Á Landspítalinn að vera tryggingafélag ótryggðra útlendinga?



Það eiga víst allir að vera tryggðir sem eru á íslenskum vinnumarkaði. Það á að vera forsenda fyrir útgáfu atvinnuleyfa að fólk hafi sjúkratryggingu.
Það er hlutverk vinnuveitenda að sjá til þess að tryggingar erlendra starfsmanna þeirra séu í lagi. En hvað ef vinnuveitendur gera það ekki – bregðast þessari skyldu sinni einhverra hluta vegna? Hver á að sjá til þess að vinnuveitendur athugi hvort erlendir launamenn séu með sjúkratryggingar? Það virðist afar óljóst og nýverið hafa komið upp mörg dæmi um að allur kostnaður vegna ótryggðra sjúklinga hafi lent á Landspítalanum.

Kostnaður lendir á spítalanum
Landspítalanum ber skylda til að veita sjúklingum neyðarþjónustu, burtséð frá því hvort þeir eru tryggðir. Þetta er vaxandi vandi, eins og komið hefur fram í fréttum nýverið.

Í nýjustu aðildarríkjum ESB, löndum Austur-Evrópu, er tryggingakerfið mjög vanþróað og algengt að fólk frá þeim löndum sé ekki tryggt. Það hefur reynst erfitt að fá kostnað þeirra vegna greiddan í sumum tilfellum og þá lendir kostnaðurinn á Landspítalanum, sem hefur þurft að sýna verulega hagræðingu í rekstri undanfarin ár og kostnaður sem lendir á spítalanum hlýtur að lokum að greiðast af íslenskum skattgreiðendum.

Það hefur skort skilning hjá ráðuneytum á þessari byrði. Í reynd er spítalinn orðinn að eins konar tryggingafélagi fyrir ótryggða útlendinga.

188 milljónir króna árið 2005
Nefna má dæmi þar sem sjúklingur var sendur til Póllands í fylgd hjúkrunarfólks af því tryggingafélagið í heimalandi hans neitaði að greiða fyrir flutning hans heim til Póllands, en kvaðst hins vegar geta greitt fyrir sjúkrahúsmeðferð í Póllandi. Þess vegna ,,borgaði það sig" fyrir spítalann að koma sjúklingnum af höndum sér, en kostnaðurinn við það lendir óhjákvæmilega á sjúkrahúsinu – um ein milljón króna.

Á síðasta ári nam kostnaður spítalans vegna ósjúkratryggðra 188 milljónum króna og vandinn fer vaxandi með auknum fjölda fólks með erlent ríkisfang sem hingað kemur.

Ef það er fortakslaust skylda vinnuveitenda að sjá til þess að tryggingar starfsmanna séu í lagi, þá verða yfirvöld að setja skýrar reglur og beita einhverjum þeim viðurlögum sem tryggja að vinnuveitendur fari að þeim reglum.

Þetta er eitt dæmi af mörgum sem sannar, að ráðamenn verða að bregðast skjótt við varðandi verkferla og vinnulag í málum sem snerta öra fjölgun fólks með erlent ríkisfang hér á landi. Þeir verða að grípa til aðgerða strax og hætta að vísa hver á annan.

Höfundur á sæti í stjórnarnefnd LSH.

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu fyrir jólin.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband