20.6.2008 | 13:44
Kvenréttindadagurinn
Í gær var 19. júní og margir viðburðir skipulagðir til að fagna honum. Ég byrjaði daginn snemma á viðtali í morgunútvarpi Rásar 1 í tilefni dagsins. Síðan mætti ég í utanríkisráðuneytið þar sem kynnt var sameiginlegt verkefni utanríkisráðuneytis og Háskóla Íslands og viljayfirlýsing undirrituð um stofnun Jafnréttisseturs og Jafnréttisskóla við HÍ. Þetta er lofsvert og þarft framtak, sem felur í raun í sér útrás íslenskrar kvenorku, því Ísland mun miðla öðrum þjóðum af reynslu sinni í jafnréttismálum auk þess að vinna markvisst að rannsóknum á sviði jafnréttis.
Síðdegis var kvennasöguganga sem Kvennasögusafnið og Kvenréttindafélag Íslands stóðu að í sameiningu. Gengið var frá minnismerkinu um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur - Bríetarbrekku við Þingholtsstræti - og staldrað við á nokkrum kvennasögulegum stöðum á leið gegnum miðborgina að Hallvegarstöðum, þar sem kaffisamsæti tók við. Auður Styrkársdóttir, forstöðukona Kvennasögusafnsins leiddi gönguna og fræddi göngufólk um kvenna-sögufræga staði með áhugaverðum og skemmtilegum frásögnum. Steinunn Valdís Óskarsdóttir, alþingismaður og fyrrverandi borgarstjóri flutti ávarp dagsins á Hallveigarstöðum; hressilega brýningu um kjaramál. Auk þess var útáfu 19. júní fagnað sérstaklega og ritstjóri blaðsins, Steingerður Steinarsdóttir flutti skemmtilega hugvekju. Um 100 konur mættu í gönguna og móttökuna.
Síðan náði ég að skjótast á stórglæsilega opnunarhátíð Auðar Capital í Ásmundarsal. Þar var heilmikið fjör og þéttriðið tengslanet kvenna! Það verður spennandi að fylgjast með því hvernig þessum öflugu konum tekst setja mark sitt á fjármálaheiminn á næstunni. Þær völdu sannarlega rétta daginn til að stimpla sig rækilega inn.
Um kvöldið var svo hin árlega Kvennamessa við Þvottalaugarnar í Laugardal. Áhrifamikil messa, þar sem Þórunn Sveinbjarnardóttir flutti vandaða predikun af myndugleik, Auður Eir fór með bænir og blessunarorð, Áslaug Brynjólfsdóttir las ritningarlestur og Anna Sigríður Helgadóttir söng einsöng. Þetta var ákaflega hátíðleg stund, enda datt á blæjalogn og sólin braust fram úr skýjunum á meðan á messuhaldinu stóð. Þannig blessaði "hún Guð" þessa stund - eins og Kvennakirkjan yndi líklega orða það. Svo áttu messugestir skemmtilega stund á Café Flóru í grasagarðinum á eftir. Svona á 19. júní að vera.. Og skilaboð kvenna í tilefni dagsins voru öll á sama veg: Launamunur kynjanna er óþolandi og kjaramálin brenna almennt mjög á konum, ekki síst á kvennastéttum.
P.S. Og svo fagna ég því sérstaklega að ríkisstjórnin skyldi taka handbremsuna af efnahagslífinu með því að efla Íbúðarlánasjóð. Það mun hafa margfeldisáhrif til góðs, sérstaklega á fasteignamarkaði og í byggingaiðnaði.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:01 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.