18.6.2007 | 13:43
Engar myndir af prúðbúnum gestum?
Á 17. júní er venja að bjóða erlendum sendiherrum og fleiri sendifulltrúum annarra landa til athafnarinnar á Austurvelli fyrir hádegið, þar sem forsætisráðherra ávarpar samkunduna. Ég hef sjálf verið viðstödd og það er ákaflega skemmtilegt að sjá að margir hinna erlendu gesta eru uppáklæddir í þjóðbúninga sinna landa. Mér finnst sérstaklega gaman að sjá konur frá Afríkuríkjum sem klæðast litfögrum búningum sínum. Ég hef líka furðað mig á því að engir fjölmiðlar gefa þessu gaum. Hvergi birtast myndir af þessum skrautbúnu hátíðargestum sem sýna okkur mikla virðingu með því að skrýðast sínum þjóðbúningum á hátíðisdegi okkar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 19.6.2007 kl. 21:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.6.2007 | 13:33
Nýtt miðborgarfélag – án aðkomu íbúa?
Reykjavíkurborg hefur samþykkt að stofna nýtt miðborgarfélag og gert er ráð fyrir því að hverfisráð miðborgarinnar verði lagt niður samhliða stofnun hins nýja félags.Ég hefði talið einna mikilvægast að tryggja aðkomu íbúa miðborgarinnar að nýju miðborgarfélagi, en það gera framlagðar samþykktir hins nýja miðborgarfélags ekki. Væri ekki einfalt mál að breyta því? Hvaða meginreglur vill borgarstjórn hafa varðandi aðkomu íbúa og íbúalýðræði yfirleitt? Hvaða sýn hefur borgarstjórn Reykjavíkur á íbúalýðræði?
Íbúalýðræði
Íbúalýðræði á ekki að vera sýndarmennska heldur á þátttaka íbúa í stjórnun borgarinnar að vera raunverulegt samráð. Þess vegna eiga íbúar að koma að ákvarðanatöku á fyrstu stigum svo að þekking þeirra nýtist og fleiri valkostir komi fram strax í upphafi, en ekki þegar ákvörðun liggur fyrir. Þannig er tryggt að rödd íbúanna heyrist og að á hana sé hlustað.Skoðun íbúa skiptir máli og hana ber að virða. |
Virkt íbúalýðræði byggir á aðgengi að upplýsingum, gagnrýninni umræðu og forgangsröðun verkefna í samstarfi við íbúa. Aðkoma íbúa verður að vera tryggð frá upphafi og þeir þurfa að vera virkir þátttakendur við markmiðasetningu, stefnumótun, leiðaval og framkvæmdir. Virkt íbúalýðræði er forsenda þess að vel takist til með þéttingu byggðar og breytingar á skipulagi og þjónustu. Stjórnmálamenn eiga að vinna með fólki og fyrir fólk og þess vegna skiptir skoðun íbúanna svo miklu máli.
Sterk íbúasamtök eru nauðsynlegSterk íbúasamtök eru forsenda þess að hægt sé að hafa virkt íbúalýðræði. Það er æskilegt að færa aukið vald til íbúa í málefnum nærumhverfis, þ.e. innan hverfa. Íbúar eru bæði eigendur og viðskiptavinir sveitarfélagsins, allar framkvæmdir og þjónusta eiga að taka mið af lífsgæðum þeirra og eru því samstarfsverkefni. Og þekking íbúa er hvergi meiri en á sínu nærumhverfi, þar eru þeir sérfræðingar. Þess vegna eiga íbúar að vera með alla leið frá frumhugmynd í gegnum stefnumótunarferlið að ákvörðun. Til þess þarf að skapa vettvang þar sem íbúar og stjórnmálamenn starfa saman á jafnræðisgrundvelli. Sú leið er ekki farin með því félagsformi sem liggur fyrir um miðborgarfélagið. Framsækin sveitarfélög eru samfélög með sameiginleg gildi og markmið sem hvetja til heilbrigðis og hollra lifnaðarhátta og stuðla þannig að auknum lífsgæðum. Þau leitast við að efla félagsauð og liðsheild því góður árangur byggir á framlagi allra. Þess vegna kanna þau ánægju íbúa með þjónustu og gera sér grein fyrir því að með þátttöku sem flestra íbúa fást betri ákvarðanir. Í fyrirtækjum er þessi aðferð kölluð gæða- og þekkingarstjórnun og skilar góðum árangri.
Áhrif verða tengd veltuÞað er raunverulegt áhyggjuefni að áhrif frjálsra félagasamtaka innan hins nýja miðborgarfélags skuli verða tengd veltu þeirra (þ.e. veltu félagasamtakanna sjálfra). Þá má nefna sem dæmi að Torfusamtökin koma varla til með að hafa nokkur áhrif, enda líklega ekki með háa veltu, en þó geta flestir fallist á að afar mikilvægt er að þau fái að koma sjónarmiðum sínum að. Öll miðborgin er í mótun. Svæðið kringum Tónlistar- og ráðstefnuhúsið, nýtt Lækjartorg og endurbygging húsanna sem brunnu á horni Lækjargötu og Bankastrætis, svo það helsta sé nefnt. Eiga hagsmunaaðilar í atvinnurekstri að ráða meiru um þróun miðborgarinnar í krafti fjármagns heldur en íbúarnir sjálfir? Er ekki mikilvægara að hagsmunir borgarinnar sjálfar og borgarbúa séu í fyrirrúmi? Ég vara við þessari þróun, því það getur farið svo að borgin ráði minnstu um framþróun í skipulagsmálum, heldur elti bara duttlunga fjármagnsins hverju sinni. Samráð íbúa og stjórnvalda verður að byggja á gagnkvæmu trausti og vera trúverðugt. Virkjum mannauð borgarbúa - skoðun þeirra skiptir máli. |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.6.2007 | 23:42
Á Sjómannadegi
Árangursleysi kvótakerfisins varðandi verndun fiskistofna eykst ár frá ári. Alltaf er því lofað að árangurinn skili sér á næstu árum, en hann lætur svo sannarlega á sér standa. Nýjasta rágjöf Hafró kemur ekki einu sinni á óvart, hún er bara enn einn kaflinn í vonlausri framhaldssögu þeirra um vaxandi þorskstofn sem ekkert vex, skyldi nokkuð þurfa að endurskoða reikniformúluna á þeim bæ?
Fiskveiðióstjórnin sem við búum við hefur vegið harkalega að landsbyggðinni með því að höggva á lífæðar bæja og þorpa, sem fyrir daga kvótakerfisins lágu allar út í sjó. Aðgangur að atvinnugreininni er ekki lengur fyrir hendi. Þess vegna er brýnt að veiðar á smæstu bátum verði gefnar frjálsar til að opna fyrir möguleikann á nýliðun.
Fólk á landsbyggðinni er óöruggt um lífsafkomu sína vegna þess að þeir sem eiga kvótann geta farið burt með hann í skyndi, ef þeir eru þá ekki þegar farnir, eins og nýjasta dæmið á Flateyri sannar. Og sjá menn hvert stefnir í Vestmannaeyjum?
Stefna stjórnvalda hefur verið sú að frekar megi þorskurinn drepast í sjónum, engum til gagns, en að auka veiðina og sjá hvort þróunin verður önnur.
Og nú er svo komið, að útgerðirnar neita að styrkja hátíðardag sjómanna, svo hann leggst líklega af. Undanfarin ár létu þeir sér nægja að hafa neitunarvald á það hverjir fengju að halda hátíðarræðurnar. Nei, þetta er ekkert grín.
Ég sendi sjómönnum og fjölskyldum þeirra bestu kveðjur á þessum hátíðisdegi.
31.5.2007 | 23:20
Framtíðarskipulag í Örfirisey
Í morgun var ég á fundi borgarráðs en eftir hádegið sat ég ráðstefnuna ,,Ný Örfirisey" á Hótel Sögu um framtíðarnotkun og skipulag byggðar í Örfirisey. Frábært framtak hjá Faxaflóahöfnum að bjóða upp á vandaða ráðstefnu sem var öllum borgarbúum opin - ókeypis. Reyndar hefðu framsögur mátt vera færri, en að öllum ólöstuðum var Sjoerd Soeters, arkitekt frá Amsterdam með áhugaverðasta erindið að mínu mati. Björn Ingi Hrafnsson átti reyndar mjög sterkan byrjunarleik við upphaf ráðstefnunnar, þegar hann sýndi myndband Faxaflóahafna um framtíðarsýn þessa svæðis.
Skemmtileg ráðstefna sem fyllir mann bjartsýni á að maður eigi eftir að upplifa það að sjá hafnsækna starfsemi og íbúabyggð saman á hafnarsvæðinu, helst með mörgum síkjum milli fagurra bygginga af fjölbreyttu tagi.
29.5.2007 | 16:30
Hallarekstur borgarinnar
Viðvarandi rekstrarhalli
Rekstrarhalli samkv. samanteknum A- og B-hluta borgarsjóðs nam 4,3 milljörðum, en í áætlun var gert ráð fyrir tæplega 1,8 milljörðum króna í afgang! Og það sem verra er: Hallinn væri ekki einungis 4,3 milljarðar eins og ætla mætti af tölunum og flestum þykir meira en nóg, heldur væri hallinn heilir 17 milljarðar ef ekki hefði komið til breytinga á lögum um skattskyldu orkufyrirtækja. Það er því óhætt að segja að það sé himinn og haf á milli þess sem menn gerðu ráð fyrir að fá í afgang og raunverulegrar útkomu.
Lakara en önnur stærri sveitarfélög Að mínum dómi er það líka verulegur álitshnekkir fyrir Reykjavíkurborg að rekstrarárangur borgarinnar skuli vera langt undir því sem almennt gerist hjá öðrum stærri sveitarfélögum í landinu.Heildarskuldir borgarinnar, þ.e. samstæðunnar svokölluðu, borgarsjóðs og fyrirtækjanna, hafa hækkað ár frá ári; voru 71 milljarður 2004, og eru tæplega 86 milljarður skv. ársreikningi fyrir 2006. Það er því veruleg þörf á meiri festu í fjármálastjórn borgarinnar.
Slæm lóðastefna
Stefna í skipulags- og lóðamálum hefur m.a. leitt til þess að fjölgun íbúa í borginni hefur verið mjög lítil. Sú lóðastefna sem rekin hefur verið í borginni um árabil hefur þannig haft verulega neikvæð áhrif á skatttekjur borgarinnar. Sum nágrannasveitarfélög hafa haft góðar tekjur af lóðasölu, en það á ekki við um Reykjavíkurborg.Ég hef aðhyllst þá stefnu að öllum þeim sem vilja byggja og búa í Reykjavík, verði gert það kleift. Stóraukið framboð lóða, ekki síst sérbýlislóða og eðlileg lóðagjöld geta tryggt þá þróun. Ég hef líka lagt áherslu á að lóðaverði sé haldið í lágmarki.Markmiðið með því á að vera að laða fólk að vegna þess að íbúar einbýlishúsa eru venjulega traustur og góður skattstofn og því er það fjárfesting sem borgar sig til framtíðar að fá fólk til að byggja í borginni en ekki hrekja fólk til annarra sveitarfélaga. Því er eðlilegt að reyna að hafa verðið í borginni lægra en það er hjá nágrannasveitarfélögum. Ég hef líka haldið því fram að lóðir á nýjum svæðum eigi að lúta öðrum lögmálum en lóðir þar sem verið er að þétta byggð. Þegar verið er að bæta við nýju byggingarlandi í úthverfum Reykjavíkur eiga allir að gera sótt um þær og þær eiga að vera á hóflegu verði þannig að sem flestir geti byggt hafi þeir hug á því.Vonandi horfa þau mál nú til betri vegar, en það er ljóst að enn er nokkur langt í að breytingar á lóðastefnu skili sér í formi hærri skatttekna það getur tekið nokkur ár.
Borgarstjórn bregst við
Borgarstjórn hefur þegar brugðist við þeim hrikalega hallarekstri sem hér um ræðir með markmiðssetningu um að rekstrartekjur dugi fyrir rekstrargjöldum. Það er auðvitað aðalatriðið: að rekstartekjur dugi fyrir rekstrargjöldum. Einnig er fyrirhugað er að bæta innra eftirlitskerfi auk fjölda annarra aðhaldsaðgerða sem vonandi skila bættum árangri í rekstri borgarstjóðs. Það verður spennandi að sjá hvort unnt verður að færa fjárhagsstöðu borgarinnar til betri vegar því ég ítreka þau meginskilaboð sem felast í ársreikningi borgarinnar, en þau eru að það gengur ekki að reka borgina með halla um árabil. Það verður að leita svara við því hvers vegna staðan er jafn slæm og raun ber vitni og ákveða strax hvernig bregðast skal við. Þar hvílir ábyrgð kjörinna fulltrúa, að ráðstafa sameiginlegum sjóðum af skynsemi og festu.Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.5.2007 | 19:28
Sterk ríkisstjórn - veik borgarstjórn
Allt stefnir í að Sjálfstæðisflokkur og Samfylking nái saman um stjórn landsins. Margt hefur komið á óvart síðustu dagana þegar forystumenn þeirra flokka, sem ekki er verið að tala við hafa í örvæntingu reynt að ná eyrum Sjálfstæðismanna.
Sárustu vonbrigðin voru að heyra Steingrím Joð lýsa því yfir að hann væri tilbúinn til að gefa eftir í stóriðjumálum - bara ef hann kæmist í stjórn.
Fréttin var svohljóðandi: Vinstri grænir hafa komið skilaboðum til sjálfstæðismanna um að þeir séu til í viðræður og Steingrímur J. Sigfússon, formaður þeirra, segir að ekki verði farið með neina úrslitakosti í stóriðjumálum." Ég sem hélt því fram alla kosningabaráttuna að VG væru fullkomlega samkvæmir sjálfum sér í stóriðjumálum. En það var ekki. Við í Íslandshreyfingunni lofuðum okkar kjósendum því að við myndum ekki hvika frá skilyrði um stóriðjuhlé á næsta kjörtímabili, það yrði okkar skilyrði ef við kæmumst til að semja um ríkisstjórn.
Svo eru Framsóknarmenn voða sárir yfir því að Geir hafi verið farinn að tala við Ingibjörgu á meðan hann var enn í viðræðum við þá. Ég leyfi mér að minna á að Vilhjálmur borgarstjóri gerði nákvæmlega það sama í viðræðum um stjórn borgarinnar. Þá þóttist hann eiga í viðræðum við F-lista sem fékk 10% atkvæða, en var búinn að semja við Framsókn, sem fór verst út úr borgarstjórnarkosningunum og fékk bara 6% atkvæða. Þrátt fyrir það fékk Framsókn helmingsvöld í borginni. Hvernig verður staðan nú í borginni þegar xD hafa samið við Samfylkingu? Við skulum sjá til...
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
15.5.2007 | 09:43
Eftirá að hyggja
Þá er búið að kjósa. Íslandshreyfingin fékk því miður ekki þingmenn kjörna, en hefði fengið tvo menn kjörna ef mörkin hefðu ekki verið færð jafn hátt og raun ber vitni. Áður náðu flokkar tveimur mönnum á þing með 3% fylgi. Þessu hefur verið breytt með lögum þannig að nú þarf að ná 5% á landsvísu til að ná inn manni. Þetta er óeðlilega hár þröskuldur sem flokkarnir sem fyrir eru hafa reist til að verja sitt vígi, ef svo má að orði komast. Svona há mörk þekkjast ekki á hinum Norðurlöndunum. Sem dæmi má nefna að mörkin eru 2% í Danmörku. Annar þröskuldur er sá, að það er afar erfitt fyrir hugsjónafólk sem þarf að greiða kosningabaráttuna úr eigin vasa, að keppa á auglýsingamarkaði við flokka sem hafa skammtað sér hundruðir milljóna úr ríkissjóði til kosningabaráttunnar. Það er sannarlega ójafn leikur.
Gaf Íslandshreyfingin ríkisstjórninni líf?
Það er fráleitt, sem sumir hafa viljað halda fram, að Íslandshreyfingin hafi gefið ríkisstjórninni líf með framboði sínu. Ætla má, miðað við stöðu Íslandshreyfingar hægra megin á miðju stjórnmálanna, að framboð hennar hafi frekar komið í veg fyrir að þeir 6000 kjósendur sem kusu Íslandshreyfinguna, kysu stjórnarflokkana. Reyndar höfðu örfáir þeirra kosið Vinstri græna áður, en það var eingöngu vegna þess að ekki bauðst flokkur hægra megin við miðju sem lét sig umhverfismálin miklu varða.
Það er verulegt áhyggjuefni hversu miklu skoðanakannanir ráða um framvindu stjórnmálanna hér á landi. Ef flokkar mælast ekki vel í skoðanakönnunum fælir það fylgi frá. Þá er hamrað á því að fólk eigi ekki að kasta atkvæðum sínum á glæ. Í öðrum löndum tíðkast að banna skoðanakannanir í viku til tíu daga fyrir kosningar vegna þess að þær eru skoðanamyndandi. Það hlýtur að verða skýlaus krafa að framkvæmd lýðræðis sé ekki með þeim hætti að það viðgangist að birta skoðanakannanir fram á kjördag.
Framsókn hrifsar völdin þrátt fyrir afhroð
Nú er beðið í ofvæni eftir því hvernig stjórnarmyndun verður. Alltaf skal Framsókn enda í lykilstöðu. Þrátt fyrir að Framsóknarflokkurinn hafi beðið afhroð og formaðurinn ekki náð kjöri á þing, heldur ríkisstjórnin. Allir helstu forkólfar Framsóknar voru búnir að lýsa því yfir dagana fyrir kosningar að þeir færu ekki í stjórn ef úrslitin yrðu í samræmi við skoðanakannanir sem sýndu að stórtap var í uppsiglingu. En þegar á hólminn er komið snúa þau öll við blaðinu og eru alveg til í að hanga á völdunum eins og hundur á roði með eins manns mun.Þetta er erfið staða fyrir Geir Haarde, því ef hann afþakkar samstarfið við Framsókn, þá getur Framsókn farið í samstarf með R-lista flokkunum og skilið Sjálfstæðisflokk eftir úti í kuldanum. Framsókn er alltaf opin í báða enda. En Framsóknarflokkurinn má sannarlega vara sig, því íslenskir kjósendur eru löngu búnir að fá nóg af því að hafna flokknum í kosningum en sjá hann hrifsa öll völd þrátt fyrir það. Í borginni gerðist þetta síðast, þar sem Framsókn fékk minnstan stuðning kjósenda, aðeins 6% atkvæða og einn mann kjörinn, en hefur helmingsvöld í borginni þrátt fyrir það!
Horft til framtíðar
Íslandshreyfingin er fullmótaður stjórnmálaflokkur sem mun láta sig þjóðfélagsmál varða héðan í frá sem hingað til. Ég vil að lokum færa þeim kjósendum sem studdu Íslandshreyfinguna bestu þakkir og einnig því frábæra fólki sem ég hef kynnst í starfi Íslandshreyfingarinnar fyrir ótrúlega óeigingjarnt starf og vænti góðs samstarfs áfram. Íslandshreyfingin á mikið hlutverk fyrir höndum við að standa vörð um náttúru Íslands og öflugt atvinnu- og efnahagslíf í landinu, bæði á sveitarstjórnarvettvangi sem og á landsvísu.
Margrét Sverrisdóttir varaformaður Íslandshreyfingarinnar
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
13.5.2007 | 11:49
Þakkir
Ég vil þakka þeim rétt tæplega 6000 kjósendum sem greiddu Íslandshreyfingunni atkvæði sitt í gær. Atkvæði falla ekki dauð, þau eru alltaf yfirlýsing um vilja kjósenda.
Hins vegar er "þröskuldurinn", fimm prósent-múrinn, of hár til að geta talist lýðræðislegur. Það er meira að segja hár þröskuldur fyrir flokka sem eru á þingi og hafa skammtað sér hundruðir milljóna til kosningabaráttunnar, hvað þá nýja flokka sem byggja nær eingöngu á framlögum flokksfélaga.
Enn og aftur: Hjartans þakkir! Stuðningur við Íslandshreyfinguna ýtti við öllum flokkum að skerpa á grænum áherslum og það var mikill árangur. Íslandshreyfingin mun áfram veita flokkunum aðhald.
12.5.2007 | 00:12
Bjartur dagur
Gærdagurinn var langur en bjartur og fagur. Hitti "Risessuna" -frönsku leikbrúðuna, á förnum vegi, hún var yndislega falleg. Mér fannst ég vera stödd í sögunni um Gúllíver í Putalandi.
Ég var í miðbænum og Kringlunni, hefði viljað fara oftar í Grafarvog í kosningabaráttunni, en það er erfitt að komast yfir allt sem gera þarf. Mér finnst vera mjög jákvæð bylgja í garð Íslandshreyfingarinnar - vona að það reynist rétt
Munið að Íslandshreyfingin þarf bara 5% til að ná 3 þingmönnum! Er ekki betra að fá fólk sem er í efstu sætum hjá okkur inn á þing en að fá fólk sem er miklu neðar á lista í öðrum flokkum?
Framboð mitt er af hugsjón en með raunsæja stefnu þar sem Íslandshreyfingin endurspeglar mína sýn á það þjóðfélag sem ég vil búa í og búa börnum okkar. Umhverfismálin eru brýnasta efnahagsmálið á Íslandi í dag!
Skoðið heimasíðuna til að sannfærast um hvað þið getið kosið: www.islandshreyfingin.is
Og umfram allt: Gleðilegan kjördag !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
9.5.2007 | 21:54
Harkan sex
Ég er mjög ósátt við þá dóma sem felldir voru yfir formanni Framsóknar við lok yfirheyrslunnar í sjónvarpinu áðan. Mér hugnast engan veginn svona harður dómur yfir einum formanni frammi fyrir alþjóð. Til hvers er þetta? Af hverju eru álitsgjafar látnir fella dóm? Má almenningur ekki dæma á eigin forsendum og fólk skiptast á skoðunum um það hver stóð sig best? Eigum við kannski að hafa bara ,,Gettu-betur hraðaspurningakeppni" til að skera úr um hverjir eigi að stjórna landinu?
Þessi þáttur var að öðru leyti óvenju skemmtilega uppbyggður, enda fékk hver og einn formaður að njóta sín í einka yfirheyrslu án sífelldra frammígripa annarra. Í svona þáttum er venjulega slegist um að koma orði að en með nútímatækni mætti alveg hugsa sér að slökkva bara á hljóðnema hvers frambjóðanda eftir t.d. 1-2 mínútur til að tryggja jafnræði... En ég spyr aftur: Eru svona kappræðuþættir besta leiðin til að velja besta fólkið?
Að gefnu tilefni vil ég taka það fram að ég var ákaflega stolt af frammistöðu míns formanns, Ómars Ragnarssonar, í þessum þætti.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 10.5.2007 kl. 11:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)