21.12.2006 | 17:09
Neyðaraðstoð Mæðrastyrksnefndar og Hjálparstofnunar kirkjunnar
Í dag var ég í sjalfboðastarfi fyrir Mæðrastyrksnefnd við að útdeila nauðsynjum til þeirra sem á þurfa að halda fyrir jólin í miðstöðinn við Sætún. Ég gerði þetta líka í fyrra og það gefur mér mikið að leggja eitthvað af mörkum fyrir jólin. Þarna var margt fólk sem hamaðist í sjálfboðavinnu og ég hafði áhyggjur af eldri konum sem púluðu látlaust í allan dag. Það vantar alltaf fleiri hendur, en það var líka sérlega ánægjulegt að sjá hvað hópur unglinga lagði sig fram í sjálfboðavinnu og burðuðust með þunga poka út í vonda veðrið til að hjálpa þeim sem áttu erfitt með að bera pokana sína.
Það er hverju manni ljóst, sem kemur að þessari vinnu, hversu brýn þörfin er. Stundum er sagt að fólk sé að misnota sér þessa aðstoð, en ég leyfi mér að fullyrða að 99% þeirra sem sækja aðstoðina þurfi mjög nauðsynlega á henni að halda. Pétur Blöndal og Hannes Hólmsteinn ættu bara að prófa að standa sjálfboðavaktina þarna og þá myndu þeir örugglega sannfærast um þetta!
Og svo má minna á orð fv. forsætisráðherra, Davíðs Oddssonar, sem sagði að fólk stæði þarna í biðröðum til að sníkja sér mat..
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:35 | Facebook
Athugasemdir
Sæl Margrét.
Þú átt heiður og þökk skilið fyrir störf þín í þessu efni, sem einhverra hluta vegna virðist einungis sinnt af konum meðan karlkynið rembist við afneita fátæktinni í innbyrðis kapphlaupi.
kv.gmaria.
Guðrún María Óskarsdóttir., 22.12.2006 kl. 00:56
Og svo hækkar Davíð bara stýrivextina til að gleðja alla ennþá meira um jólin.
Greta Lind (IP-tala skráð) 22.12.2006 kl. 09:24
Þetta hefur mig lengi langað að gera, endurgjalda Mæðrastyrksnefnd fyrir allt sem þær hafa gert, áður en ég giftist aftur barðist ég í bökkum með 3 börn og sáralítil laun og þurfti að leita til þeirra. Ég vona að ég geti einhverntíma unnið svona sjálboðavinnu fyrir þær og stefni reyndar að því.
Birna M, 22.12.2006 kl. 20:07
Sæl og blessuð Margrét, gaman að lesa bloggið þitt. Ég er svo sammála þér með fátæktina á Íslandi, hún er svo sannarlega til. Ég þekki þetta vel því annar sonur okkar er einstæður faðir og nær aldrei endum saman, enda þarf hann að hætta að vinna á daginn þegar leikskóla lýkur hjá barninu hans eins og margir aðrir einstæðir foreldrar. Hann fékk að heyra það hjá sínum fyrrverandi vinnuveitanda að aðrir feður sem væru í vinnu hjá honum gætu nú alveg reddað pössun eftir leikskólalokun svo þeir gætu unnið lengur. Sem betur fer er hann núna að vinna hjá fyrirtæki sem tekur tillit til aðstæðna. En launin eru ekki mikil og aldrei hægt að láta enda ná saman og með tímanum verður fólk afskaplega vonlaust þegar svona er. Já lífið er hunderfitt en góðu stundirnar eru bónusinn. Það er dásamleg tilfinning að geta borgað reikningana sína og átt fyrir fæði, klæði og húsaskjóli fyrir fjölskylduna sína, en því miður finna ekki allir á Íslandi þessa tilfinningu.
Ég óska þér og fjölskyldunni þinni gleðilegs nýs árs Margrét mín og þakka þér frábær kynni á liðnum árum. Ég vil ganga bjartsýn inn í nýtt ár með þá speki mína að dýrmætustu hlutirnir eru ekki hlutir heldur kærleikur og ást sem við gefum og þiggjum. Bestu kveðjur Dísa Gests
Arndís Ásta Gestsdóttir (IP-tala skráð) 29.12.2006 kl. 12:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.