27.1.2007 | 19:57
Framboðsræðan mín í dag
Ágætu flokkssystkin. Ég býð mig fram til embættis varaformanns Frjálslynda flokksins. Fyrst og fremst tel ég mig eiga erindi í þá forystustöðu á grundvelli áralangar reynslu minnar af stjórnmálum. Ég vil einnig nefna reynslu mína af kosningabaráttu fyrir flokkinn í mörgum kosningum, s.s. við gerð auglýsinga sem hafa verið einkennandi fyrir flokkinn og eru bæði einfaldar og ódýrar. En ég býð mig einnig fram vegna þeirra málefna, sem eru mér hugleikin. Málefna, sem allir, sem fylgst hafa með störfum mínum í þágu flokksins í tæpan áratug, vita að ég ber fyrir brjósti. Þar ber hæst mennta- og heilbrigðismál, sem og málefni þeirra sem eiga undir högg að sækja í samfélaginu, s.s. fatlaðra og aldraðra. Ég hef lengi barist gegn óréttlæti kvótakerfisins og er mótfallin átroðningi á náttúru Íslands en legg áherslu á skynsamlega nýtingu náttúruauðlinda. Hvað málefni innflytjenda varðar, þá vil ég taka fastar á þeim málum en gert hefur verið hingað til. Það þarf að bregðast skjótt við til að leita lausna á þeim vanda sem óheft flæði vinnuafls hefur þegar skapað. Við megum hins vegar aldrei falla í þá gryfju að taka á málefnum innflytjenda af óbilgirni eða fordómum gagnvart ákveðnum hópum útlendinga. Ég vil standa vörð um að flokkurinn hætti sér ekki út í slíkt fúafen. Kosningabaráttan innan flokksins undanfarna daga, vikur og mánuði hefur því miður verið hörð og oft á tíðum óvægin. Ég þarf ekkert að segja ykkur sem hér sitjið á hverju hefur gengið, en mér finnst óhjákvæmilegt að víkja að þeim deilum sem sett hafa mark sitt á umræðuna undanfarið.
Af því ég vitna til tölvuskeytis frá Jóni, þá sendi hann annað skeyti til nánustu samstarfsmanna þann 19. nóvember þar sem sagði m.a.: Ég var rekin 10 dögum síðar. Já, ég segi rekin, því ég neita að kalla það faglega ,,uppsögn" að vera sagt upp með 5 klst. fyrirvara án áminningar eftir 9 ára starf. Ég var sökuð um að hafa ráðist á forystu flokksins og ásakað hana um að fara út á ystu nöf í umræðu um málefni innflytjenda. Reyndar var það svo að ég réðst á Jón Magnússon vegna greinarinnar ,,Ísland fyrir Íslendinga?" En áður en ég gerði það hafði sumt í þeirri grein þegar farið verulega fyrir brjóstið á mörgum öðrum, orð eins og: ,, Ég vil ekki fá hingað fólk úr bræðalagi Múhameðs" og ,,Enginn má skilja orð mín svo að ég sé á móti Pólverjum eða öðru kristnu fólki úr okkar heimshluta." Ég taldi þá nauðsynlegt að árétta stefnu okkar flokks varðandi innflytjendur og gerði það. Það var ekki ,,skæruhernaður gegn þingflokknum" eins og Magnús Þór kallaði það, heldur vildi ég þvert á móti forða flokknum frá því að álpast út á þessa braut og tel að það hafi tekist hingað til, hvað sem verður.
Ég vil nota tækifærið hér og vísa á bug kenningum um að ég hafi búið til einhvern málefnaágreining til þess eins að sækjast eftir valdastöðu innan flokksins. Hvenær hófst ágreiningur innan Frjálslynda flokksins? Hann hófst sl. haust þegar þingflokkurinn hafði forgöngu um að taka upp samstarf við Nýtt afl. Ég hef aldrei farið leynt með þá skoðun mína að samstarf við forystumenn þess stjórnmálaafls væri Frjálslynda flokknum ekki til framdráttar eftir bitra reynslu af Nýju afli frá því í kosningunum 2003, þar sem þeirra kosningabarátta beindist öll gegn Frjálslynda flokknum. Þeirri atlögu Nýs afls gegn okkar flokki lýsti Sigurjón Þórðarson alþingismaður með eftirfarandi orðum í pistli á Útvarpi sögu þann 12. desember sl. og virtist afar hrifinn:
,,Ég hef fengið að kynnast á eigin skinni útsjónarsemi og dugnaði hans þegar hann veitti stjórnmálasamtökunum forstöðu sem öttu kappi við Frjálslynda flokkinn."
Það var einmitt það. Ég er ekki jafnfljót að gleyma. Eftir fyrri reynslu mína var ég, ásamt fleirum í miðstjórn, mjög mótfallin því að svo liti út sem um sameiningu væri að ræða, þó svo liðsmenn Nýs afls gætu gengið til liðs við okkar flokk sem einstaklingar svo fremi að samtök þeirra væru lögð niður. En hugmyndir forystu okkar flokks og forystu Nýs afls voru ekki á sama veg og miðstjórnar. Því hefur verið neitað af forystu flokksins að hugmyndin hafi verið að sameina Frjálslynda flokkinn og Nýtt afl. Ég hef í mínum fórum tölvupóst sem Jón Magnússon sendi á Guðjón Kristjánsson, Magnús Þór og Höskuld Höskuldsson þann 1. september 2006 sem lýsir hugmyndum Jóns um blaðamannafund þar sem samstarf flokkanna yrði kynnt. Þar segir:
,,Endilega ekki tveir kallar einir við borð. Nauðsynlegt að hafa konu með. Hafa blómvönd eða skreytingu á borðinu. Hafa salinn skipaðan fólki þannig að það séu milli 10 og 20 manns í salnum fólk sem þekkt er af báðum stöðum. Kveðja, Jón Magnússon"
"Eftir kynningu af Margréti Sverrisdóttur þá liggur fyrir að hún og sannleikurinn eiga ekki alltaf samleið og aðferðir hennar og störf eiga ekkert skylt við eðlilegt félagsstarf. Búið væri að reka hvern einasta framkvæmdastjóra stjórnmálaflokks sem hefði hagað sér eins og hún og unnið gegn hagsmunum eigin flokks."
Mér hefur oft orðið hugsað til sögu sem ég las í menntaskóla þegar ég hugsa um aðkomu forystumanna Nýs afls að Frjálslynda flokknum. Sagan hét ,,Biederman og brennuvargarnir". Í örstuttu máli var sagan á þá leið að herra Biederman vissi að brennuvargar fóru um bæinn hans og brenndu fjölmörg hús til grunna. Þegar brennuvargarnir komu til Biedermans, ákvað hann að taka nógu vel á móti þeim til að þeir fengju sig ekki til að gera neitt á hans hlut. Brennuvargarnir komu sér fyrir á háaloftinu í húsi hans, og fluttu þangað olíutunnur og alltaf var Biederman hinn ljúfasti við þá. Það endaði meira að segja með því að hann færði þeim eldspýtur í þeirri trú að þeir hlytu að hlífa honum ef hann væri nógu samvinnuþýður, Þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig fór.
Þeir sem hafa augun opin hér í dag hljóta að sjá hvað er að gerast í okkar flokki. Liðsmenn Nýs afls lögðu undir sig félagsmiðstöð flokksins í Aðalstræti fyrir þingið og hvað er að gerast hér? Formaður Nýs afls var settur varaþingforseti flestum að óvörum og fólk úr röðum þeirra býður sig fram til trúnaðarstarfa. Ég veit að margt fólk úr röðum Nýs afls er gott fólk sem vill starfa af heilindum. En framkoma forystumanna Nýs afls hefur verið með þeim hætti að ég tel útilokað að þeir bæti ímynd okkar flokks. Ég furðaði mig líka á því þegar fv. varaformaður Nýs afls kom fram í Silfri Egils sem talsmaður Frjálslynda flokksins, maður sem er alls óþekktur innan flokksins sem utan.
Eins og komið hefur fram opinberlega hefur fólk úr öðrum flokkum komið að máli við mig og lýst áhuga sínum á að ég gangi til liðs við það. Ég hef svarað öllum á sama veg: Ég er í Frjálslynda flokknum og hef hugsað mér að vera það áfram. En hvers vegna skyldi annarra flokka fólk sækja á mig um slíkt? Ekki hef ég gefið tilefni til þess. Gæti verið að framganga sumra flokksmanna gagnvart mér hafi vakið hugmyndir þeirra um að ég yrði á lausum kili? Til dæmis látlaus óhróður og rógur fulltrúa Nýs afls í Útvarpi Sögu síðustu mánuði? Aldrei hefur forysta flokksins talið ástæðu til að andmæla þeirri atlögu að mér þó svo varaformaðurinn nefndi það hér áðan að ekki ætti að ræða mál flokksins í fjölmiðlum. Þess í stað hefur forystan kosið að styrkja umrædda útvarpsstöð með lesnum auglýsingum formanns og varaformanns fyrir þetta landsþing og greitt fyrir það nú þegar um tvö hundruð þúsund kr. úr sjóðum Frjálslynda flokksins og kannski eru fleiri reikningar á leiðinni.
Ég vona að mínir fylgismenn láti aldrei draga sig niður á það plan, sem helstu málflytjendur Nýs afls hafa verið á. Og það er rétt að árétta að þeir sem enn eru skráðir félagar í þeim stjórnmálaflokki, geta aldrei verið félagar í Frjálslynda flokknum, hvað þá boðið sig fram til trúnaðarstarfa fyrir flokkinn. Samþykktir Frjálslynda flokksins banna að menn séu jafnframt félagar í öðrum stjórnmálasamtökum og því var lofað að Nýtt afl yrði lagt niður sem stjórnmálaflokkur ef af samstarfi yrði. Við höfum öll heyrt fulltrúa Nýs afls lýsa því yfir að nú séu samtök þeirra eins konar málfundafélag eða félag áhugafólks um þjóðmál. Staðreyndirnar tala hins vegar sínu máli: Nýtt afl var skráð sem stjórnmálaflokkur árið 2003 og um þrjúleytið í gær fékk ég staðfest hjá Fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra að sú skráning stendur enn. (Ég er hér með plögg því til sönnunar þar sem segja að stjórnar- og ábyrgðarmenn séu Guðmundur G. Þórarinsson, Jón Magnússon, Tryggvi Agnarsson og Valdimar Jóhannesson) . Þeir menn, sem enn titla sig formann og varaformann Nýs afls, eiga engan rétt á að vera skráðir í Frjálslynda flokkinn, né heldur aðrir liðsmenn þeirra og samkvæmt lögum flokksins er þeim alls óheimilt að bjóða sig fram til trúnaðarstarfa á þessu þingi.
Sumir hafa gagnrýnt framboð mitt á þeirri forsendu að ég telji mig eiga rétt á varaformannsembættinu af því að ég er kona. Þessu vísa ég alfarið á bug og þykir raunar með ólíkindum að ég skuli þurfa að minna fólk á það starf sem ég hef unnið fyrir flokkinn hingað til. Þeir sem starfað hafa af heilindum innan flokksins vita vel hvað eftir mig liggur: Ég hef komið að stefnumótun Frjálslynda flokksins allt frá því áður en hann var formlega stofnaður (byrjaði raunar með tóma tölvu fyrir framan mig) og hef sinnt fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn, verið talsmaður hans við ótal tækifæri og setið í fjölda nefnda og ráða fyrir hans hönd. Í ljósi þessa þarf enginn að efast um að ég er hæf til að sinna embætti varaformanns og formanns þegar þar að kemur. Ég hef alltaf haft metnað til þess að vera í forystu flokksins og verið þar. Hitt er svo annað mál og það styður vissulega framboð mitt í dag - að við verðum að auka breiddina í forystu flokksins. Kosningaþáttaka kvenna er meiri en karla, en konur kjósa flokkinn okkar síður en karlar, það er staðreynd. En eftir því sem konum hefur fjölgað í flokknum, þeim mun eftirsóknarverðari hefur hann orðið fyrir fleiri konur og ég er sannfærð um að málefni okkar eiga góðan hljómgrunn meðal þeirra.
Ágætu flokkssystkin.Stuðningsmenn mínir eru margir jafnframt stuðningsmenn formanns flokksins. Ég er orðin þreytt á endalausum tilvitnunum í sjómannamál en það er kannski best að tala á þeim nótum: Sumir vilja gjarnan hafa sama ,,skipstjóra" áfram og telja hæpið að skipt sé um ,,stýrimann" þegar flokkurinn er ,,á góðri siglingu". Vafasamt sé að ,,rugga bátnum" - en þeir gera sér ekki grein fyrir að kannski muni flokkurinn ,,steyta á skeri" verði engu breytt. Ég vil líka minna á að þingflokkurinn er ekki Frjálslyndi flokkurinn. Fólkið í flokknum er Frjálslyndi flokkurinn. Þingflokkurinn hefur tekið sér mikið vald. Ég sem ritari flokksins les í blöðum að þeir hafi fengið nýjan liðsmann (og ekki lasta ég hann), en það var heldur ekki borið undir miðstjórn. Þrír menn skipa þingflokkinn okkar og þeir hafa leyft sér að lýsa því yfir æ ofan í æ að þeir séu svo öflugir og færir ,,stýrimenn" að það megi alls ekki hætta á að ,,skipta um áhöfn"! Ég geri mér grein fyrir að mörg ykkar eru í vanda vegna þess vals sem framundan er. En þar sem við Guðjón Arnar sækjum fylgi okkar að miklu leyti til sama hóps er ég sannfærð um að við getum tekið upp að nýju það farsæla samstarf, sem við áttum árum saman. Þannig gætum við barist fyrir framgangi Frjálslynda flokksins í komandi þingkosningum. Flokkurinn verður að koma sameinaður til kosninga í vor. Almennir flokksmenn velja forystu flokksins og ég veit að það gera þeir eftir bestu sannfæringu. Þetta er flokkurinn þeirra. Forystumenn eiga ekki flokkana, þeir eru aðeins kjörnir til að framfylgja stefnumálum þeirra hundruða eða þúsunda sem fylkja sér um baráttumálin. Flokksfólk veit hvað ég stend fyrir, m.a. þau málefni sem ég gat um í upphafi máls míns. Ég vil berjast fyrir málefnum frjálslyndra af fullum krafti hér eftir sem hingað til. Ég vil efla lýðræðisleg vinnubrögð innan flokksins og bæta ímynd hans. Ég óska hér með eftir að fá til þess umboð ykkar í lýðræðislegum kosningum á eigin verðleikum. Ég vil að lokum hvetja mitt stuðningsfólk til að gefa Sólborgu Öldu atkvæði sitt, enda hefur hún sýnt afburða dugnað í starfi fyrir flokkinn undanfarin ár. Takk fyrir.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.1.2007 kl. 01:19 | Facebook
Athugasemdir
Takk sömuleiðis.
Heimir Lárusson Fjeldsted, 27.1.2007 kl. 20:24
Margrét.... Þú reyndir... mundu það!
Sveinn Hjörtur , 27.1.2007 kl. 20:47
Frjálslyndi flokkurinn hafði í dag tækifæri til þess að hafna þjóðernishyggju Nýs afls en nýtti það ekki.
Þú átt samt sem áður heiður skilinn fyrir að taka þá baráttu.
Núna áttu erfiða ákvörðun fyrir höndum. Ég tel þó að nú sé best að segja skilið við Frjálslynda flokkinn, ásamt fleiru góðu fólki úr flokknum, og að leita eftir samstarfi við Ómar Ragnarsson.
Ingólfur, 27.1.2007 kl. 20:48
Margrét, ég aðhyllist ekki Frjálslynda flokkinn en hef samt ágætis álit á þér.
Ég verð, hins vegar, að segja að ég þoli ekki að lesa textasúpu sem er kassalaga og ca. 60 cm. x 25 cm. Ég bara les ekki texta sem er settur fram á þennan hátt. Þú ættir að eyða út ræðunni þinni, eins og þú settir hana inn í fyrstu. Settu hana síðan inn aftur með greinaskilum svo að hún verði auðlæsileg.
Leitt að þú skyldir ekki ná kjöri.
Gísli (IP-tala skráð) 27.1.2007 kl. 21:01
Þetta er sú lengsta færsla sem ég hef lesið...
"Þetta með að það séu að koma mikið af útlendingum til Ísland, þarf ekki að vera neikvætt. Ég held að mikið af okkar fordómum byggi á vankunnáttu og með vankunnáttu fylgir oftast hræðsla. En það sem mér finnst leiðinlegt er það að ef einhver hefur "neikvæða" skoðun á innflytjendur, þá er sú manneskja stimpluð strax sem kynþátta hatari." (Ég mætti NIGGARA...)
Að einhverri ástæðu hélt ég að þú vildir ekki ræða um "vandamálið" með innflytjendur á Íslandi. En eftir að hafa lesið þessa færslu sé ég þig í öðru ljósi...
Gunnar Helgi Eysteinsson, 27.1.2007 kl. 21:25
Margrét þú náðir ekki kjöri í dag sem varaformaður Frjálslynda flokksins, ég vil á þeim tímamótum hvetja þig til að reyna að ná sáttum við forystu flokksins og halda áfram því starfi sem þú hefur skilað flokknum með miklum ágætum hingað til.
Þú sagðir fyrir þingið að ef þú næðir ekki kjöri litir þú svo á að flokkurinn hafi yfirgefið þig, það er ekki alskostar rétt, þú fékkst 46% atkvæða, sem er töluvert magn og sýnir að þú átt góða stuðningsmenn innan flokksins, flokksins sem er þér kær, því að yfirgefa hann á ögurstundu? Hvað sagði Jón forseti, sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér.
Það tel ég einmitt að eigi vel við nú, nái þið sáttum mun flokkurinn okkar standa sterkari en nokkru sinni fyrr, og mun gegna lykilhlutverki í næstu stjórnarmyndun.
Það er ekki alltaf besta lausnin að hlaupa í burtu þegar e-ð bjátar á, mun sterkara er að sættast og yfirbuga ágreininginn.
"Do you want to be happy, or do you want to be right?"
Það er ekkert að því að gefa örlítið eftir til gagns fyrir heildina, því þegar upp er staðið er það í alla staði betra fyrir alla ágreiningsaðila.
Og mundu að í öllum deilu málum eru 3 sannleikar.....
......það er sannleikur þeirra sem deila, og svo hið eina sanna einhversstaðar þar á milli....
Kveðja.
Einar.
Einar (IP-tala skráð) 27.1.2007 kl. 21:29
Sæl Margrét! Ég hef sjaldan séð svona mikin og karllægan yfirgang, en það sannast enn og aftur að konur hafa ekki fengið sitt pláss í pólitíkinni. Ekki gefast upp. Gefðu frekar skít í þessa karlpunga...
Gangi þér vel í áframhaldandi baráttu!
Kær kveðja Kristín Tómasdóttir
Kristín Tómasdóttir (IP-tala skráð) 27.1.2007 kl. 21:33
Vísa á bloggið mitt í dag um afstöðu mína til málsins.
Kristján Pétursson, 27.1.2007 kl. 23:09
Margrét - þið Ómar, það hljómar!!!!
Ingibjörg (IP-tala skráð) 27.1.2007 kl. 23:37
reyndir,gengur betur næst..
Ólafur fannberg, 28.1.2007 kl. 01:11
Taktu nafnið á flokknum og þitt góða stuðningsfólk og bjóddu fram til Alþingis. Er viss um að þú og þitt fólk mynduð ná töluvert meiri árangri en "gamli" þingflokkurinn og Nýtt Afl og auðvitað þyrftu þeir þá að fara í kosningarundir nýju nafni
Guðmundur H. Bragason, 28.1.2007 kl. 02:01
Ég er ekki í Frjálslynda flokknum en hef mikinn áhuga á pólitík og hef fylgst vel með þessum átökum innan Frjálslynda flokksins síðustu mánuði.
Guðjón Arnar hefur átt virðingu mína og aðdáun sem heiðursmaður og hef ég "öfundað" Frjálslynda flokkinn af kröftum hans!!! Þar til nú. Guðjón Arnar hefur gjörsamlega hrapað í áliti hjá mér. Þetta hörmungas kjaftæði um að standa með sínum stýrimanni í samhengi sem lýðræðislegar kosningar eru ...er með endæmum.
Ég vona heitt og innilega Margrét að þú bindir ekki trúss þitt við Frjálslynda meira. Með tilkomu Nýs afls er búið að eyðileggja þennan flokk. Fylgi Aldraða og Öryrkja mun smám saman spúlast af og við tekur fylgi hægri öfgamanna sem þykjast nálgast innflytjenda mál af ábyrgð en í raun og veru er eins og illgresi sem elur á fordómum og illdeilum.
Í síðustu kosningum hikaði ég í kjörklefanum....var að pæla í að setja mitt x við Frjálslynda. Og var það mikið til vegna þín Margrét og Guðjóns Arnars(það er breytt!!). Atorka þín. Rökfesta og brennandi áhugi að hafa áhrif til góðs. Það hafði áhrif á mig.
Eitt er víst. Það mun aldrei aftur hvarfla að mér að kjósa Frjálslynda flokkinn.
Vegni þér vel Margrét. Mér finnst þú eiga vel heima með jafnaðarmönnum. En það er bara mín skoðun. Ég vona innilega að rödd þín eigi ekki eftir að hljóðna eftir þessa aðför frá Nýju Afli og flokksfélögum þínum. Það væri synd. Þú átt heima í pólitík. Jarðbundið fólk með heilbrigða réttlætiskennd hvar sem í flokki statt á heima á Alþingi. Allt of mikið af hákörlum á hinu háa Alþingi!!!
Jón H. Sig. (IP-tala skráð) 28.1.2007 kl. 10:22
Þetta eru nú meiri andskotan vælið i þér Margrét.
þú sjálf keyptir atkvæði og sverrir líka
ég meira segja tók eftir því og heyrði ykkur ræða það að borga fyrir fleiri.
ættir að taka þessi orð og troða því upp í rassgatið á þér
þú ert bara rugluð.
Svik og prettir ehf (IP-tala skráð) 28.1.2007 kl. 15:15
Sæl Margrét, ég þekki þig ekki og er ekki stuðningsmaður Frjálslyndaflokksins. Mér hins vegar blöskrar hvernig komið hefur verið fram við þig á undanförnum dögum en held samt að það séu meðmæli með hverri manneskju að tapa kosningu innan Frjálslyndaflokksins. Gangi þér vel í framhaldinu.
Björg K. Sigurðardóttir, 28.1.2007 kl. 18:12
Svik og prettir ehf.
Ef þú þarft að níða einhvern opinberlega, þá geturðu í það minnsta gert það undir nafni, þú þorir því sennilega ekki!
kv.
Einar Ben, 28.1.2007 kl. 18:13
ég verð nú eiginlega að vera sammála Einar ben um að þú ættir að nefna þig á nafn Svik og prettir ehf.
held að margrét ætti bara eyða þessu commenti út. leiðinlegt svona skítkast.
en allavega Margrét þá fór þetta svona, sjálfur var ég á staðnum og þetta var eins og í fjölleikasirkus, en það verður að breyta þessum reglum varðandi innskráningu eða koma betra skipulagi á þetta, ekki bjóst ég sjálfur við að sjá svona rosalegan fjölda, en mér í raun brá að sjá um 50 manns frá heimdalli, spyr mig hvað í óskupunum hafa þeir verið að gera þarna.
ég tel margrét að þú ættir að ræða núna við Guðjón formann og spurja hann hreint út hvaða leið er til sátt (ef það er einhver leið til sátta) þið 2 ættuð bara að ræða saman. ekki hafa neinn annan með ykkur, þið getið leyst þennan ágreining. bara ef þið hafið viljan til þess.
Einhvern veginn efast ég um að það sé betra fyrir þig að fara í einhvern annan flokk eða stofna til annars framboðs,
þið verðið bara að ræða málin saman og þið getið það alveg ef þið hafið einhvern þroska til þess.
Hefur Jón Magg ekki sagt að hann geti ekki unnið með þér? kannski hann hverfi af vettfangi ef allir sættast :)
með kærri kveðju
Benidikt
Benidikt (IP-tala skráð) 28.1.2007 kl. 22:59
Jæja Margrét.
Sorgleg misbeiting lýðræðisins staðreynd. Verð að viðurkenna að mér finnst allur þessi landsfundur með ólíkindum og ljóst að ég mun ekki kjósa Frjálslynda flokkinn aftur. Vona að ég eigi þess kost að kjósa þig á öðrum stað. Þín rödd er jákvæð og skelegg, en innan um þá menn sem eru þarna að raðast í forystu er fullkomlega ljóst að ekkert fæst út úr því nema helbert, allsherjar rugl.
Magnús (IP-tala skráð) 28.1.2007 kl. 23:57
Ég er nú ekki stuðningsmaður FF en takk fyrir að opinbera ræðuna hér. Kannski er það mér að kenna en ég hef ekki heyrt þig tala um innflytjendamálin áður en ræðan í heild raskar ekki ójafnvæginu á mínum vogarskálum. Það hallar eftir sem áður á málflutning formannsins og ég vona að þú og stuðningsmenn þínir komist að þeirri niðurstöðu að yfirgefa flokkinn eftir þessa ósanngjörnu árásahrinu gegn þér.
abelinn, 29.1.2007 kl. 03:27
Sæl Margrét. Til hamingju með ákvörðunina sem er stór og án efa erfið. Um leið ertu á tímamótum sem bjóða upp á ýmis tækifæri sem ég vona að þú nýtir þér vel því áhrif þín á samfélagsumræðuna er mjög mikilvæg. Mér hugnast verulega illa sá hópur Frjálslyndra sem nú situr þar að völdum og er hrædd við þau áhrif sem þeir kunna að hafa, einkum á umræðuna um málefni innflytjenda. Í þeirri umræðu varst þú alla tíð skynsemi flokksins. Vona innilega að þið Ómar og Jón Baldvín íhugið alvarlega samstarf. Trúi að margir geti fylkt sig á bak við ykkur enda sýn ykkar þriggja á landið og samfélagið sú heildarsýn sem ég sakna verulega í einum og sama flokknum. Spennandi tímar framundan - Gangi þér virkilega vel!!!
ingibjörg (IP-tala skráð) 29.1.2007 kl. 22:03
Það, var illt, að svona fór Margret. En þú átt ekki heima í þessum flokki lengur. Hreinsaðu þig og þitt fólk af öllum samskiptum við þetta lákúrlega lið , sem hefur svo sannarlega leikið þig grátt..
Talaðu við ómar, þið eruð svo skemmtilega lík. Hafið háleitar hugsjónir, eruð skelegg og skemmtileg. Framtíðarlandið er flokkurinn´
Farðu vel með þig Margrért, og gleymdu ekki að borða.
Kveðja frá Akureyri
Að norðan (IP-tala skráð) 30.1.2007 kl. 00:56
Langur texti Margrét. Af 2018 orðum hefur þú sagt 62 skipti ÉG. Það er sko meira en 4% af öllu her fyrr ofan. Flokk og það orð í öðrum samhengingum er skrífuð 74 sinum. Ekki er það mikið miðað við orð ég. :)
Það er alt annað hér http://margretsverris.blog.is/blog/margretsverris/entry/111502/ þar sem þú hefur sagt það sama orð, sem sagt ÉG, í 8% af öllum orðum í textanum og orð flokk, flokkur ofl ekki nema 5 %.
Fyrgefðu ég er frekkar mikið í sálfræðinu, bæði í samskipti við fólk alment, o já lika á netinu þar sem orð segir margt um viðkomandi. Hér til dæmis um þíg. Eða nuna um mig. :)
Hins vegar eigu allir pólitikusar sameiginlegt há egó, en það er sérstaklega áberandi hjá þér.
Andrés --utlendigurinn :)
Andrés.si, 1.2.2007 kl. 03:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.