Eftirá að hyggja

Þá er búið að kjósa.  Íslandshreyfingin fékk því miður ekki þingmenn kjörna, en hefði fengið tvo menn kjörna ef mörkin hefðu ekki verið færð jafn hátt og raun ber vitni.  Áður náðu flokkar tveimur mönnum á þing með 3% fylgi.  Þessu hefur verið breytt með lögum þannig að nú þarf að ná 5% á landsvísu til að ná inn manni.  Þetta er óeðlilega hár þröskuldur sem flokkarnir sem fyrir eru hafa reist til að verja sitt vígi, ef svo má að orði komast.  Svona há mörk þekkjast ekki á hinum Norðurlöndunum.  Sem dæmi má nefna að mörkin eru 2% í Danmörku.  Annar þröskuldur er sá, að það er afar erfitt fyrir hugsjónafólk sem þarf að greiða kosningabaráttuna úr eigin vasa, að keppa á auglýsingamarkaði við flokka sem hafa skammtað sér hundruðir milljóna úr ríkissjóði til kosningabaráttunnar.  Það er sannarlega ójafn leikur.   

 

Gaf Íslandshreyfingin ríkisstjórninni líf?


Það er fráleitt, sem sumir hafa viljað halda fram, að Íslandshreyfingin hafi gefið ríkisstjórninni líf með framboði sínu.  Ætla má, miðað við stöðu Íslandshreyfingar hægra megin á miðju stjórnmálanna, að framboð hennar hafi frekar komið í veg fyrir að þeir 6000 kjósendur sem kusu Íslandshreyfinguna, kysu stjórnarflokkana.  Reyndar höfðu örfáir þeirra kosið Vinstri græna áður, en það var eingöngu vegna þess að ekki bauðst flokkur hægra megin við miðju sem lét sig umhverfismálin miklu varða. 

Það er verulegt áhyggjuefni hversu miklu skoðanakannanir ráða um framvindu stjórnmálanna hér á landi. Ef flokkar mælast ekki vel í skoðanakönnunum fælir það fylgi frá.  Þá er hamrað á því að fólk eigi ekki að kasta atkvæðum sínum á glæ.  Í öðrum löndum tíðkast að banna skoðanakannanir í viku til tíu daga fyrir kosningar vegna þess að þær eru skoðanamyndandi.  Það hlýtur að verða skýlaus krafa að framkvæmd lýðræðis sé ekki með þeim hætti að það viðgangist að birta skoðanakannanir fram á kjördag.   

 

Framsókn hrifsar völdin þrátt fyrir afhroð

Nú er beðið í ofvæni eftir því hvernig stjórnarmyndun verður.  Alltaf skal Framsókn enda í lykilstöðu.  Þrátt fyrir að Framsóknarflokkurinn hafi beðið afhroð og formaðurinn ekki náð kjöri á þing, heldur ríkisstjórnin.  Allir helstu forkólfar Framsóknar voru búnir að lýsa því yfir dagana fyrir kosningar að þeir færu ekki í stjórn ef úrslitin yrðu í samræmi við skoðanakannanir sem sýndu að stórtap var í uppsiglingu.  En þegar á hólminn er komið snúa þau öll við blaðinu og eru alveg til í að hanga á völdunum eins og hundur á roði með eins manns mun.Þetta er erfið staða fyrir Geir Haarde, því ef hann afþakkar samstarfið við Framsókn, þá getur Framsókn farið í samstarf með R-lista flokkunum og skilið Sjálfstæðisflokk eftir úti í kuldanum.  Framsókn er alltaf opin í báða enda.  En Framsóknarflokkurinn má sannarlega vara sig, því íslenskir kjósendur eru löngu búnir að fá nóg af því að hafna flokknum í kosningum en sjá hann hrifsa öll völd þrátt fyrir það.  Í borginni gerðist þetta síðast, þar sem Framsókn fékk minnstan stuðning kjósenda, aðeins 6% atkvæða og einn mann kjörinn, en hefur helmingsvöld í borginni þrátt fyrir það!   

 

Horft til framtíðar

Íslandshreyfingin er fullmótaður stjórnmálaflokkur sem mun láta sig þjóðfélagsmál varða héðan í frá sem hingað til.  Ég vil að lokum færa þeim kjósendum sem studdu Íslandshreyfinguna bestu þakkir og einnig því frábæra fólki sem ég hef kynnst í starfi Íslandshreyfingarinnar fyrir ótrúlega óeigingjarnt starf og vænti góðs samstarfs áfram.  Íslandshreyfingin á mikið hlutverk fyrir höndum við að standa vörð um náttúru Íslands og öflugt atvinnu- og efnahagslíf í landinu, bæði á sveitarstjórnarvettvangi sem og á landsvísu.   

 

Margrét Sverrisdóttir varaformaður Íslandshreyfingarinnar          


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: ragnar bergsson

Margrét ég vil að þú skýrir fyrir kjósendum frjálslynda hvað það var í stefnu flokksins sem þér hugnaðist ekki. Ég fæ bara engan botn í þetta hjá þér þetta var skelfilegt frumhlaup. Ég tók vel eftir því þegar á þessu stóð að moggin réri vel undir. Annað hvort léstu nota þig af sjálfstæðismönnum eða þú lést skapmuni þína hlaupa með þig í gönur. Sjáðu nú afleiðinguna í stað þess að fella ríkisstjórnina og líklega á leið í ráðherrastöðu leiðir þú sjálfstæðismenn til valda. Ja mikil er ábyrgð þín Margrét mín .

ragnar bergsson, 15.5.2007 kl. 21:29

2 identicon

Sæl Margrét. Frábær flokkur hjá ykkur og með góð málefni. Ég hefði kosið hann ef þú værir formaður flokksins.

Eitt sem þú verður að taka inn í myndina og það er að þrátt fyrir að 5% markið þekkist ekki í öðrum Norðurlöndum, þá búa líka mun fleiri í þeim löndum og því kannski ekki marktækt að bera það saman :)

Nú er aðal prófið eftir, getur flokkurinn haldið áfram og boðið fram eftir 4 ár? Ef hann heldur áfram næstu 4 árin, þá hefur hann sannað tilverurétt sinn og að þetta er alvöru flokkur en ekki tímabundin flokkur með eitt málefni. Nú er kominn tími fyrir ykkur að setjast niður og skapa ykkur langtímastefnu og vinna í því að byggja flokkinn upp svo fólki átti sig á því næst að hér er kominn flokkur sem vert að kjósa. Flokkur sem hefur ekki bara eitt málefni eins og Ómar hefur stundum gefið aðeins of mikið í skyn að undanförnu.

Svo þarft þú að gera kröfu um formannsstöðu innan flokksins, það mun styrkja flokkinn til muna!

Kolbeinn Karl Kristinsson (IP-tala skráð) 15.5.2007 kl. 23:05

3 Smámynd: Baldvin Jónsson

Hvaða hvaða.  Í fyrsta lagi þá verð ég að segja að megin ástæða þess að ég heillaðist af Íslandshreyfingunni í upphafi var sú að hreyfingin er leidd af fólki sem hefur hugrekki til að fylgja sannfæringu sinni. Ómar búinn að setja allt sitt undir í baráttunni fyrir framtíð lands og náttúru og Margrét fylgdi hjarta sínu og steig út úr "örygginu" í FF sem var það sem hjarta hennar bauð henni.  Það að til séu pólitískir leiðtogar hér á klakanum sem hafa þetta hugrekki til að bera er eitthvað sem ber að hrósa sérstaklega fyrir.

Margrét getur ekki verið gerð ábyrg fyrir því að Kaffibandalagið hélt ekki styrk sínum og stefnu og felldi ríkisstjórnina.  Ef Kaffibandalagið hefði sýnt þann karakter sem þarf til að sigra, er ég þess fullviss að stjórnin væri fallin.

Nú er aðalprófið já, nú höfum við 4 ár framundan til að byggja upp afl í íslenskum stjórnmálum sem getur haft raunverulega áhrif. Við erum ekki eins málefnis flokkur eins og svo margir virðast trúa. Kíkið bara á stefnu okkar á http://www.islandshreyfingin.is  Það er að falla í gildru Sjálfstæðismanna að trúa því. Þeir hafa lagt mikið á sig við að sannfæra fólk um ótrúverðugleika okkar, sem framboðs með aðeins eitt málefni.  Lætur þú þá stýra því hverju þú trúir??

Hvort Margrét eða Ómar eða einhver annar verður formaður hreyfingarinnar ræðst væntanlega af kosningu þar um innan hreyfingarinnar. Nú höfum við nefnilega nægan tíma til að byggja okkur upp sem stjórnmálaafl eftir hefðbundnum leiðum.

Baldvin Jónsson, 16.5.2007 kl. 09:53

4 Smámynd: ragnar bergsson

Þetta er steindauður flokkur frá upphafi ég veit þó að Ómar er trúr hjarta sínu en það verður ekki sagt um suma sem eftir fylgja.

ragnar bergsson, 17.5.2007 kl. 14:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband