Af ótímabærum mótmælum

Grein skrifuð í ágúst 2006 - en á alveg eins erindi í umræðuna nú:

 Þegar auglýst var eftir athugasemdum við breytingar á deiliskipulagi lóða við Laugaveg 4-6 í júní sl., var ég ein þeirra sem skilaði inn athugasemdum í eigin nafni, enda ötul baráttukona fyrir því að vernda eldri götumynd Laugavegarins.  Ég gerði athugasemd við að gömlu húsin þarna skuli rifin þar sem þau hafa mikið menningarsögulegt gildi fyrir borgina og tilheyra séríslenskri og reykvískri menningar- og byggingarsögu.  Einnig gagnrýndi ég að þær nýbyggingar sem eiga að rísa í staðinn muni skyggja á sólu og gera Laugaveginn að kaldari og skuggalegri götu en hann er í dag.   Svar frá borgaryfirvöldum

Í svarbréfi sem sent var til allra þeirra sem skiluðu inn athugasemdum sagði m.a. : ,,Öll samræða við yfirvöld um verndun umræddra húsa og húsavernd almennt hefði þurft að fara fram fyrr og eiga sér stað á öðrum vettvangi og með víðtækari tilvísun í stöðu, stefnu og löggjöf húsaverndar." (Leturbreyting mín.) 

Við, sem gerðum athugasemdir, vorum sem sagt að gera rangar athugasemdir á röngum tíma og röngum vettvangi.  Ég sá nafnalista yfir þá sem gerðu athugasemdir og þetta er allt málsmetandi fólk sem hefur barist fyrir verndun eldri götumyndar Laugavegarins undanfarin ár. 

Ekki hafa áhyggjur mínar af þróun byggðar við Laugaveginn minnkað nema síður sé, því hin nýja borgarstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar, með minnihluta atkvæða borgaranna á bakvið sig, ætlar að halda sínu striki við uppbygginguna og farga menningarverðmætum sem verða aldrei bætt.

            Einhvern veginn virðist mér sem lýðræðisleg samskipti borgaranna við borgaryfirvöld séu óeðlilega erfið.  Það er nefnilega aldrei rétti tíminn fyrir borgarana til að mótmæla.  Mörgum leist t.d. ekki vel á fyrirhugað vegarstæði Hringbrautarinnar á sínum tíma, en lengi vel var alltof snemmt að koma með athugasemdir – en viti menn – allt í einu var það um seinan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Bragi Bragason.

Ég er á því að passa eigi gömlu húsin....

Einar Bragi Bragason., 8.1.2008 kl. 00:17

2 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Sæl Margrét,

Það er gríðarlega mikilvægt að þið standið ykkur í þessu máli og komið í veg fyrir áform um nýbyggingu á þessum stað. Strax í framhaldinu þarf svo að fella úr gildi deiliskipulagið sem unnið var á sínum tíma, að því er virðist fyrst og fremst vegna þrýstings frá kaupmönnum. Nýtt skipulag ætti svo að taka mið af þeirri byggð sem fyrir er og snúast um að bæta hana og fegra. Í framhaldinu ætti svo að setja húseigendum reglur um viðhald og umhirðu svo Laugavegurinn og nágrenni fari að líta út eins og miðbær í sómasamlegri borg en ekki leikvöllur leiguhákarla.

Þorsteinn Siglaugsson, 8.1.2008 kl. 11:09

3 Smámynd: Upprétti Apinn

Ef þessir kofar eru svona merkileg hús þá hefði átt að óska eftir að þau væru sett á skrá Húsfriðunarnefndar löngu áður en ákveðið var að fjarlægja þau.  Svar Bygginganefndar er því fullkomlega eðlilegt.  Þar er verið að fjalla um þá tillögu sem lögð er fram en ekki gildi þess sem á að fjarlægja.  Án úrskurðar Húsfriðunarnefndar er ekki hægt að koma í veg fyrir að borgarar landsins byggi upp eignir sínar innan marka skipulags og hefðar.

Í öllum ákvörðunum um Húsavernd þarf að taka tillit til gildi byggingarinnar gegn þörfum samfélagsins.  Það er nauðsinlegt að miðborg Reykjavíkur fái frelsi til að þróast líkt og aðrar borgir hafa gert í gegnum söguna.  Glæsileiki borga sem við viljum bera okkur saman við var ekki náð með því að stöðva alla eðlilega þróun á einhverjum tímapunkti.  Enilift timburhús voru þarfleg og passleg fyrir miðborg Reykjavíkur þegar borgin var þorp en eru óhæf fyrir borgina í dag.

Það þarf að viðurkenna tvennt í þessum efnum.  Allt gamalt er ekki merkilegt og að það sem er merkilegast á hverjum tíma mun lifa til lengri tíma.  En ekkert er óendanlegt.

Merkilegasta sögulega timburbygging Reykjavíkur var líklega Fjalakötturinn.  Þessi þrjú smáhús á Laugarveginum eru það hins vegar ekki.  Það eru þó önnur merkileg hús í miðborginni og eru þau réttilega vernduð af Húsfriðunarnefnd.  Missir þessara húsa verður því ekki endirinn á sögulegum "anda" miðborgarinnar.

Upprétti Apinn, 8.1.2008 kl. 11:28

4 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Það væru mjög slæm mistök að leyfa verulega aukningu á byggingamagni á fasteignum (lóðum) við Laugaveg en nú er, sérstaklega starfsemi sem dregur að sér vaxandi bílaumferð á borð við hótelrekstur. Slíkur rekstur á ekkert erindi í þröngum götum sem upphaflega var hönnuð fyrir hestakerrur.

Ef stíflan brestur þá verður bæði seint og snemma um alla framtíð vísað á þetta fordæmi þegar fleiri hús verða rifin.

Leggja þarf fyrst og fremst áherslu á endurgerð þeirra húsa sem fyrir eru og varðveita götumyndina eftir því sem unnt er. Ekki verði byggð hærri hús en fyrir eru. Af hverju er aldrei litið til Þýskalands en þar var gríðarlega mörg eyðilögð í stríðinu. Ekki datt Þjóðverjum í hug annað en að endurgera þau hús sem eyðilögðust en forðuðust að byggja hús með einhverju nýju og skelfilegu útliti. Miðbærinn í Reykjavík er eins og eftir margar loftárásir og það sem verra er: miðborgin hefur verið byggð upp með nýtísku húsum sem æpa bókstaflega á gamlan byggingastíl húsa allt frá 18. öld. Það er borgaryfirvöldum Reykjavíkur 20. aldar til mikils vansa.

Hótelrekstur á miklu fremur heima þar sem nægt rými er fyrir og önnur starfsemi þrengir ekki að henni. 

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 8.1.2008 kl. 21:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband