11.3.2008 | 14:58
Vonlaus meirihluti Vilhjálms og Ólafs F.
Ólafur F. Magnússon hefur mælst óvinsælasti borgarstjóri í Reykjavík frá upphafi vega og það virðist útilokað að hann nái að vinna hylli borgarbúa. Borgarbúar vita allir að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson mútaði honum með borgarstjórastöðunni til að koma Sjálfstæðisflokknum aftur til valda, hvað sem það kostaði. En Ólafur misreiknaði sig, því borgarbúar töldu Vilhjálm hreint ekki verðskulda að komast aftur til valda og raunar kysu flestir að þeir báðir segðu af sér. Vilhjálmur klúðraði málum Orkuveitunnar svo hrapallega sem borgarstjóri, að hann missti meira að segja allt traust sinna nánustu samstarfsmanna, svokallaðra Sexmenninga sem skunduðu á fund Geirs Haarde í vandræðum sínum. Þar með varð alvarlegur trúnaðarbrestur og glundroði innan borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins og Vilhjálmur missti meirihlutann í borginni.En hann vildi ekki sætta sig við þá niðurstöðu og ákvað að herja á Ólaf og hégómagirnd hans. Vilhjálmi lá mikið á að semja við Ólaf um meirihlutann áður en REI-skýrslan kæmi út vegna þess að hún ásamt umfjölluninni sem henni fylgdi svipti hulunni af umboðsleysi og ósannindum hans í því máli.Báðir eru þeir Vilhjálmur og Ólafur að syngja sitt síðasta í pólitík. Það vissi Ólafur reyndar þegar hann ákvað að hans síðasta verk yrði að reisa sér bautastein sem borgarstjóri.
Styður Sjálfstæðisflokkur núna stefnu F-lista?
Ólafur F. hefur haldið því mjög á lofti að hann hafi fengið öll stefnumál F-listans í gegn með viðskiptum sínum við Vilhjálm. Af umfjöllun borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks um ýmis meginmál má hins vegar ráða, að þeim málum hafi verið betur fyrirkomið hjá meirihluta undir stjórn Dags B. Eggertssonar. Það lá fyrir í þeim meirihluta að engin ákvörðun yrði tekin um brotthvarf flugvallarins á þessu kjörtímabili, enda var það skilyrðið sem Ólafur setti þá, sjálfur ,,guðfaðir þess meirihluta, eins og hann titlaði sig sjálfur.Annað dæmi er um mislægu gatnamótin á mótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. Þau á að reisa, jafnvel þótt íbúar hverfisins hafi óskað eindregið eftir því að fyrst verði hafist handa við gerð stokksins við Lönguhlíð. Hvar er þá íbúalýðræðið sem F-listinn lagði svo ríka áherslu á? Íbúalýðræði var sannarlega gert hátt undir höfði í fyrri meirihluta, þar sem m.a. var ákveðið að fjölga fulltrúum hverfaráða úr þremur í sjö og stórauka fjárframlög til hverfisráða.
Umhverfismálin
Umhverfismálin voru Ólafi sérlega hugleikin. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið sá flokkur sem síst má treysta í umhverfismálum, en Ólafur kaus samt að gera það, þó hann hafi verið ,,klappaður úr Sjálfstæðisflokknum á landsfundi eins og hann orðaði það sjálfur einmitt vegna einarðrar afstöðu sinnar til umhverfismála. Ég fullyrði að umhverfismálin voru í tryggari höndum hjá fyrri meirihluta sem Vinstri-græn áttu aðild að en þau eru nú.Og það vafðist ekkert fyrir Ólafi að semja við Vilhjálm núna, þótt Vilhjálmur hefði dregið hann á asnaeyrunum árið 2006 þegar hann þóttist vera að semja við F-listann um myndun meirihluta á meðan hann gekk frá samningum við Framsókn.
Almannahagsmunum borgið?
Ólafur F. hefur líka lagt ríka áherslu á að hann sé maður almannahagsmuna. Ein mikilvægasta niðurstaða REI-skýrslunnar var sú að fyrirtæki í almannaþjónustu sem rekin eru fyrir almannafé eigi að lúta almennum reglum um opinbera stjórnsýslu og raunar var ætlun stýrihópsins að slá hlutafélagavæðingu OR út af borðinu, en Sjálfstæðismenn vildu ekki segja það fullum fetum. Telur Ólafur þrátt fyrir það að almannahagsmunir séu tryggðir í samstarfinu með Sjálfstæðisflokki?Borgarbúar eiga ekki að sætta sig við valdarán Vilhjálms og Ólafs F. Það er augljóst að það ríkir algjör glundroði í herbúðum Sjálfstæðismanna, Sexmenningarnir eru afar ósáttir við framgöngu Vilhjálms, enda samdi hann um samstarfið við Ólaf F. án þess að þau fengju vitneskju um það fyrr en á síðustu stundu. Sexmenningarnir létu sig hafa það að ganga undir það jarðarmen, en óánægja og sundrung blasir við.
Reykjavík, 9. febrúar 2008
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:07 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.