Við börðumst ein gegn sölu Heilsuverndarstöðvarinnar í borgarstjórn

"Stærstu mistökin í heilbrigðiskerfinu" segir Reynir Tómas Geirsson, sviðsstjóri kvennasviðs LSH í Morgunblaðinu í dag um söluna á Heilsuverndarstöð Reykjavíkur.  Ég er sammála Reyni, ég gat aldrei skilið hvernig mönnum datt í hug að selja Heilsuverndarstöðina til einkaaðila.  Það voru a.m.k. ein stærstu mistökin í pólitíkinni, því þetta var sannarlega pólitísk ákvörðun.  Ríki og borg áttu húsið saman og auðvitað átti ríkið að kaupa hlut borgarinnar á sanngjörnu verði.  Sala Heilsuverndarstöðvarinnar kom mjög á óvart, jafnvel starfsfólk Heilsuverndarstöðvarinnar hafði ekki verið látið vita af þeim áformum.

Í öðru orðinu er talað um að heilbrigðisstarfsemi eigi að vera á svæðinu kringum LSH, en svo má allt í einu tvístra starfseminni um alla borg.  Það má ekki gleymast að þetta er menningarsögulegt hús, því Heilsuverndarstöðin er sérhönnuð fyrir þá þjónustu sem lengi hefur verið hýst þar, s.s. á sviði forvarna og heilsugæslu, auk ungbarna- og mæðraverndar.  Stofnunin hefur verið afar mikilvæg miðstöð heilsugæslu í borginni um langt árabil.

Á sama tíma og starfsemi Heilsuverndarstöðvarinnar er tvístrað út um alla borg, er LSH að taka á leigu húsnæði við Snorrabraut undir Blóðbankann, til þess að hann verði áfram í grennd við spítalann.

F-listinn barðist einn borgarstjórnarflokka gegn sölu Heilsuverndarstöðvarinnar og krefst þess ennþá að það heilsugæslustarf sem hún var reist til að hýsa, fái að vera þar áfram.

 

 

 


Bragðdauf kryddsíld í boði ALCAN

Ég fylgdist með stjórnmálaumræðum í Kryddsíldinni áðan.  Mér fannst hún fremur bragðdauf þessi kryddsíld, þó svo margt bæri á góma.  Fyrirferðarmest voru efnahagsmál og umræða um þenslustefnu núverandi ríkisstjórnar, fráleit vaxtakjör hér á landi og um krónu og evru.  Rætt var um málefni innflytjenda og frumkvæði Frjálslynda flokksins varðandi þau, utanríkismál ofl.  Ég saknaði þess að sjávarútvegsmál skyldi ekki bera á góma, en þáttastjórnendur hafa reyndar aldrei viljað ræða um vanda á þeim vettvangi.  Þátturinn minnti á framboðsfund í beinni rétt fyrir kosningar, engin átök og varla slegið á létta strengi.

Einnig var rætt um stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar og fulltrúar hennar sóru hana af sér eina ferðina enn.  Að öllum öðrum ólöstuðum fannst mér Steingrímur J. Sigfússon flytja mál sitt myndarlegast en ég velti því fyrir mér hvort hann vissi að hann sæti þarna í boði ALCAN á Íslandi eins og innskotsauglýsingar í dagskránni minntu stöðugt á..

Ég sendi öllum mínar bestu óskir um gleðilegt ár og þakka liðið.


"Viltu vinna milljarð" - frábær bók

Ég fékk bókina ,,Viltu vinna milljarð´" í jólagjöf og það er ekkert skemmtilegra en að sökkva sér í bók á borð við þessa.  Þetta er fyrsta skáldsaga indverska höfundarins Vikas Swarup, og óhætt að vænta mikils af höfundi ef hann heldur áfram á þessari braut.

Sagan segir frá indverska munaðarleysingjanum Ram Mohammed Thomas sem vinnur heilan milljarð í spurningaþætti, en í stað þess að fá verðlaunin, er hann handtekinn fyrir svindl. Hann rekur sögu sína fyrir lögfræðingi sínum og lýsir því hvernig atburðir í lífi hans urðu til þess að hann hafði rétt svör á reiðum höndum í keppninni.  Í frásögn hans er dregin upp átakanleg mynd af eymd og fátækt í Indlandi en þrátt fyrir það glittir í fegurð mannlífsins, m.a. gegnum væntumþykju og vináttu aðalpersónunnar í garð náunga sinna.  Það er líka mikill húmor í sögunni.

Sagan vekur upp margar siðferðilegar spurningar eins og þá hvort maður eigi að láta sig náungann einhverju varða eða ekki og hún sýnir ótrúlega stéttaskiptingu Indlands. Þetta er bók sem opnar sýn inn í nýjan menningarheim og það er ekki hægt að leggja hana frá sér.  Ég mæli eindregið með þessari bók.


Á Landspítalinn að vera tryggingafélag ótryggðra útlendinga?



Það eiga víst allir að vera tryggðir sem eru á íslenskum vinnumarkaði. Það á að vera forsenda fyrir útgáfu atvinnuleyfa að fólk hafi sjúkratryggingu.
Það er hlutverk vinnuveitenda að sjá til þess að tryggingar erlendra starfsmanna þeirra séu í lagi. En hvað ef vinnuveitendur gera það ekki – bregðast þessari skyldu sinni einhverra hluta vegna? Hver á að sjá til þess að vinnuveitendur athugi hvort erlendir launamenn séu með sjúkratryggingar? Það virðist afar óljóst og nýverið hafa komið upp mörg dæmi um að allur kostnaður vegna ótryggðra sjúklinga hafi lent á Landspítalanum.

Kostnaður lendir á spítalanum
Landspítalanum ber skylda til að veita sjúklingum neyðarþjónustu, burtséð frá því hvort þeir eru tryggðir. Þetta er vaxandi vandi, eins og komið hefur fram í fréttum nýverið.

Í nýjustu aðildarríkjum ESB, löndum Austur-Evrópu, er tryggingakerfið mjög vanþróað og algengt að fólk frá þeim löndum sé ekki tryggt. Það hefur reynst erfitt að fá kostnað þeirra vegna greiddan í sumum tilfellum og þá lendir kostnaðurinn á Landspítalanum, sem hefur þurft að sýna verulega hagræðingu í rekstri undanfarin ár og kostnaður sem lendir á spítalanum hlýtur að lokum að greiðast af íslenskum skattgreiðendum.

Það hefur skort skilning hjá ráðuneytum á þessari byrði. Í reynd er spítalinn orðinn að eins konar tryggingafélagi fyrir ótryggða útlendinga.

188 milljónir króna árið 2005
Nefna má dæmi þar sem sjúklingur var sendur til Póllands í fylgd hjúkrunarfólks af því tryggingafélagið í heimalandi hans neitaði að greiða fyrir flutning hans heim til Póllands, en kvaðst hins vegar geta greitt fyrir sjúkrahúsmeðferð í Póllandi. Þess vegna ,,borgaði það sig" fyrir spítalann að koma sjúklingnum af höndum sér, en kostnaðurinn við það lendir óhjákvæmilega á sjúkrahúsinu – um ein milljón króna.

Á síðasta ári nam kostnaður spítalans vegna ósjúkratryggðra 188 milljónum króna og vandinn fer vaxandi með auknum fjölda fólks með erlent ríkisfang sem hingað kemur.

Ef það er fortakslaust skylda vinnuveitenda að sjá til þess að tryggingar starfsmanna séu í lagi, þá verða yfirvöld að setja skýrar reglur og beita einhverjum þeim viðurlögum sem tryggja að vinnuveitendur fari að þeim reglum.

Þetta er eitt dæmi af mörgum sem sannar, að ráðamenn verða að bregðast skjótt við varðandi verkferla og vinnulag í málum sem snerta öra fjölgun fólks með erlent ríkisfang hér á landi. Þeir verða að grípa til aðgerða strax og hætta að vísa hver á annan.

Höfundur á sæti í stjórnarnefnd LSH.

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu fyrir jólin.

Jólakveðja mörgæsarinnar

Farðu á þessa slóð og sláðu inn fornafnið þitt - ekki þó nota íslenska stafi.

http://www.star28.net/snow.html


Neyðaraðstoð Mæðrastyrksnefndar og Hjálparstofnunar kirkjunnar

Í dag var ég í sjalfboðastarfi fyrir Mæðrastyrksnefnd við að útdeila nauðsynjum til þeirra sem á þurfa að halda fyrir jólin í miðstöðinn við Sætún.  Ég gerði þetta líka í fyrra og það gefur mér mikið að leggja eitthvað af mörkum fyrir jólin.  Þarna var margt fólk sem hamaðist í sjálfboðavinnu og ég hafði áhyggjur af eldri konum sem púluðu látlaust í allan dag.  Það vantar alltaf fleiri hendur, en það var líka sérlega ánægjulegt að sjá hvað hópur unglinga lagði sig fram í sjálfboðavinnu og burðuðust með þunga poka út í vonda veðrið til að hjálpa þeim sem áttu erfitt með að bera pokana sína.

Það er hverju manni ljóst, sem kemur að þessari vinnu, hversu brýn þörfin er.  Stundum er sagt að fólk sé að misnota sér þessa aðstoð, en ég leyfi mér að fullyrða að 99% þeirra sem sækja aðstoðina þurfi mjög nauðsynlega á henni að halda.  Pétur Blöndal og Hannes Hólmsteinn ættu bara að prófa að standa sjálfboðavaktina þarna og þá myndu þeir örugglega sannfærast um þetta!

Og svo má minna á orð fv. forsætisráðherra, Davíðs Oddssonar, sem sagði að fólk stæði þarna í biðröðum til að sníkja sér mat..


Síðasti fundur Menntaráðs fyrir jól

Í dag var síðasti fundur Menntaráðs Reykjavíkur fyrir jólaleyfi. Á fundinum kynnti Ingvar Sigurgeirsson rannsókn sem hann vann ásamt Ingibjörgu Kaldalóns á vegum Rannsóknarstofnunar Kennaraháskóla Íslands um hegðunarvanda í grunnskólum Reykjavíkur skólaárið 2005-2006. 

Kynningin var mjög áhugaverð og það er gaman að segja frá því að meginþorri skólabarna í reykvískum skólum hegðar sér vel og á ekki í hegðunar- eða samskiptavandamálum.

En agavandamál eru engu að síður fyrir hendi en þar sem þau eru minnst, einkennast viðhorf kennara og annars starfsfólks til nemenda af virðingu, hlýju og jákvæðni.  Hm... góðar fréttir..

Í framhaldi af ítarlegri umræðu um skýrsluna lagði ég fram eftirfarandi bókun sem ég hafði reyndar ætlað mér að leggja fram fyrr:

Fyrirspurn frá Margréti Sverrisdóttur, fulltrúa F-lista: Hefur Menntasvið aflað upplýsinga um lyfjagjafir til grunnskólanema?  Ef ekki, væri unnt að gera úttekt á stöðu þeirra mála?

GREINARGERÐ:

Samkvæmt nýlegri, samnorrænni skýrslu um notkun lyfja, er notkun þunglyndislyfja hjá 0-14 ára börnum margfalt meiri á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum sbr. meðfylgjandi töflu.

 

Notkun þunglyndislyfja eftir kyni og aldri 2003. Dagneysla á 1000 einstaklinga.

 

Danmörk

Færeyjar

Finnland

Ísland

Svíþjóð

 

karlar

konur

karlar

konur

karlar

konur

karlar

konur

karlar

konur

0-14 ára

0.7

0.7

0.5

0.0

0.5

0.4

12,67.2

1.2

1.0

* Medicine consumption in the Nordic Countries 1999-2003


Maraþonfundur í borgarstjórn í dag

Í dag fór fram síðari umræða um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar í borgarstjórn.  Fundurinn stóð frá klukkan 10 í morgun og lauk ekki fyrr en um eittleytið eftir miðnættið.  Fulltrúar F-lista Frjálslyndra á fundinum voru Ólafur F. Magnússon læknir, borgarfulltrúi okkar, og Ásta Þorleifsdóttir jarðverkfræðingur, sem vakti athygli fyrir vasklega framgöngu sína á fyrri hluta fundarins.

Ég fylgdist með fundinum í beinni útsendingu, með gloppum þó, þar sem ég fékk migrenikast í morgun sem rjátlaðist ekki af mér fyrr en síðdegis og svo hlustaði ég í kvöld á meðan ég var að pakka inn jólagjöfunum.   Mig langar að nefna örfá atriði hér, en af nógu er að taka þegar fundað er í 15 klst. samfleytt svo ég læt mér nægja að nefna örfá atriði.

Ný borgarstjórn hreykir sér af verkum sínum og því er rétt að vekja sérstaka athygli á eftirfarandi:

Neikvætt:

  • Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar (með minnihluta atkvæða Reykvíkinga á bak við sigWink) vildi ekki auka framlög til Strætó bs. svo unnt væri að hafa ferðir á 10 mínútna fresti.
  • Áhersla er lögð á aukin framlög til einkarekinna grunnskóla og dagforeldra en minni áhersla lögð á að niðurgreiða þann kostnað sem foreldrar bera nú þegar af skólagöngu sem á að heita ókeypis en er það alls ekki (sbr. greiðslur fyrir máltíðir ofl. sem ætti að fella niður).
  • Tillaga um að meirihlutinn hætti við niðurskurð á starfsemi Alþjóðahúss var felld, sem sýnir að meirihlutinn ætlar ekki að bregðast við þeim vanda sem fylgir auknu flæði erlends vinnuafls til landsins.
  • Dregið er úr framlagi til hverfaráða = minni áhersla á íbúalýðræði en hingað til.
  • Tillaga um ókeypis aðgang allra að Listasafni Íslands var felld.  Ég furða mig á því, vegna þess að sá aðgangseyrir sem þeim tekst með herkjum að mjólka inn er bara brota-brota-brot af kostnaðinum við að halda stofnuninni í rekstri.
  • OG.. þeir stæra sig af sölu Landsvirkjunar!

 Jákvætt: 

  • Tillaga Frjálslyndra um framlag til aðstoðar við heimanám barna af erlendum uppruna var samþykkt! 
  • Ég fagna aukinni áherslu á þjónustu við eldri borgara, m.a. með átaki í byggingu þjónustuíbúða.
  • Ég fagna því líka að hætt var við gjaldskrárhækkun Velferðarráðs fyrir heimaþjónustu og vil að sjálfsögðu nota tækifærið og minna á bókun okkar í F-listanum gegn hækkun á gjöldum aldraðra frá 25. okt. sl.:
Það er stefna F-listans að lækka beri þjónustugjöld til aldraðra, öryrkja, barna og unglinga.

Í samræmi við það leggst F-listinn gegn tillögu um hækkun gjaldskrár Velferðarráðs.

Góða nótt!

 


Birtist ójöfnuðurinn í brosinu?

Í morgun þurfti ég að fara með dóttur mína í aðgerð til sérfræðings í tann-skurðlækningum.  Krakkarnir mínir (nú 17 og 19 ára) urðu fyrir því að slasast þegar þau voru yngri og framtennur löskuðust alvarlega.  Dóttir mín er núna hjá fimm tannlæknum og börnin mín voru bæði með spangir í mörg ár. Við þrautagöngu krakkanna bættist svo að ég varð sjálf að hafa spangir í 3 ár til að koma í veg fyrir slit og gereyðingu tannanna í mér.  Ég er ekki að ýkja Frown

Ég vil taka það fram að þeir sérfræðingar sem við höfum verið hjá eru afbragðs fólk og afbragðs fagfólk.  En þjónusta þeirra er mjög dýr.  Og reglulegar heimsóknir venjulegra fjölskyldna til tannlækna eru svo dýrar að fjöldi fólks veigrar sér við að fara til tannlæknis. 

Í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur ójöfnuður vaxið meira í okkar samfélagi en nokkru sinni fyrr og það vakti athygli mína að samkvæmt nýjustu fréttum er álitið að 7% barna á Íslandi séu fátæk (en 5% á Norðurlöndum) og í svari við fyrirspurn á Alþingi kom einmitt fram að 7% barna á aldrinum 6-8 ára höfðu aldrei fengið endurgreiðslur vegna tannlækninga - þ.e. höfðu ekkert farið til tannlæknis.   Það er alvarlegt áhyggjuefni hversu gloppótt kerfið er þegar kemur að tannlækningum og mér finnst að sjúkratryggingar verði að niðurgreiða amk. almennar tannlækningar miklu betur en nú er gert. Helst vil ég að almenningi verði tryggður sami réttur til tannlæknaþjónustu og annarrar heilbrigðisþjónustu. Auk þess hefur greiðsluþátttaka Tryggingastofnunar Ríkisins í tannvernd og tannviðgerðum barna og unglinga ekki fylgt verðlagsþróun.  

Það ömurlegt ef stéttaskipting og ójöfnuður hér á landi birtist í brosinu einu saman.


Galdrabrenna í beinni

 Ég horfði á fréttaskýringaþáttinn Kompás í kvöld.  Þar var fjallað um alvarlegar ásakanir á hendur Guðmundi Jónssyni,  forstöðumanni meðferðarheimilisins Byrgisins.  Hvort sem maðurinn er sekur eða saklaus, þá er óbærilegt að fólk sé svipt mannorðinu með þessum hætti og dómur felldur í fjölmiðli.  Vinur minn framdi sjálfsmorð vegna samskonar umfjöllunar í fjölmiðli, þar sem hann var sviptur mannorðinu án þess að geta borið hönd fyrir höfuð sér.  Jafnvel þó Guðmundur væri sekur, þá er umfjöllunin skelfileg fyrir fjölskyldu hans og börn og ég leyfi mér að fordæma fréttamennsku af þessu tagi. 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband