Hjálpum þeim

Íslendingar hafa skyldum að gegna gagnvart alþjóðasamfélaginu og móttaka flóttamanna er ein af þeim skyldum.  Félagsmálaráðuneytið semur við sveitarfélög um móttöku á ákveðnum fjölda flóttamanna í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar hverju sinni.  Móttaka flóttamanna til Íslands er því samvinnuverkefni stjórnvalda, viðkomandi sveitarfélags og Rauða kross Íslands.        

 

Velvilji hingað til    

 

Starfsfólk sveitarfélaga hefur jafnan unnið mjög vel að móttöku flóttamanna, en einnig koma að móttöku þeirra starfsmenn og sjálfboðaliðar Rauða krossins. Rauði krossinn hefur hlotið mikið lof fyrir frammistöðu sína varðandi móttöku flóttamanna.  Fagfólk hefur stýrt verkefnum fyrir hönd RKÍ og RKÍ hefur jafnan auglýst eftir stuðningsaðilum / stuðningsfjölskyldum til að hjálpa flóttafólki að fóta sig á Íslandi og hafa viðbrögðin verið umfram væntingar. Þetta stuðningsaðilakerfi hefur vakið verðskuldaða athygli. Níu sveitarfélög á Íslandi hafa tekið á móti flóttamönnum og er komin góð reynsla á alla verkferla auk þess sem íbúar hafa jafnan verið velviljaðir í garð flóttamanna.  Ýmsir hafa sýnt vilja í verki og til að mynda hefur rútufyrirtækið Guðmundur Jónasson ehf. ekið með flóttamenn frá Keflavík til Reykjavíkur endurgjaldslaust í heil 50 ár!     

 

Ekki velkomin? 

 

Því var það, að harkaleg andstaða fyrrum formanns félagsmálaráðs Akraness og varaformanns Frjálslynda flokksins, Magnúsar Þórs Hafsteinssonar,  við fyrirhugaða komu flóttamanna til bæjarins vakti furðu landsmanna.  Um er að ræða konur; einstæðar mæður eða ekkjur með börn, sem eiga hvergi samastað en dvelja nú í flóttamannabúðunum Al-Waleed í Írak.  Flestar munu þær hafa misst eiginmenn sína í stríðsátökum.  Formaðurinn taldi að ástandið á Akranesi væri þannig að bærinn ætti fullt í fangi með að aðstoða bæjarbúa og gaf til kynna að áður en til móttöku flóttamanna kæmi, þyrfti að leysa félagsleg vandamál bæjarins.Það er beinlínis hættulegt að formaðurinn skuli tala með þessum hætti um að Akurnesingar skuli fyrst huga að eigin fólki.  Hann kýs þar með að ala á ótta bæjarbúa við að flóttafólkið fari framfyrir í röð þeirra bæjarbúa sem bíða félagslegra úrræða.  Þetta er rangt.   Víst mun vera rétt að nokkur fjöldi fólks sé á biðlista á Akranesi eftir félagslegu húsnæði. En formaðurinn virtist ekki vita að koma flóttamanna breytir engu um stöðu biðlistans á Akranesi  þar sem flóttamennirnir fara ekki inn í félagslegar íbúðir á vegum bæjarins heldur leigja á almennum markaði. Ríkið greiðir allan kostnað við húsnæði fólksins á meðan á svokölluðum aðlögunartíma stendur (í 1-2 ár) en að því loknu greiðir fólkið sjálft húsaleigu.  Flóttafólk í öðrum sveitarfélögum hefur undantekningalítið aðlagast vel og náð að standa á eigin fótum að aðlögunartíma loknum og fáir eiga betra með að aðlagast nýju umhverfi en börn og unglingar sem virðast vera í meirihluta þess hóps sem kemur. Magnús Þór hefur líka margsagt, að stjórnmálaflokkar á Akranesi hafi nú svikið kjósendur sína, því enginn flokkur hafi haft það á stefnuskrá sinni fyrir kosningar að taka á móti flóttafólki!  Þetta lýsir miklu skilningsleysi á eðli flóttamannahjálpar, því móttaka flóttamanna er skilgreind sem mannúðarverkefni, en ekki pólitískt verkefni og um hana er samið á alþjóðavísu milli ríkisstjórnar og Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna áður en ráðuneyti semja við sveitarfélög.  Við tökum við því fólki sem að mati Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna býr við mesta neyð og þar sem líklegast er að hjálpin skili árangri.  

 

Kærir meiðyrði 

 

Magnús Þór hefur að vanda farið hamförum á bloggsíðu sinni, nú gegn fyrrum samstarfsfólki sínu í bæjarstjórn Akraness.  Auk þess ætlar félagsmálaforkólfurinn vist að kæra einhvern fyrir að hafa sagt að hann sé kynþáttahatari.  Fyrr má nú kasta steinum úr glerhúsi, því þetta er maðurinn sem skrifaði á netið að sprengja ætti Halldór Blöndal þáverandi forseta Alþingis til helvítis og Björn Bjarnason ráðherra með, eins og flestir muna.   Og Frjálslyndi flokkurinn hefur óneitanlega fengið á sig stimpil kynþáttaandúðar. Í Silfri Egils sl. sunnudag mætti Magnús Þór Amal Tamimi, 6 barna móður frá Palestínu. Hún kom tíl Íslands 1995, talar góða íslensku og er félagsfræðingur frá Háskóla Íslands. Amal er  fræðslufulltrúi og túlkur í Alþjóðahúsi auk þess að vera virk í félagsstarfi, s.s. í stjórn Samtaka kvenna af erlendum uppruna.  Amal er glæsilegur fulltrúi palestínskra kvenna á Íslandi og verður þeim eflaust fyrirmynd. Höfum hugfast að sérhvert mannslíf er einstakt og börnin gráta eins, hverrar þjóðar sem þau eru.  Hjálpum þeim. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það sem slær mig mest er að ég held að Magnús geri sér alveg grein fyrir því að hann mun ekkert stoppa komu þessa flóttafólks.

Eina sem hann er að gera er að sá hatri í einstaklinga, og gera það erfiðara fyrir þessar konur og börn þeirra að aðlagast þegar þau koma.

Eins og ég er alinn upp þá mundi ég kalla það hreina mannvonsku. 

Þarf hann líka ekki að kæra nokkuð marga fyrir meinyrði? Miðað við hvernig fólk talar um hann þá virðist þessi skoðun ekki vera einskorðuð við handhafa kærandann.

Hún virðist vera frekar almenn.  

www.sbs.is (IP-tala skráð) 21.5.2008 kl. 17:00

2 Smámynd: Bergþóra Jónsdóttir

Orð í tíma töluð,

takk.

Bergþóra Jónsdóttir, 21.5.2008 kl. 20:10

3 Smámynd: Sig Sauer

Ég tek undir þetta, margt hefur komið í ljós síðan þetta byrjaði allt saman og nýjar upplýsingar hafa borist.

Maður getur svosem skilið Magnús því þegar ríkisstjórnin tilkynti þetta að þá lágu nánast engar upplýsingar fyrir.

Ég er frá Akranesi og býð þetta fólk velkomið. 

Sig Sauer, 21.5.2008 kl. 20:19

4 Smámynd: Sigurður Rúnar Sæmundsson

Þú ert mikill skörungur, Margrét. Ég þakka þér þennan pistil. Málin eru mörg sem þurfa stuðning góðs fólks í áhrifastöðum. Bjargarlausar fjölskyldur í Al-Waleed, flóttafólk um allan heim sem nýtur ekki mannréttinda, sem við teljum sjálfsögð. Þau þurfa stuðning.

Fátækt fólk á Íslandi þarf líka stuðning. Það er innanlandsmál. Og þar höfum við einvalalið til hjálpar, sveitarstjórnarfólk, kjörið af sveitungum sínum til að sjá um sín mál.

Ísland er ríkt land. þjóðin er rík. Fátækt er bönnuð samkvæmt srjórnarskrá, að ég held. Allir skulu hafa mat og húsaskjól samkvæmt lögum, held ég. Veit ekki betur.

Íslensk börn hafa einstakan rétt, umfram foreldra sína. Þeim skal ávalt tryggt besta atlæti í umönnun. Þar er mælikvarðinn gjarnan..Sæmilegt húsnæði...sæmileg föt...sæmilegur matur..sæmilegir foreldrar. Barnaverndarnefndir sveitarfélaganna glíma ár og síð við þetta.Viðkvæm mál. Ég þekki persónulega nokkra foreldra sem standast ekki þessar mælistikur, en hafa svo reynst kærleiksrík foreldri,,hafa uppfyllt þörf barnsins fyrir kærleika,, en ekki öðrum nauðsynjum.

Ég er nokkuð klár á því að fólkið frá Al-Waleed hefur ekki notið þeirra mannréttinda sem gilda á Íslandi. Það er von mín að fyrstu 2 árin í lífi erlendra flóttamanna á Íslandi, verði varið í kennslu á almennum mannréttindum, ásamt með kennslu í íslensku og íslenskum siðum, þar með töldum þeim kristnu gildum sem við lifum eftir.

Þegar kemur að neyð fólks,  sleppum atkvæðasmölun...stöndum saman..fjölskylda heimsins..!

.

Sigurður Rúnar Sæmundsson, 21.5.2008 kl. 21:47

5 identicon

Flottur pistill

Auður H Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 22.5.2008 kl. 10:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband