrúi frá árinu 2002 og hefur hún átt sæti m.a. í eftirtöldum nefndum og ráðum á vegum Reykjavíkurborgar:  forseti borgarstjórnar okt.-des. 2007, formaður menningar- og ferðamálaráðs  2007-2008, fulltrúi í menntaráði 2008, í umhverfis- og samgönguráði frá 2007, hverfisráði Grafarholts og Úlfarsárdals frá 2009.
Margrét er formaður Kvenréttindafélags Íslands. 
Hún var varaformaður Íslandshreyfingarinnar þegar hreyfingin gekk til liðs við Samfylkinguna fyrir síðustu Alþingiskosingar og situr nú í framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar.

Reykjavíkurborg – höfuðborg allra landsmanna
Margrét leggur ríka áherslu á hlutverk Reykjavíkur sem höfuðborgar allra landsmanna.  Önnur helstu áherslumál Margrétar eru:  Velferðar-, mennta-  og menningarmál, umhverfi , skipulagsmál og jafnrétti kynjanna. Margrét hefur verið mjög virk í félagsmálum um árabil og m.a. sinnt sjálfboðastarfi í jafnréttismálum og með þroskaheftum.  Henni er umugað um almenna velferð borgaranna í anda félagslegs jöfnuðar.

Margrét er með BA-próf  í íslensku frá Háskóla Íslands og B.Ed. próf  frá Kennaraháskóla Íslands.
Margrét býr í Úlfarsárdal ásamt eiginmanni sínum Pétri S. Hilmarssyni og þau eiga tvö uppkomin börn.


Prófkjör Samfylkingarinnar

profkjorauglysing445.jpg

Aðstoðarmenn þingmanna burt

         

Þeir stjórnmálaflokkar sem nú sitja á þingi hafa sannarlega skarað eld að eigin köku.  Landsmönnum öllum ofbýður gulltryggð eftirlaun ráðamanna.  Færri vita að formenn flokka fengu einnig með eftirlaunalögunum sérstaka aukagreiðslu ofan á laun sín.  Er það lýðræðislegt að formenn fái slíkar bónusgreiðslur?  Vinnur það ekki gegn lýðræðinu þegar formenn hanga á embættum sínum af því að það fylgja þeim svo ríflegar sponslur?  

En flokkarnir á þingi tryggðu sig líka með því að hækka þröskuldinn sem aðrir flokkar þurfa að yfirstíga til að ná mönnum á þing.  Hann hafði verið 3% en þeir hækkuðu mörkin í 5%.  Þannig tókst þeim að auka líkurnar á að sama flokkakerfið héldist óbreytt, því það er miklu erfiðara fyrir ný grasrótarsamtök að ná yfir 5%-múr, þar sem fjárskortur háir nýjum flokkum mjög mikið í baráttunni við þá flokka sem eru fyrir.  Þetta fékk Íslandshreyfingin að reyna, hún hefði komið mönnum að skv. eldra kosningakerfinu.

Svo hafa flokkarnir belgt sig enn frekar út með tilkomu svokallaðra aðstoðarmanna formanna flokkanna og landsbyggðarþingmanna.  Aðstoðarmenn þingmanna fá hlutfall af þingfararkaupi og aðstoðarmenn formanna fullt þingfararkaup.  Þegar aðstoðarmenn formanna tóku til starfa voru viðtöl við þá í blöðum um hlutverk þeirra.  Þá sögðu þeir auðvitað að hlutverk þeirra væri að aðstoða formennina á ýmsan máta, en sögðu einnig að þeir teldu það einna mikilvægast að þeir ynnu að því að efla fylgi við flokka sína.  Þetta þykir öllum flokkum á Alþingi sæmandi að færa sjálfum sér að gjöf og ráða í þessar stöður dygga flokkshesta, frændur og vini.

Nú, þegar aðhalds er krafist á öllum sviðum, hljótum við að krefjast þess að þessir aðstoðarmenn verði látnir fara.  Og við ættum að  hugsa okkur tvisvar um áður en við hleypum mönnum svona á spena flokkanna aftur.


Kynlegir fjölmiðlar

 Flestir landsmenn fylgdust vel með fjölmiðlum fyrstu helgina í október, vegna válegra tíðinda af fjármálamörkuðum og efnahagskreppu.  Allir sáu sírennsli karla inn og út úr Ráðherrabústaðnum við Lækjargötu, þar sem lykilmenn samfélagsins réðu ráðum sínum.  En það var ekki bara þar sem karlar voru í yfirgnæfandi meirihluta, heldur í flestum spjallþáttum líka. 

Eftirfarandi dæmi segja sína sögu:

,,Logi í beinni"  ræddi á föstudagskvöldinu við þá Kristján Jóhannsson og Björgvin Halldórsson við undirleik hljómsveitar sem er eingöngu skipuð körlum.  Logi baðst reyndar afsökunar á því að engin kona væri í þættinum og sagðist vera að ,,drulla upp á bak". 

Hallgrímur Thorsteinsson stýrði þættinum ,,Í vikulokin" á Rás 1 á laugardagsmorninum.  Gestir hans voru þrír karlmenn, Lúðvík Bergvinsson, Ögmundur Jónasson  og Andrés Magnússon.  Hefði ekki einhver kona á landinu verið fær um að tjá sig um málin?

Á laugardagskvöldið var fyrsti þáttur nýs skemmtiþáttar Ríkissjónvarpsins, ,,Gott kvöld".  Þar var kona þáttarstjórnandi, Ragnhildur Steinunn, og er það sérstakt fagnaðarefni.  En hjá henni var Bubbi aðalgesturinn ásamt tveimur karlkyns aðdáendum hans og tveimur körlum sem hermdu eftir honum.  Hljómsveit þáttarins var eingöngu skipuð körlum, en tvær stúlkur sungu.  Um helgina sem nú er að líða voru bara karlar gestir, að frátöldum þremur dansmeyjum.

Á sunnudeginum 5. okt. var Silfur Egils og þar var ein kona gestur þáttarins.  Engin kona í fjölmennu pallborði við upphaf þáttar.  Hvers vegna ekki?  Var engin kona á landinu hæfari en t.d. blaðamaður sem hefur búið í áratug erlendis?  Og af hverju þurfti fulltrúi ungu kynslóðarinnar líka að vera karlmaður þegar konur eru í miklum meirihluta langskólagenginna á Íslandi? Reyndar kom önnur kona fram í þættinum; hin frábæra fréttakona María Sigrún Hilmarsdóttir - en varla réði Egill nokkru um það hvaða fréttamaður var á vakt við Ráðherrabústaðinn þennan dag.

Á sunnudagskvöld var þátturinn ,,Mannamál" á Stöð 2, undir stjórn Sigmundar Ernis.  Þar voru mættir þrír karlkyns formenn stjórnmálaflokka, einn karlkyns hagfræðingur og tveir karlkyns álitsgjafar.  Engin kona þar.

Sama kvöld ræddi Eva María Jónsdóttir við Ragnar Kjartansson listamann og Jón Ársæll við nafna sinn Ólafsson, athafnamann. 

Þátturinn ,,Singin Bee" var líka sýndur umrædda helgi.  Þáttastjórnandi karlkyns, hljómsveitin þó með eina söngkonu og fallegar stúlkur hafa það hlutverk að dilla sér á kynþokkafullan hátt með hverju lagi.

Þá er Spaugstofan ótalin, en það er kannski eins gott að þeir eru allir karlar, annars gætu þeir ekki gert grín að samfélaginu!

Ég náði ekki að fylgjast grannt með fjölmiðlum um þessa helgi en veit af reynslunni að þakka má fyrir hvert skipti sem konur fá að segja álit sitt á þjóðfélagsmálunum.  Þó hlustaði ég á Bylgjuna fyrir hádegi í dag (sunnudagur 12. okt) og þar voru eintómir karlkyns þáttastjórnendur að tala við karla.

Fjölmiðlar bera ríka ábyrgð á því hvernig mynd þeir gefa af samfélaginu.  Ég leyfi mér að fullyrða að það er hrein móðgun við konur hvernig þessu er háttað í dag.  Hlutur kvenna í fjölmiðlum er um 30 prósent á móti 70 prósenta hlut karla samkvæmt nýlegum rannsóknum.  Þessu verður að breyta á markvissan og meðvitaðan hátt og ég skora á fjölmiðla að gera betur. 

Íslenskar konur eru alls ekki svo óverðugar að þeirra rödd þurfi hvergi að heyrast, en það viðhorf innræta fjölmiðlar komandi kynslóðum með núverandi vinnulagi sínu.  Og ég skora á konur að mótmæla þessu kröftuglega.  Það er ærin ástæða til.

Margrét K. Sverrisdóttir, formaður Kvenréttindafélags Íslands.

 


Brennuvargarnir (birt í 24 stundum 29. sept. ´08)

Ýmsir muna eftir landsþingi Frjálslynda flokksins fyrir tæpum tveim árum, þegar algjört öngþveiti varð í kringum kosningar um varaformann flokksins.  Í krafti reynslu minnar af því að vera í forystu flokksins um árabil hafði ég boðið mig fram til þess embættis gegn Magnúsi Þór Hafsteinssyni, varaformanni flokksins.  Andstæðingar mínir héldu því fram, að ég hefði búið til málefnaágreining vegna afstöðu sumra flokksmanna til innflytjenda, til þess að sækjast eftir valdastöðu innan flokksins. Ég hafði þá talið nauðsynlegt að árétta stefnu flokksins varðandi innflytjendur, enda hugnaðist mér ekki málflutningur Jóns Magnússonar o.fl. um þau mál.  

Ágreiningur innan flokksins hófst nokkrum mánuðum fyrir landsþingið, þegar þáverandi þriggja manna þingflokkur, undir forystu Guðjóns Arnars Kristjánssonar formanns, hafði forgöngu um að taka upp samstarf við stjórnmálaflokkinn Nýtt afl, þar sem Jón Magnússon var formaður.  Þetta gerði Guðjón Arnar af ótta við að Nýtt afl kynni að fara í annað sinn gegn Frjálslynda flokknum í væntanlegum kosningum og ekki síst til að styrkja sjálfan sig áfram í sessi sem formann Frjálslyndra.  Ég fór aldrei dult með andúð mína á þeim fyrirætlunum, enda taldi fjöldi flokksmanna slíkan samruna ekki verða Frjálslyndum til fylgisaukningar, heldur þvert á móti, því Nýtt afl var þá þegar dautt afl.

Á landsþingi Frjálslynda flokksins í janúar 2007, varð ljóst að Nýtt afl hafði náð tökum á forystu  flokksins og vildi yfirtaka hann.  Þá varaði ég formanninn við og sagði að aðkoma Nýs afls að Frjálslynda flokknum minnti mig á svörtu kómedíuna eftir Max Frisch: Biedermann og brennuvargarnir.  Í örstuttu máli var sú saga á þá leið, að herra Biedermann vissi að brennuvargar fóru um bæinn hans og brenndu fjölmörg hús til grunna.  Þegar brennuvargarnir komu heim til Biedermanns, ákvað hann að taka nú nógu vel á móti þeim til þess að þeir færu ekki að gera neitt á hans hlut.  Brennuvargarnir komu sér fyrir uppi á háalofti í húsinu hans og fluttu þangað olíutunnur, en Biedermann gat aldrei tekið af skarið og var ætíð hinn ljúfasti við þá.  Það endaði meira að segja með því að hann færði þeim eldspýturnar í þeirri trú að þeir hlytu að hlífa honum ef hann væri nógu samvinnuþýður.  

Ég held að Guðjón Arnar hafi ekki skilið dæmisöguna mína þá, en hann skilur hana kannski nú.  Valdimar Jóhannesson, hægri hönd Jóns Magnússonar alla tíð, birti í Morgunblaðinu þann 19. september sl.  lítt dulbúna hótun í garð Guðjóns undir fyrirsögninni ,,Glymur klukkan Kristni eða Guðjóni?".  Sá pistill  er skrifaður eftir að miðstjórn Frjálslynda flokksins krafðist þess að Jón Magnússon yrði gerður að þingflokksformanni og Kristinn settur af.  Þar hótar Valdimar því, að ef Guðjón bregðist ekki við kröfu miðstjórnar um að setja Kristin af, muni það hafa áhrif á stöðu formannsins.

Mér virðist Kristinn H. Gunnarsson vera í svipuðum sporum og ég var áður.  Honum hugnast ekki sú útlendingaandúð sem Jón Magnússon, Magnús Þór Hafsteinsson og fleiri aðhyllast, enda samræmist hún engan veginn gildandi stefnuskrá flokksins.  Því var Kristinn í fullum rétti sem þingmaður flokksins, þegar hann andmælti andstöðu Magnúsar Þórs við komu flóttamanna til Akraness sl. vor.

Nú styttist í landsþing Frjálslyndra á næsta ári og segja má að olíutunnurnar hafi verið bornar upp á háaloft.  Skyldi Biedermann færa brennuvörgunum eldspýturnar?

Margrét K. Sverrisdóttir

Höfundur sagði skilið við Frjálslynda flokkinn fyrir 2 árum vegna óánægju með samruna við Nýtt afl og vegn stefnu í málefnum innflytjenda.


Móti straumi

 

Barátta minnihlutahópa í samfélaginu er barátta fyrir breyttu hugarfari.  Sú barátta krefst þess að minnihlutahópar fari gegn ríkjandi gildum og viðmiðum til að knýja á um breytingar.  Það kallar jafnan á harkaleg og neikvæð viðbrögð þeirra sem styðja ríkjandi gildi. 

Þegar þrotlaus barátta minnihlutahópa skilar árangri, hættir fólki til að taka það sem sjálfsögðum hlut vegna þess að loksins þegar að því kemur, hefur hugarfarið breyst og breytingarnar virðast því sjálfsagðar og eðlilegar.  Þá gleymist mjög oft að þakka þeim sem stóðu í baráttunni fyrir þann árangur sem náðst hefur.

 

Barátta samkynhneigðra

Samtökin ´78, félag lesbía og homma á Íslandi, fagnaði 30 ára afmæli með hátíð í Hafnarhúsinu sl. föstudag, á alþjóðlegum baráttudegi samkynhneigðra.  Ísland er í dag í fremstu röð varðandi réttindi samkynhneigðra. Þeir brimbrjótar, sem fóru fremstir í flokki í þeirri baráttu sem nú hefur borið svo ríkulegan ávöxt, eiga sannarlega heiður skilinn.  Gífurlegir fordómar ríktu almennt í garð samkynhneigðra þegar Hörður Torfason söngvari kom fyrstur „út úr skápnum" eins og það er kallað, og bauð fordómunum byrginn.  Það þurfti líka kjark til að setjast í stjórn Samtakanna ´78 fyrstu árin.  Margt af því sem nú þykja sjálfsögð mannréttindi, virtist gersamlega útilokað, til dæmis réttur samkynhneigðra til hjúskapar og ættleiðinga.  Gay Pride-ganga hinsegin fólks hefði líka verið óhugsandi þá vegna þess að flest samkynhneigt fólk lifði í felum og leyndi kynhneigð sinni.

 

Kvennabaráttan

Þátttaka kvenna í stjórnmálum hefur gegnum tíðina snúist að miklu leyti um baráttu gegn ríkjandi gildum. Á öllum tímum hefur verið gert lítið úr kvenréttindakonum og þær uppnefndar.  En þrýstingur kvennabaráttunnar hefur skilað því að konur hafa komist til áhrifa sem hefðu annars átt erfitt uppdráttar, þrátt fyrir óumdeilda hæfileika á sínu sviði.  Með þrotlausri baráttu fjölmargra kvenna um áratuga skeið jókst þrýstingur á stjórnmálaflokka að gefa konum tækifæri þótt sumir flokkar hafi brugðist seint við.  En jafnvel konur sem geta beinlínis þakkað kvennabaráttunni fyrir að vera í áhrifastöðu sem þær hefðu annars ekki komist í, gefa þessum kynsystrum sínum  langt nef og segja að konur komist áfram  „á eigin verðleikum".  Eins og sá árangur sem þó hefur náðst, sé sjálfsagður hlutur og brautin greið framundan.  Samt er svo margt óunnið, s.s. að jafna launamun kynjanna, en hann endurspeglar hróplegt óréttlæti.

 

Baráttan fyrir náttúruvernd

Barátta náttúruverndarsinna hefur orðið æ meira áberandi síðustu ár hér á landi.  Náttúruverndarsinnar fara gegn ríkjandi gildum með því að krefjast allsherjar hugarfarsbreytingar gagnvart náttúrunni.  Náttúruverndarfólk vill að ósnortin náttúra sé metin til fjár.  Það hefur aldrei verið gert, heldur einungis settir verðmiðar á „arðbærar framkvæmdir" í náttúrunni, með tilheyrandi náttúruspjöllum. 

Smám saman kemur árangur áratuga baráttu í ljós og nú liggur fyrir, samkvæmt nýrri könnun, að meirihluti landsmanna er andvígur frekari virkjunum fyrir stóriðju.

Náttúruverndarsinnar eru því mjög fjölmennur þrýstihópur hér á landi, en mætir samt miklum fordómum.  Þess vegna er svo dýrmætt að njóta þar liðsinnis fólks sem hlustað er á.  Allur heimurinn leggur við hlustir þegar Björk lýsir afstöðu sinni til náttúruverndar á Íslandi. En andstæðingar tala niður til hennar. Sem betur fer er Björk hvergi bangin við að synda á móti straumnum og hefur aldrei verið.  Það er ómetanlegt.

Höfum jafnan hugföst eftirfarandi vísuorð  Bjarna Thorarensens:

En þú, sem undan

ævistraumi

flýtur sofandi

að feigðarósi,

lastaðu ei laxinn,

sem leitar móti

straumi sterklega

og stiklar fossa.


Kvenréttindadagurinn

Í gær var 19. júní og margir viðburðir skipulagðir til að fagna honum.  Ég byrjaði daginn snemma á viðtali í morgunútvarpi Rásar 1 í tilefni dagsins.  Síðan mætti ég í utanríkisráðuneytið þar sem kynnt var sameiginlegt verkefni utanríkisráðuneytis og Háskóla Íslands og viljayfirlýsing undirrituð um stofnun Jafnréttisseturs og Jafnréttisskóla við HÍ.  Þetta er lofsvert og þarft framtak, sem felur í raun í sér útrás íslenskrar kvenorku, því Ísland mun miðla öðrum þjóðum af reynslu sinni í jafnréttismálum auk þess að vinna markvisst að rannsóknum á sviði jafnréttis.

Síðdegis var kvennasöguganga sem Kvennasögusafnið og Kvenréttindafélag Íslands stóðu að í sameiningu.  Gengið var frá minnismerkinu um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur - Bríetarbrekku við Þingholtsstræti - og staldrað við á nokkrum kvennasögulegum stöðum á leið gegnum miðborgina að Hallvegarstöðum, þar sem kaffisamsæti tók við.  Auður Styrkársdóttir, forstöðukona Kvennasögusafnsins leiddi gönguna og fræddi göngufólk um kvenna-sögufræga staði með áhugaverðum og skemmtilegum frásögnum.  Steinunn Valdís Óskarsdóttir, alþingismaður og fyrrverandi borgarstjóri flutti ávarp dagsins á Hallveigarstöðum; hressilega brýningu um kjaramál.  Auk þess var útáfu 19. júní fagnað sérstaklega og ritstjóri blaðsins, Steingerður Steinarsdóttir flutti skemmtilega hugvekju.  Um 100 konur mættu í gönguna og móttökuna.

Síðan náði ég að skjótast á stórglæsilega opnunarhátíð Auðar Capital í Ásmundarsal.  Þar var heilmikið fjör og þéttriðið tengslanet kvenna!  Það verður spennandi að fylgjast með því hvernig þessum öflugu konum tekst setja mark sitt á fjármálaheiminn á næstunni.  Þær völdu sannarlega rétta daginn til að stimpla sig rækilega inn.

Um kvöldið var svo hin árlega Kvennamessa við Þvottalaugarnar í Laugardal.  Áhrifamikil messa, þar sem Þórunn Sveinbjarnardóttir flutti vandaða predikun af myndugleik, Auður Eir fór með bænir og blessunarorð, Áslaug Brynjólfsdóttir las ritningarlestur og Anna Sigríður Helgadóttir söng einsöng.  Þetta var ákaflega hátíðleg stund, enda datt á blæjalogn og sólin braust fram úr skýjunum á meðan á messuhaldinu stóð.  Þannig blessaði "hún Guð" þessa stund - eins og Kvennakirkjan yndi líklega orða það.  Svo áttu messugestir skemmtilega stund á Café Flóru í grasagarðinum á eftir.  Svona á 19. júní að vera..   Og skilaboð kvenna í tilefni dagsins voru öll á sama veg:  Launamunur kynjanna er óþolandi og kjaramálin brenna almennt mjög á konum, ekki síst á kvennastéttum. 

P.S.  Og svo fagna ég því sérstaklega að ríkisstjórnin skyldi taka handbremsuna af efnahagslífinu með því að efla Íbúðarlánasjóð.  Það mun hafa margfeldisáhrif til góðs, sérstaklega á fasteignamarkaði og í byggingaiðnaði.

 

Teigsskógur

Við vestanverðan Þorskafjörð er einstök náttúruperla, Teigsskógur. Skógurinn sá er á náttúruminjaskrá og verndargildi hans er óumdeilanlega miklu meira en annarra birkiskóga á Vestfjörðum. Þetta er víðáttumesti náttúrulegi birkiskógurinn á Vestfjörðum og mjög stór á landsvísu. Mannvirki eru sárafá og falla afar vel að landslagi og fornminjar eru nokkrar á svæðinu. Um er að ræða upprunalegan birkiskóg með afar fjölbreyttu gróðurfari og telja  sérfræðingar að skógurinn hafi nokkra sérstöðu í sýslunni og landshlutanum öllum hvað varðar tegundafjölda botngróðurs. Dýra- og fuglalíf er óvenju mikið enda er svæðið afskekkt  og náttúrufar fjölskrúðugt.

Síðustu ár hefur staðið nokkur styr um fyrirhugaða vegagerð um skóginn og sýnist sitt hverjum. Ég þekki af eigin raun hve slæmt ástand vega hefur verið í Barðastrandasýslu um árabil; ófærð á vetrum og varla fólksbílafært víða á sumrin vegna aurbleytu.  Um árabil hefur reyndar verið  brýn þörf á að stórbæta vegakerfið á Vestfjörðum öllum.  En það fór þó um mig þegar ákveðið var að leggja nýjan veg gegnum náttúruperluna Teigsskóg, því það er alls ekki sama hvernig að málum er staðið á því svæði.  Fyrirhugað vegastæði mun liggja eftir skóginum endilöngum og valda þar með stórspjöllum á þessum einstæða skógi svo og á náttúrunni allri.

Mótmæli náttúruverndarsamtaka

Skipulagsstofnun lagðist upphaflega gegn því að vegur yrði lagður um Teigsskóg, vegna þess að skógurinn væri á náttúruminjaskrá auk þess sem stofnunin taldi að vegur um skóginn hefði umtalsverð umhverfisáhrif. Vegagerð um skóginn samræmdist því illa lögum um náttúruvernd og gengi einnig í berhögg við stefnumörkun stjórnvalda um sjálfbæra þróun.  Þrátt fyrir það lagði fyrrverandi umhverfisráðherra, Jónína Bjartmarz, til að Vestfjarðavegur yrði lagður um Teigsskóg og sagði að sjónarmið varðandi umferðaröryggi hefðu ráðið mestu um þá ákvörðun sína.

Náttúruverndarsamtök og umhverfissinnar hafa mótmælt þessum áætlunum harðlega og eindregið óskað þess að Vestfjarðavegur verði fremur lagður í göng undir Hjallaháls og Gufudalsháls.  Sú leið væri albesti kosturinn með tilliti til náttúrunnar, styttingar leiðar og umferðaröryggis.  Hins vegar var sá kostur aldrei á borði umhverfisráðherra af því að hún var ekki skoðuð í mati á umhverfisáhrifum.  Þess vegna gat umhverfisráðherra ekki gert ráð fyrir göngunum í sínum úrskurði.

Sérfræðiálit

Eftirfarandi klausa er úr sérfræðiáliti Ásu L. Aradóttur vistfræðings um skóglendi í utanverðum Þorskafirði (Teigsskógi):

Birkiskógurinn við utanverðan Þorskafjörð eru með stærstu og heillegustu birkiskógum á Vestfjörðum (...).  Skógurinn er afar þéttur og mannvirki í honum eru lítt áberandi. Þá bendir allt til þess að skógurinn hafi náð sér vel eftir að dró úr beit á svæðinu og annarri nýtingu var aflétt af honum. Skógurinn er það þéttur að líklega er hann meira eða minna varinn fyrir beit og hefur hann yfirbragð nær ósnortins lands. Víðast nær skógurinn milli fjalls og fjöru og myndar ásamt fjörunni og hjöllunum landslagsheild, sem er einstök fyrir það hversu lítt áberandi mannvirki og áhrif nýtingar eru þar. Sem slíkur hefur Teigsskógur sérstöðu á Vestfjörðum og á landsvísu.

Enn einu sinni má spyrja:  Hvers virði er óspillt náttúra í landi sem vill efla ímynd sína sem land stórbrotinnar og fagurrar náttúru?  Vilja landsmenn eyðileggja skóg sem er á náttúruminjaskrá?  Eyðilegging á Teigsskógi og umhverfi hans yrðu óafturkræf náttúruspjöll, því slíkur skógur verður aldrei endurheimtur. Rösum ekki um ráð fram.

 

 

 

 

 

 

 


Hjálpum þeim

Íslendingar hafa skyldum að gegna gagnvart alþjóðasamfélaginu og móttaka flóttamanna er ein af þeim skyldum.  Félagsmálaráðuneytið semur við sveitarfélög um móttöku á ákveðnum fjölda flóttamanna í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar hverju sinni.  Móttaka flóttamanna til Íslands er því samvinnuverkefni stjórnvalda, viðkomandi sveitarfélags og Rauða kross Íslands.        

 

Velvilji hingað til    

 

Starfsfólk sveitarfélaga hefur jafnan unnið mjög vel að móttöku flóttamanna, en einnig koma að móttöku þeirra starfsmenn og sjálfboðaliðar Rauða krossins. Rauði krossinn hefur hlotið mikið lof fyrir frammistöðu sína varðandi móttöku flóttamanna.  Fagfólk hefur stýrt verkefnum fyrir hönd RKÍ og RKÍ hefur jafnan auglýst eftir stuðningsaðilum / stuðningsfjölskyldum til að hjálpa flóttafólki að fóta sig á Íslandi og hafa viðbrögðin verið umfram væntingar. Þetta stuðningsaðilakerfi hefur vakið verðskuldaða athygli. Níu sveitarfélög á Íslandi hafa tekið á móti flóttamönnum og er komin góð reynsla á alla verkferla auk þess sem íbúar hafa jafnan verið velviljaðir í garð flóttamanna.  Ýmsir hafa sýnt vilja í verki og til að mynda hefur rútufyrirtækið Guðmundur Jónasson ehf. ekið með flóttamenn frá Keflavík til Reykjavíkur endurgjaldslaust í heil 50 ár!     

 

Ekki velkomin? 

 

Því var það, að harkaleg andstaða fyrrum formanns félagsmálaráðs Akraness og varaformanns Frjálslynda flokksins, Magnúsar Þórs Hafsteinssonar,  við fyrirhugaða komu flóttamanna til bæjarins vakti furðu landsmanna.  Um er að ræða konur; einstæðar mæður eða ekkjur með börn, sem eiga hvergi samastað en dvelja nú í flóttamannabúðunum Al-Waleed í Írak.  Flestar munu þær hafa misst eiginmenn sína í stríðsátökum.  Formaðurinn taldi að ástandið á Akranesi væri þannig að bærinn ætti fullt í fangi með að aðstoða bæjarbúa og gaf til kynna að áður en til móttöku flóttamanna kæmi, þyrfti að leysa félagsleg vandamál bæjarins.Það er beinlínis hættulegt að formaðurinn skuli tala með þessum hætti um að Akurnesingar skuli fyrst huga að eigin fólki.  Hann kýs þar með að ala á ótta bæjarbúa við að flóttafólkið fari framfyrir í röð þeirra bæjarbúa sem bíða félagslegra úrræða.  Þetta er rangt.   Víst mun vera rétt að nokkur fjöldi fólks sé á biðlista á Akranesi eftir félagslegu húsnæði. En formaðurinn virtist ekki vita að koma flóttamanna breytir engu um stöðu biðlistans á Akranesi  þar sem flóttamennirnir fara ekki inn í félagslegar íbúðir á vegum bæjarins heldur leigja á almennum markaði. Ríkið greiðir allan kostnað við húsnæði fólksins á meðan á svokölluðum aðlögunartíma stendur (í 1-2 ár) en að því loknu greiðir fólkið sjálft húsaleigu.  Flóttafólk í öðrum sveitarfélögum hefur undantekningalítið aðlagast vel og náð að standa á eigin fótum að aðlögunartíma loknum og fáir eiga betra með að aðlagast nýju umhverfi en börn og unglingar sem virðast vera í meirihluta þess hóps sem kemur. Magnús Þór hefur líka margsagt, að stjórnmálaflokkar á Akranesi hafi nú svikið kjósendur sína, því enginn flokkur hafi haft það á stefnuskrá sinni fyrir kosningar að taka á móti flóttafólki!  Þetta lýsir miklu skilningsleysi á eðli flóttamannahjálpar, því móttaka flóttamanna er skilgreind sem mannúðarverkefni, en ekki pólitískt verkefni og um hana er samið á alþjóðavísu milli ríkisstjórnar og Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna áður en ráðuneyti semja við sveitarfélög.  Við tökum við því fólki sem að mati Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna býr við mesta neyð og þar sem líklegast er að hjálpin skili árangri.  

 

Kærir meiðyrði 

 

Magnús Þór hefur að vanda farið hamförum á bloggsíðu sinni, nú gegn fyrrum samstarfsfólki sínu í bæjarstjórn Akraness.  Auk þess ætlar félagsmálaforkólfurinn vist að kæra einhvern fyrir að hafa sagt að hann sé kynþáttahatari.  Fyrr má nú kasta steinum úr glerhúsi, því þetta er maðurinn sem skrifaði á netið að sprengja ætti Halldór Blöndal þáverandi forseta Alþingis til helvítis og Björn Bjarnason ráðherra með, eins og flestir muna.   Og Frjálslyndi flokkurinn hefur óneitanlega fengið á sig stimpil kynþáttaandúðar. Í Silfri Egils sl. sunnudag mætti Magnús Þór Amal Tamimi, 6 barna móður frá Palestínu. Hún kom tíl Íslands 1995, talar góða íslensku og er félagsfræðingur frá Háskóla Íslands. Amal er  fræðslufulltrúi og túlkur í Alþjóðahúsi auk þess að vera virk í félagsstarfi, s.s. í stjórn Samtaka kvenna af erlendum uppruna.  Amal er glæsilegur fulltrúi palestínskra kvenna á Íslandi og verður þeim eflaust fyrirmynd. Höfum hugfast að sérhvert mannslíf er einstakt og börnin gráta eins, hverrar þjóðar sem þau eru.  Hjálpum þeim. 

 


Náttúruverndarsamtök Vestfjarða stofnuð

Ég gerði mér ferð vestur á firði sl. laugardag, 5. apríl, þegar Náttúruverndarsamtök Vestfjarða voru stofnuð að viðstöddum umhverfisráðherra Þórunni Sveinbjarnardóttur sem ávarpaði fundinn. Einnig voru með innlegg á fundinum Árni Finnsson formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands og félagi minn Ómar Ragnarsson.  Um hundrað manns sóttu fundinn og var dagskrá öll hin vandaðasta.  Ólína Þorvarðardóttir stýrði fundinum styrkri hendi og auk þess að samþykkja lög samtakanna var eftirfarandi ályktun samþykkt:

Náttúruverndarsamtök Vestfjarða skora á stjórnvöld og forráðamenn sveitarstjórna á Vestfjörðum að standa vörð um vestfirska náttúru með hóflegri og skynsamlegri nýtingu náttúrugæða, rannsóknum á vistkerfi og verndun náttúruverðmæta. Tekið verði fyllsta tillit til náttúrufars, dýralífs, gróðurs og sjávarvistkerfa við stefnumótun og ákvarðanir um samgöngumannvirki, stóriðju, uppbyggingu í ferðaþjónustu og önnur umsvif sem áhrif hafa á umhverfi og landgæði.    Náttúruverndarsamtök Vestfjarða hvetja til þess að komið verði á virkri og víðtækri gagnasöfnun um náttúrufar, dýralíf, sjávarvistkerfi og gróður í samstarfi við rannsóknarstofnanir og fræðasetur á Vestfjörðum. Í þessu skyni verði veitt fé úr ríkissjóði til þess að stofna rannsóknastöðu í náttúru- og umhverfisfræðum. 

Náttúruverndarsamtök Vestfjarða kalla eftir samstarfi við stjórnvöld um verndun náttúru, umhverfisfræðslu, friðlýsingu merktra og fagurra staða, verndun minja og skynsamlega nýtingu náttúruauðlinda.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband