Móti straumi

 

Barátta minnihlutahópa í samfélaginu er barátta fyrir breyttu hugarfari.  Sú barátta krefst þess að minnihlutahópar fari gegn ríkjandi gildum og viðmiðum til að knýja á um breytingar.  Það kallar jafnan á harkaleg og neikvæð viðbrögð þeirra sem styðja ríkjandi gildi. 

Þegar þrotlaus barátta minnihlutahópa skilar árangri, hættir fólki til að taka það sem sjálfsögðum hlut vegna þess að loksins þegar að því kemur, hefur hugarfarið breyst og breytingarnar virðast því sjálfsagðar og eðlilegar.  Þá gleymist mjög oft að þakka þeim sem stóðu í baráttunni fyrir þann árangur sem náðst hefur.

 

Barátta samkynhneigðra

Samtökin ´78, félag lesbía og homma á Íslandi, fagnaði 30 ára afmæli með hátíð í Hafnarhúsinu sl. föstudag, á alþjóðlegum baráttudegi samkynhneigðra.  Ísland er í dag í fremstu röð varðandi réttindi samkynhneigðra. Þeir brimbrjótar, sem fóru fremstir í flokki í þeirri baráttu sem nú hefur borið svo ríkulegan ávöxt, eiga sannarlega heiður skilinn.  Gífurlegir fordómar ríktu almennt í garð samkynhneigðra þegar Hörður Torfason söngvari kom fyrstur „út úr skápnum" eins og það er kallað, og bauð fordómunum byrginn.  Það þurfti líka kjark til að setjast í stjórn Samtakanna ´78 fyrstu árin.  Margt af því sem nú þykja sjálfsögð mannréttindi, virtist gersamlega útilokað, til dæmis réttur samkynhneigðra til hjúskapar og ættleiðinga.  Gay Pride-ganga hinsegin fólks hefði líka verið óhugsandi þá vegna þess að flest samkynhneigt fólk lifði í felum og leyndi kynhneigð sinni.

 

Kvennabaráttan

Þátttaka kvenna í stjórnmálum hefur gegnum tíðina snúist að miklu leyti um baráttu gegn ríkjandi gildum. Á öllum tímum hefur verið gert lítið úr kvenréttindakonum og þær uppnefndar.  En þrýstingur kvennabaráttunnar hefur skilað því að konur hafa komist til áhrifa sem hefðu annars átt erfitt uppdráttar, þrátt fyrir óumdeilda hæfileika á sínu sviði.  Með þrotlausri baráttu fjölmargra kvenna um áratuga skeið jókst þrýstingur á stjórnmálaflokka að gefa konum tækifæri þótt sumir flokkar hafi brugðist seint við.  En jafnvel konur sem geta beinlínis þakkað kvennabaráttunni fyrir að vera í áhrifastöðu sem þær hefðu annars ekki komist í, gefa þessum kynsystrum sínum  langt nef og segja að konur komist áfram  „á eigin verðleikum".  Eins og sá árangur sem þó hefur náðst, sé sjálfsagður hlutur og brautin greið framundan.  Samt er svo margt óunnið, s.s. að jafna launamun kynjanna, en hann endurspeglar hróplegt óréttlæti.

 

Baráttan fyrir náttúruvernd

Barátta náttúruverndarsinna hefur orðið æ meira áberandi síðustu ár hér á landi.  Náttúruverndarsinnar fara gegn ríkjandi gildum með því að krefjast allsherjar hugarfarsbreytingar gagnvart náttúrunni.  Náttúruverndarfólk vill að ósnortin náttúra sé metin til fjár.  Það hefur aldrei verið gert, heldur einungis settir verðmiðar á „arðbærar framkvæmdir" í náttúrunni, með tilheyrandi náttúruspjöllum. 

Smám saman kemur árangur áratuga baráttu í ljós og nú liggur fyrir, samkvæmt nýrri könnun, að meirihluti landsmanna er andvígur frekari virkjunum fyrir stóriðju.

Náttúruverndarsinnar eru því mjög fjölmennur þrýstihópur hér á landi, en mætir samt miklum fordómum.  Þess vegna er svo dýrmætt að njóta þar liðsinnis fólks sem hlustað er á.  Allur heimurinn leggur við hlustir þegar Björk lýsir afstöðu sinni til náttúruverndar á Íslandi. En andstæðingar tala niður til hennar. Sem betur fer er Björk hvergi bangin við að synda á móti straumnum og hefur aldrei verið.  Það er ómetanlegt.

Höfum jafnan hugföst eftirfarandi vísuorð  Bjarna Thorarensens:

En þú, sem undan

ævistraumi

flýtur sofandi

að feigðarósi,

lastaðu ei laxinn,

sem leitar móti

straumi sterklega

og stiklar fossa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband