6.2.2007 | 10:10
Lýðræði?
Grundvöllur okkar lýðræðis á að byggja á frjálsum kosningum og skýrri aðgreiningu framkvæmdavalds, dómsvalds og löggjafarvalds.
Nú í febrúarbyrjun getum við minnst þess að þann 1. febrúar 1904 var eiginlegur fæðingardagur þingræðis á Íslandi. Þá fyrst fékk Alþingi vald til að velja forystu framkvæmdavalds í landinu sem starfaði í umboði þess.
Misjafnt vægi atkvæða
Stærsti galli á lýðræðinu í framkvæmd hér á landi og þar með stærsti galli þingræðisins er misjafn kosningaréttur kjósenda sem erfitt virðist vera að jafna. Vegna misvægis atkvæða hefur rúmlega helmingur kjósenda á Íslandi aðeins hálfan atkvæðisrétt sem þýðir í raun að minnihluti kjósenda ræður för. Þetta gengur þvert á lögmál raunverulegs lýðræðis. Einnig er það áhyggjuefni, að áhugi almennings á pólitík virðist heldur hafa dvínað frá því sem áður var, líklega vegna aukins áreitis. Það er ekki vafamál, að fengi fólk að segja álit sitt oftar í þjóðaratkvæðagreiðslu um stærstu mál, myndi áhuginn vaxa verulega.
Ofríki ráðherra
Það þarf að aðgreina betur framkvæmdavald, löggjafarvald og dómsvald. Löggjafarvaldið (Alþingi) hefur verið að veikjast og framkvæmdavaldið (ráðherrarnir) fært sig stöðugt upp á skaftið. Skýrasta dæmið um yfirgang framkvæmdavaldsins gagnvart löggjafarvaldinu í seinni tíð var ákvörðun um stuðning íslensku þjóðarinnar við innrásina í Írak. Tveir menn, þáverandi forsætisráðherra og utanríkisráðherra landsins, tóku þessa afdrifaríku ákvörðun án minnsta samráðs við löggjafarsamkunduna -og þar með þjóð sína. Að spyrja ekki þjóðina var verst, því ég leyfi mér að fullyrða að meirihluti hennar vill aldrei fara með stríði á hendur öðrum þjóðum.
Þingið reyndist of veikt af því þingmenn stjórnarmeirihlutans þorðu ekki að fara gegn ráðherrum sínum. Jafnvel ráðherrarnir sjálfir virtu æðstu stofnun þjóðarinnar að vettugi. Stjórnarmeirihlutinn á Alþingi gleymdi því að ráðherrunum ber að starfa í umboði Alþingis. Alþingi má ekki vera máttlaus afgreiðslustofnun sem framkvæmdavaldið ryðst yfir.
Annað nærtækt dæmi: Alþingi á að kjósa sér forseta við upphaf hvers þings, en þó hefur verið tekin upp sú aðferð að gera það um leið og ráðherrastólum er útdeilt í næstu ríkisstjórn. Hvar er þingræðið þá?
Keypt lýðræði?
Varðandi lýðræðið þá skiptir líka máli sú þróun að völdin hafa verið að færast til fjármálaheimsins. Sameign þjóðarinnar var afhent örfáum mönnum og bankarnir seldir á hálfvirði. Og varla viljum við sjá ,,bandarískt kosningakerfi" þar sem einungis auðkýfingar geta boðið sig fram til æðstu embætta.
Þeir sem ráða fjármagninu styðja gjarnan þá stjórnmálaflokka sem vernda hagsmuni þeirra best. Þess vegna má fagna sérstaklega nýjum lögum um opinber fjármál stjórnmálaflokka, því hingað til hafa sumir flokkar ekki viljað upplýsa hvernig þeir hafa getað rekið kosningabaráttu fyrir milljónatugi sem hefur jafnvel ráðið úrslitum um niðurstöðu ,,lýðræðislegra kosninga".
Valdið hefur iðulega legið hjá þeim sem öllu vilja ráða án tillits til þess að framkvæmdavaldinu ber að lúta Alþingi. Við verðum að minnsta kosti að horfast í augu við alvarlegasta dæmið um það, sem varð til þess að við erum enn á lista ,,hinna staðföstu þjóða", þjóðanna sem studdu innrásina í Írak. En því getum við þó breytt með atkvæði okkar í lýðræðislegum kosningum í vor.
Þessi grein birtist í Blaðinu í dag
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Heyr , heyr!!!
Anna Benkovic (IP-tala skráð) 6.2.2007 kl. 10:29
Sæl Margrét. Til hamingju með að hafa sagt skilið við nýja flokkinn hans Jóns Magnússonar.
Ég vil minna þig á svívirðilegt dæmi um misbeitingu valds, það er misbeitingu sjálfs löggjafarvaldsins.
Það var þegar þeir Steingrímur J. Sigfússon, Össur Skarphéðinsson og Guðjón Arnar Kristjánsson settust niður með forkólfum framkvæmdavaldsins - sem þeir áttu að veita aðhald - og sömdu frumvarp um eftirlaunaforréttindi sjálfum sér til handa. Tugmilljónir komu þar í hlut hvers og eins þeirra.
Af umræðum á Alþingi og fréttum frá þessum tíma má ráða að þetta var gert á bakvið þing og þjóð en forsætisnefnd þingsins látin flytja frumvarpið til að ljá svínaríinu virðulegt yfirbragð. Rousseau sagði um athæfi sem þetta:Misnotkun laganna af hálfu stjórnvalds er skárri en spilling löggjafans, sem er óbrigðul afleiðing sértækra sjónarmiða. Þegar slík spilling grípur um sig breytist ríkið í innsta kjarna sínum og ómögulegt verður að koma á minnstu umbótum.
Í þessu ljósi verður að meta ofríki stjórnvalda síðustu árin. Þegar þeir sem gefa sig út fyrir að leiða stjórnarandstöðuna á Alþingi láta það verða sitt fyrsta verk eftir kosningar að draga úr sér allar tennur, þá er ekki annars að vænta en að stjórnvöld gangi hart fram og vaði yfir allt og alla.Það hlýtur að verða forgangsverk nýs framboðs að þrífa upp þennan eftirlaunaóþverra.
Kjörnir fulltrúar eiga ekki að búa um sig handan við veruleika almennings. Það er misbeiting valds eins og hún gerist verst. Alþingis menn eiga einfaldlega að búa við sömu eftirlaunaréttindi og aðrir opinberir starfsmenn.ÁFRAM MARGRÉT !
Hjörtur Hjartarson (IP-tala skráð) 6.2.2007 kl. 10:46
Sæl Margrét,
Ég er sammála þér með flest í grein þinni en algerlega ósammála því að lögin um fjármál stjórnmálaflokka séu af hinu góða. Ég held að þér hafi yfirsést sú staða sem þú gætir lent í.
Lögin heimila styrki til stjórnmálaflokka (bara þeirra sem eru á þinginu) upp á 300 milljónir á ári. Á sama tíma takamarka þeir framlög með öðrum hætti niður í 300.000 krónur frá hverjum lögaðila. Það sjá allir sem vilja sjá að þetta er atlaga að ÖLLUM nýjum framboðum til þings. Þarna eru stjórnmálaflokkarnir á þingi að afgreiða sjálfa sig með lögum nærri 20 milljónum á hvern þingmann til að tryggja endurkjör. Þú hlýtur að sjá að þarna er bara verið að færa styrkjaspillinguna frá ríkum einkafyrirtækjum og einstaklingum til ríkissjóðs! Mín vegna mátti takmarka einstaka styrki við 300.000 krónur á lögaðila, en sjálftakan úr ríkissjóði er löglegur en siðlaus þjófnaður.
Mér finnst sem þingmenn hafi verið ómeðvitaðir um það að þingflokkarnir eigi ekki að vera sérstaklega festir í sessi með þessum hætti. Ég tel að þetta brjóti í bága við stjórnarskrána. Til þess að breyta þessu þarf nýtt (helst eitt stórt og sameinað) framboð að ná fótfestu til að breyta eða afnema þessa vanhugsuðu löggjöf.
Ég vonast til að sjá þig í stærri hópi nýs framboðs og tel að þú getir átt betri daga í vændum annars staðar en í Frjálslynda flokknum.
Haukur Nikulásson, 6.2.2007 kl. 11:29
Sæl Margrét.
Fyrst vil ég lýsa aðdáun minni á því að þú skyldir hafa reynt að fá Frjálslynda flokkinn til að beygja af þeirri lágkúrulegu leið sem hann hefur farið inn á og í framhaldi af því sagt skilið við flokkinn þegar hann hélt fast við sinn keip.
Þetta styrkir mig enn í þeirri trú að stjórnmálaflokkar eru ekki trúverðugir til að vera fulltrúar kjósenda. Engin leið var fyrir kjósendur Frjálslynda flokksins, í síðustu kosningum, að átta sig á því að þeir væru að treysta grundvöll undir einhverskonar rasistahreyfingu. Því síður gátu kjósendur haft áhrif á beitingu fulltrúavalds þingflokksins og þeirra ráðslag eftir að kosningum var lokið.
Allt þetta ferli hefur styrkt mig í þeirri trú að við næstu stjórnarskrárbreytingu skuli taka upp tvennskonar kosningu til Alþingis líkt og gert er í mörgum löndum. Helmingur þingmanna sætti kjöri samkvæmt kerfi sem væri áþekkt núverandi kerfi en hinn helmingurinn sætti kjöri á einstaklingsgrundvelli á landinu öllu. Þannig væri tryggt að landsmenn gætu kosið þær persónur sem þeir vildu til setu á Alþingi en ekki þeim sem hafa sigur í misgegnsæjum skylmingum innan stjórnmálaflokkanna.
Ég sting upp á framboðslista óflokksbundinna í næstu kosningum en til þess þarf auðvitað að hafa hraðar hendur.
Hreiðar Eiríksson (IP-tala skráð) 6.2.2007 kl. 16:41
P.S. Vil árétta að kvótagreifarnir eiga ekki kvótann eins og sjá má í þessari grein. minni. Veit ekki til þess að að dómnum sem vitnað er í hér neðar hafi verið áfrýað og er því staðfestur af héraðsdómi einum að vísu.
Kvótabraskið hangir á bláþræði P.S. Vil árétta að kvótagreifarnir eiga ekki kvótann eins og sjá má í þessari grein minni.
"Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað íslenska ríkið af kröfu smábátaútgerðarmanns, sem taldi að breytingar sem gerðar voru á lögum um stjórn fiskveiða árið 2004 hefðu valdið honum tjóni og brotið gegn eignarréttarákvæði og jafnræðisreglu stjórnarskrár. Útgerðarmaðurinn vildi að bótaréttur hans yrði viðurkenndur. Héraðsdómur vísar hins vegar til þess, að í lögum um stjórn fiskveiða, sem sett voru upphaflega 1990, segi að úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögunum myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum. Af þessu leiði að veiðiheimildir samkvæmt lögunum séu ekki varðar af ákvæðum 72. gr. stjórnarskrárinnar. Útgerðarmaðurinn taldi einnig að reikniregla, sem lögfest var með lagabreytingunni árið 2004, hefði brotið gegn jafnræðisreglu stjórnarskrár. Dómurinn komst hins vegar að þeirri niðurstöðu, að lagaákvæðin væru hvorki ómálefnaleg né andstæð jafnræðisreglunni".
Þessi dómur hlýtur að vera mikið áfall fyrir þá sem trúa, trúðu, eða trúa enn á kvótabraskkerfið.
Í Fréttablaðinu 12. ágúst 2005 var frétt um sjávarútvegsmál sem bar yfirskriftina "Látið reyna á hvort byggðakvóti stenst lög".
Þar segir m.a. Magnús Kristinsson, útvegsmaður í Vestmannaeyjum: "Við getum ekki lengur sætt okkur við eignaupptöku sem sjávarútvegsráðherra stendur fyrir".
Og síðar í sama viðtali: "Það er alveg ljóst að nú látum við sverfa til stáls. Það er ekkert annað en hrein og klár eignaupptaka þegar eignir manna eru teknar og þeim deilt út til annarra".
Undir þetta tók að sjálfsögðu Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ).
Hér virðist gæta misskilnings hjá þeim félögum í LÍÚ því staðreyndin er að veiðiheimildum er úthlutað af breytilegum forsendum frá ári til árs til útgerða. Úthlutun veiðiheimilda hefur alltaf verið í höndum sjávarútvegsráðherra og hefur aldrei leikið vafi á um rétt hans og vald til þeirra aðgerða. Umræða um eignarhald er því út úr kortinu því stöðug afskipti samfélagsins af þessum verðmætum sínum eru til staðar. Því getur hefðarréttur aldrei myndast um veiðiheimildir.
Aðili sem hefur fengið úthlutað þeirri sérstöðu að afla 10 tonna fyrir samfélagið og fær úthlutað eitt árið 9 tonnum hefur ekki orðið fyrir skerðingu á verðmætum heldur tekist á við þann áhættuhluta sem alltaf hefur fylgt sjávarútvegi t.d. minnkandi fiskgengd við landið og/eða vegna sértækra byggðarsjónarmiða. Þetta er jafn innbyggt í sjávarútveginn og andrúmsloftið er umhverfi okkar því við erum veiðisamfélag.
Sá sami hefur ekki heldur hlotnast happdrættisvinningur þegar árið þar á eftir færir honum til verks að afla 11 tonna fyrir samfélagið. Tilkall til þessa viðauka er ekkert frekar hans en samfélagsins því yfirráðin yfir auðlindinni kemur frá þeim sem úthlutar í nafni þjóðarinnar og er kosinn til þess af almenningi.
Þetta á líka við um nýtingarrétt, að sá sem fær úthlutað í ár heimild til veiða getur ekki gengið að því vísu að svo verði áfram óbreytt næstu árin.
Þetta er í höndum ríkisvaldsins eins og áður segir.
Í lögum þeim frá 1990, sem dómurinn vísar í hér að ofan, segir meðal annars:
Lög nr. 38. 1990. 1. gr.: "Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum."
Nú hefur unnist hálfur sigur fyrir íslensku þjóðina og væntanlega verður það hlutverk Hæstaréttar að skera úr um hvort dómurinn haldi. Og ef svo fer að dómurinn verði staðfestur eða dómnum ekki áfrýjað, munu allar forsendur brasksins í kvótakerfinu líða undir lok. Það er vel þótt fyrr hefði verið.
Baldvin Nielsen (IP-tala skráð) 6.2.2007 kl. 22:41
Mikil umræðuherferð er nú í gangi, sem ætlað er að sýna fram á að veiðiheimildir útgerðarinnar séu betur komnar sem formleg eign hennar en ekki sameign þjóðarinnar eins og lög mæla fyrir um. Svokölluðum frjálshyggjumönnum, þ.e. andfélagslega sinnuðum mönnum, hefur löngum sviðið í augum að ríkið þjóðfélagið eigi einhver verðmæti sem samfélagið getur haft tekjur af. Þannig er með nytjastofnana á Íslandsmiðum. Þeirra skoðun er að aflaheimildir eigi að færast útgerðinni til fullrar eignar og umráða, sjálfsagt ókeypis, og allt eftirlit með stofnunum og nytjar verði í höndum eigendanna. Ekki ríkisins. Og að sjálfsögðu vilja útgerðarmenn þiggja þjóðarauðinn til fullrar eignar enda hafa samtök þeirra látið vinna lögfræðiálit um að útgerðin eigi nú þegar veiðiheimildirnar.
Nýlega var haldin ráðstefna á vegum Rannsóknarmiðstöðvar um samfélags- og efnahagsmál (RSE), sem er stofnun sem virðist vera stýrt af forstjórum stórfyrirtækja, fjármálafyrirtækja og þekktum frjálshyggjumönnum, miðað við skipan fulltrúaráðs samtakanna. Þá voru á ráðstefnunni margir útlendingar, sem ætla má að hafi annan skilning en Íslendingar á mikilvægi þjóðarauðlindanna fyrir þjóðina. Þeir hafa líklegast túlkað sjónarmið hins alþjóðlega fjármagns, enda þátttaka þeirra í ráðstefnunni sjálfsagt kostuð af fyrirtækjum sem fulltrúaráðsmennirnir í RSE koma frá.
Ekki virðast gagnstæð sjónarmið hafa komið fram á ráðstefnunni enda ólíklegt að forgöngumenn félagsskaparins hafi áhuga á þeim. Niðurstaðan er fyrirfram gefin.
Sýnilega á þessi stofnun að setja fræðilegan stimpil á sókn einkafjármagnsins í auðlindir þjóðarinnar og arðsöm fyrirtæki. Að þessu sinni fiskimiðin.
Verkefni umræddrar ráðstefnu virðist hafa verið að sýna fram á, með fræðilegri umræðu, þjóðfélagslega hagkvæmni þess að útgerðin ætti fiskimiðin eins og hverja aðra fasteign og stjórnaði sjálf allri nýtingu þeirra og eftirliti.
Eignarrétturinn er mikilvægur. Eignarrétturinn er ekki bara mikilvægur einstökum útgerðarfyrirtækjum sem eiga búnað til fiskveiða eða þeim sem nýta með einhverjum hætti náttúruauðlindir Íslands. Þannig er eignarréttur þjóðarinnar á öllum auðlindum landsins mjög mikilvægur. Sérstaklega eignarrétturinn á öllum nytjastofnum á Íslandsmiðum. Nytjastofnum sem Íslendingar börðust um aldir við útlendinga um yfirráð yfir og háðu tíu þorskastríð" til að halda lífsbjörginni í eigu landsins.
Að afsala þjóðinni eignarréttinum á fiskimiðunum til einkaaðila, þótt íslenskir væru, er í raun fjarstæða, sem varla ætti að koma til alvarlegrar umræðu. Slíkur gerningur skaðaði sjálfstæði þjóðarinnar verulega og mætti líkja við landráð.
Þjóðin þarf því að vera vel á verði gagnvart öllum hugmyndum og falsfræðum um að afsala frá henni þeim auðlindum sem eru grunnurinn undir þeim lífsgæðum sem hún býr í dag við, hvort sem þær auðlindir eru til sjós eða lands.''
Baldvin Nielsen (IP-tala skráð) 7.2.2007 kl. 00:09
Hjörtur Hjartarson: Ég skil þig að þér þyki þessi lög miður, en tilvitnun þín er orðin þreytt (hefur sést við annað tækifæri frá þér) - efast um að þú skiljir inntak hennar til hlítar - frekar en ég.
Haukur Nikulásson: varðandi þitt innlegg vil ég segja að þetta er lýðræðisleg pæling frá þér. Held samt að lausnin á þessu sé sú að flokkarnir verði að gefa upp hverjir styrkja og hvað mikið þeir leggja til í krónum. Það á ekki að setja nein mörk á upphæðir - en þeir verða að gefa upp allt upp opinberlega! það getur verið að upphæðin sé stjórnmálaleg yfirlýsing.
Baldvin Nielsen: Guð hjálpi mér ef þú hefur ekki verið lögfræðingur í fyrra lífi. Það versta er að það skilja fáir það sem þú hefur fram að færa, eflaust vel meint en þú kemur því ekki nógu skiljanlega til skila. svo væri það líka gott fyrir þig að læra að greina tilvitnanir frá þínum texta. Alls ekki illa meint, en skoðaðu þetta...
Benóný Jónsson: Það hefði verið gaman að fara í kosningabaráttu með þér Margrét - með frjálslyndum.....en gangi þér sem allra best og vonandi breiðir þú boðskapinn út -því hann er mikilvægastur.
Benóný Jónsson (IP-tala skráð) 7.2.2007 kl. 00:39
Sæll Benóný Jónsson (Held að þú sért sá sami og var kosinn í stjórn Kjördæmisfélag FF í Suðurkjördæmi þ. 21-01-07)
Ég hef meiri trú á að ég hafi verið baráttumaður í fyrra lífi því mér líkar það ágætlega en. Rétt er að ég hef oft vitnað í þessi lög og það er nauðsynlegt eins oft og þegar kvótagreifarnir koma fram og segja eins og kom fram í grein minni hér ofar með þessari tilvitnun:
Þar segir m.a. Magnús Kristinsson, útvegsmaður í Vestmannaeyjum: "Við getum ekki lengur sætt okkur við eignaupptöku sem sjávarútvegsráðherra stendur fyrir".
Svo vil ég leyfa mér en og aftur að vitna í lög nr. 38. 1990. 1. gr.: "Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum."
Baldvin nielsen (IP-tala skráð) 7.2.2007 kl. 09:59
Benóný Jónsson: Tilvitnunin í Rousseau er úr sígildu riti hans, Samfélagssáttmálanum. Það kann að vera að ég hafi notað hana áður, en hún er ekki þreytt - og sérlega viðeigandi í samhengi við eftirlaunalögin. Tilvitnunin mun lifa lengur og þreytast síðar en bæði þú og ég. Tilvitnunin er heldur ekki torskilin - ef menn nenna að brjóta hana til mergjar: Hugmynd Rousseaus var sú að framkvæmdavaldið, stjórnvaldið, starfaði í umboði löggjafans, að allar athafnir framkvæmdavaldsins væru lögum samkvæmt. Af þeirri ástæðu er spilling löggjafans alvarlegri en spilling framkvæmdavaldsins, stjórnvaldsins. Ef löggjafinn sjálfur er spilltur er fokið í flest skjól, að mati Rousseaus. Ekki gefast upp Benóný. Þú getur vel skilið þetta. Lestu t.d. Samfélagssáttmálann.
Hjörtur Hjartarson (IP-tala skráð) 7.2.2007 kl. 12:09
Tek undir flest í þessari grein þinni. Löggjafarvald og framkvæmdavald eru ekki aðskilin á Íslandi í dag. Sést best þegar ráðherrar koma fram og tilkynna eitthvað eins og það sé þegar staðreynd þó ekki hafi einu sinni farið fram umræður um málið á Alþingi.
Eins spurning: Tekurðu nafnið frá Guðjóni Arnari og félögum í Nýju afli? Ferðu fram undir nafni Frjálslyndra í vor?
Sigfús Þ. Sigmundsson, 7.2.2007 kl. 18:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.