2.1.2007 | 22:59
Við börðumst ein gegn sölu Heilsuverndarstöðvarinnar í borgarstjórn
"Stærstu mistökin í heilbrigðiskerfinu" segir Reynir Tómas Geirsson, sviðsstjóri kvennasviðs LSH í Morgunblaðinu í dag um söluna á Heilsuverndarstöð Reykjavíkur. Ég er sammála Reyni, ég gat aldrei skilið hvernig mönnum datt í hug að selja Heilsuverndarstöðina til einkaaðila. Það voru a.m.k. ein stærstu mistökin í pólitíkinni, því þetta var sannarlega pólitísk ákvörðun. Ríki og borg áttu húsið saman og auðvitað átti ríkið að kaupa hlut borgarinnar á sanngjörnu verði. Sala Heilsuverndarstöðvarinnar kom mjög á óvart, jafnvel starfsfólk Heilsuverndarstöðvarinnar hafði ekki verið látið vita af þeim áformum.
Í öðru orðinu er talað um að heilbrigðisstarfsemi eigi að vera á svæðinu kringum LSH, en svo má allt í einu tvístra starfseminni um alla borg. Það má ekki gleymast að þetta er menningarsögulegt hús, því Heilsuverndarstöðin er sérhönnuð fyrir þá þjónustu sem lengi hefur verið hýst þar, s.s. á sviði forvarna og heilsugæslu, auk ungbarna- og mæðraverndar. Stofnunin hefur verið afar mikilvæg miðstöð heilsugæslu í borginni um langt árabil.
Á sama tíma og starfsemi Heilsuverndarstöðvarinnar er tvístrað út um alla borg, er LSH að taka á leigu húsnæði við Snorrabraut undir Blóðbankann, til þess að hann verði áfram í grennd við spítalann.
F-listinn barðist einn borgarstjórnarflokka gegn sölu Heilsuverndarstöðvarinnar og krefst þess ennþá að það heilsugæslustarf sem hún var reist til að hýsa, fái að vera þar áfram.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:16 | Facebook
Athugasemdir
Það sést best á þessu að atkvæði á Frjálslynda er á glæ kastað.
Heimir Lárusson Fjeldsted, 3.1.2007 kl. 13:38
Auðvitað voru það alvarleg pólitísk mistök að selja Heilsuverndarstöðina. Þessi misstök voru þó ekki nánda nærri eins alvarleg og það að sameina Landspítalann og Borgarspítalann og að ekki sé minnst á að leggja niður rekstur Landakotsspítala á sínum tíma, sem var eina sjúkrahúsið á landinu, sem ekki var rekið með tapi!
Júlíus Valsson, 3.1.2007 kl. 17:05
Sæl. Ég veit ekki alveg með þetta mál, því þegar konan mín var í meðgöngueftirliti á gömlu heilsugæslunni þá heyrði maður starfsfólk hvað eftir annað vitna um það að húskynnin séu barns síns tíma og það verði að fara huga að öðru húsnæði! Svo fer allt í háaloft og sumar skammirnar voru útaf óvirkri loftræstingu? Þess vegna er ég svo hissa að heyra þetta frá starfsfóki að þau séu að flytja annað. Hitt er þó annað mál að það væri gaman að sjá þetta hús halda reisn sinni, bara spurning hvernig það verður.
Kveðja,
Sveinn Hjörtur
Sveinn Hjörtur , 3.1.2007 kl. 21:12
Einhvern veginn finnst mér ég aldrei hafa séð nein haldbær rök fyrir nauðsyn þess að selja þetta stórmerkilega hús.
Hlynur Þór Magnússon, 3.1.2007 kl. 23:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.