11.3.2008 | 15:09
Kostnaðarhlutdeild sjúklinga
Hér á landi höfum við félagslegt heilbrigðiskerfi svipað og á Norðurlöndum, í Bretlandi og Kanada. Kerfið er mestmegnis fjármagnað af hinu opinbera sem á tæki og aðstöðu að mestu. Þó er takmarkaður einkarekstur heimill og þá bera sjúklingar kostnaðarauka af honum. Notendur heilbrigðiskerfisins hafa hingað til borið lítinn kostnað af þjónustunni og markmiðið hefur verið að tryggja jafnan aðgang allra óháð efnahag. Um þetta heilbrigðiskerfi ríkir almenn sátt í landinu. Sífellt er þó deilt á kerfið fyrir það hversu dýrt það er, en það sem veldur vaxandi kostnaði í heilbrigðiskerfinu er m.a. hækkandi meðalaldur þjóðarinnar auk stöðugt fullkomnari og dýrari tækja til sjúkdómsgreininga og lækninga. Einnig koma stöðugt á markað ný, betri og dýrari lyf. Kröfur um skilvirkni og skýra framtíðarsýn eru eðlilegar þegar miklir fjármunir eru í húfi. En þegar rætt er um háan kostnað við heilbrigðiskerfið hér á landi má ekki gleymast að við höldum uppi háþróuðu heilbrigðiskerfi - raunar á heimsmælikvarða - í mjög fámennu samfélagi.
Útgjöld hafa áhrif á aðgengi
Skortur á fjármagni krefst forgangsröðunar til að fjármagn nýtist sem best. Skortur á fjármagni eykur einnig þrýsting á að sjúklingar taki meiri þátt í kostnaði. Í því sambandi hafa verið uppi hugmyndir um hækkun þjónustugjalda og jafnvel að auka hlut sjúklinga. En hvaða áhrif hefur það? Því miður hafa komið í ljós bein tengsl milli kostnaðar og þess að fólk frestar því að leita sér lækninga. Því meiri kostnaður og því lægri tekjur einstaklings eða fjölskyldu, því meiri hætta er á að læknisheimsókn verði frestað. Það leiðir aftur til þess að beinlínis er hægt að draga úr eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu með því að auka hlutdeild sjúklinga. En hvað hefur sú leið í för með sér?Dr. Rúnar Vilhjálmsson o.fl. gerðu könnun á því hvaða hópar það væru sem bæru mestar byrðar af kostnaði í heilbrigðiskerfinu. Mest reyndist byrðin meðaleftirtalinna hópa: Kvenna, aldraðra, atvinnulausra, lágtekjufjölskyldna, langveikra og líkamlega fatlaðra. Þetta eru þeir hópar sem bera mestar byrðar núna og er ekki á bætandi. Aukin kostnaðarhlutdeild notenda heilbrigðiskerfisins er því líkleg til að leiða til þess að þeir sem hafa minnst á milli handanna borgi hlutfallslega mest fyrir kerfið. Æskilegra er að vísa eða stýra sjúklingum betur um kerfið til dæmis með því að efla heilsugæslu sem fyrsta viðkomustað sjúklinga vegna þess að hún er miklu ódýrari kostur en spítali. Undanfarin ár hefur verið gert stórátak í því að kostnaðargreina alla starfsemi Landspítala-háskólasjúkrahúss og er það afar mikilvægt til að efla skilvirkni og markvisst starf. Markmiðið er að kostnaðargreina öll verk og lyf sömuleiðis. Einnig er mjög mikilvægt að skilgreina betur hlutverkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og skiptingu verkefna innbyrðis milli ráðuneyta. Markvissara heilbrigðiskerfi leiðir til sparnaðar.
Aukinn einkarekstur?
Nú vinnur heilbrigðisráðuneytið að uppbyggingu svokallaðrar sjúkratryggingastofnunar sem á að hafa það hlutverk að kaupa heilbrigðisþjónustu fyrir hönd landsmanna. Einnig er stefnt að svokallaðri ,,blandaðri fjármögnun sem þýðir að stofnanir eru að hluta til fjármagnaðar með föstum greiðslum og að hluta til með afkastatengdum greiðslum. Sjúkratryggingastofnunin mun vonandi verða til þess að auka hagkvæmni og skilvirkni heilbrigðiskerfisins. Ég vona að ríkisstjórninni takist að forðast að þessi nýja stofnun leiði til þess að hlutur einkareksturs aukist um of í því samkeppnisumhverfi sem skapast. Það getur orðið vafasamt fyrir hagsmuni sjúklinga.Nauðsynlegt er að opin umræða fari fram í samfélaginu um stefnumótun í þessum mikilvæga málaflokki, sérstaklega ef til stendur að sveigja af þeirri leið sem þjóðarsátt hefur hingað til verið um; félagslegt heilbrigðiskerfi þar sem sjúklingar bera sem minnstan kostnað.Allra mikilvægast er að reisn og réttindi sjúklinga verði ávallt í fyrirrúmi við ákvarðanatöku og að þjóðin standi sameiginlega vörð um eitt besta heilbrigðiskerfi í heimi, hér eftir sem hingað til.
Höfundur er varaborgarfulltrúi
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:11 | Facebook
Athugasemdir
Það er ekki þægilegt að hendast uppá bráðamótöku með veikan einstakling og naga neglurnar yfir hverri rannsókn sem framkvæmd er. Því hve rannsókn kostar og heimsóknin á bráðamóttöku getur orðið ansi dýr ef sá veiki verður ekkil agður inn. Fleiri fleiri þúsundir ef ekki tugi þúsunda. En ef heimsóknin dregst á langinn og sá sjúki verður innlagður á spítalann þá getur maður andað léttara yfir möguleikunum að eiga fyrir salti í grautinn það sem eftir er mánaðarins. Þar að segja ef innlögnin varir lengur en 24 klst.
Ég hef heyrt að í Svíþjóð er þó nokkuð af einkaklinkum og þar getur kúnninn valið hvort hann sæki einka klínnik eða ríkis rekna klínik, það kostar næstum því sama fyrir sjúklinginn að þyggja einka rekna þjónustu eða ríkisrekna.
Áður en heilbigðiskerfið verður allt einkavætt skyldum við hugsa dæmið vel til enda. Það eru ekki allir sem eiga jafnmikið afgulli
Jóhanna Garðarsdóttir, 12.3.2008 kl. 04:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.