2.5.2007 | 23:45
Hlutdrægir sjónvarpsþættir
Eftirfarandi grein mín birtist í Blaðinu í gær og hefur vakið mikla athygli og hörð viðbrögð. Ég vil ítreka að megininntak greinarinnar er að sjónvarpsþættir með yfirheyrslum pólitískra fulltrúa eru hlutdrægir og ekki líklegir til að efla áhuga fólks á þátttöku í pólitík. Athugasemdir um pólitíska fortíð spyrla voru meintar sem gagnrýni á að of margir þeirra eigi sér einsleita, pólitíska fortíð. Þetta á auðvitað ekki við um alla og átti allra síst að vera persónuleg árás á einstaka fréttamenn. MSv
Nú sem fyrr, í aðdraganda kosninga, keppast fjölmiðlar við að yfirheyra fulltrúa stjórnmálaflokkanna um stefnu þeirra í öllum helstu málum. Kapp sjónvarpsstöðvanna var raunar slíkt, að farið var af stað með umræðuþætti í öllum landshlutum mörgum vikum áður en þurfti að tilkynna framboð samkvæmt lögum um kosningar. En þetta vinnulag gefur gömlu flokkunum óneitanlega mikið forskot á kostnað nýrra framboða. Ég leyfi mér að fullyrða að þessir sjónvarpsþættir hafi mjög neikvæð áhrif á nýliðun í pólitík, því það er hreint ekki auðvelt fyrir nýtt fólk, sem er alveg óvant kastljósi fjölmiðlanna, að mæta í þessar þriðju gráðu yfirheyrslur. Ýmsum finnst þetta einn stærsti þröskuldurinn varðandi það að taka að sér að leiða lista.
Uppstilling hlutdræg
Uppstilling fulltrúa flokkanna í þáttunum er mjög hlutdræg. Stjórnarliðarnir tveir, fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar, sitja jafnan vinstra megin á sviðinu, frá áhorfendum séð, og hafa rúmt um sig. Fulltrúar stjórnarandstöðu og annarra framboða eru hins vegar allir settir saman hægra megin og af því sviðið er smátt, sitja þeir mjög þétt og virka heldur ámátlegir miðað við fulltrúa stjórnarflokkanna. Þetta kemjur illa út fyrir stjórnarandstæðingana og auk þess vill það verða svo að stjórnarliðar fá meiri tíma til að tjá sig af því umræðunni er vísað til skiptis milli þessara tveggja misstóru hópa á sviðinu. Stundum standa fulltrúar flokkanna reyndar við hringborð, en sú uppstilling er heldur óhagstæð konum, sem ofast eru talsvert lægri í loftinu en karlar. Karlarnir virðast þá óhjákvæmilega valdsmannslegri.
Spyrlar hlutdrægir
Svo er það hlutur spyrlanna. Það vita allir, að þeir sem spyrja spurninganna í þessum þáttum eru innvígðir og innmúraðir í stjórnarflokkana. Þetta fólk er örugglega ekki flokksbundið í dag, starfs síns vegna, en sum þeirra hafa ýmist gegnt stöðum formanna Sambands ungra sjálfstæðismanna á sokkabandsárum sínum, verið í stjórn Vöku í Háskóla Íslands, eða verið í sérverkefnum fyrir stjórnarflokkana og hafa við ýmis tækifæri látið berlega í ljós hver pólitísk afstaða þeirra er. Stundum er framkoma þeirra við fulltrúa flokka nánast grimmdarleg og það er ekkert sérlega aðlaðandi sjónvarpsefni. Sem dæmi má nefna, að kona ein mætti sem fulltrúi Vinstri grænna í þátt um samgöngumál. Hún hafði aldrei fyrr mætt í beina útsendingu í sjónvarpi en stóð sig ljómandi vel framan af. Spyrillinn hefði mátt taka tillit til þess að þarna var óþekktur fulltrúi sem varla gæti verið vanur því að koma fram í sjónvarpi. En það var öðru nær. Hann sagði við hana að fyrst Vinstri græn vildu forgangsraða í samgöngumálum, þá væri gaman að fá að vita hvað þau teldu að ætti að mæta afgangi. Henni varð svarafátt, enda er það væntanlega svo að þegar maður forgangsraðar þá varðar mann minnst um það sem á að mæta afgangi. Mér finnst ekki eðlilegt að beita nýliða í pólitík sömu hörku og t.d. samgönguráðherra sem hefur verið í eldlínunni í pólitík í hartnær tvo áratugi.Þar að auki er það kolvitlaus mælikvarði á það fólk sem býður sig fram sem fulltrúar almennings hvernig því gengur að svara hraðaspurningum!
Þeir sem fyrir eru skulu vera áframAð lokum vil ég benda á að þeir flokkar sem fyrir eru hafa sannarlega búið í haginn fyrir sjálfa sig. Þeir hafa skammtað sér hundruðir milljóna með lögum um fjármál flokkanna og hafa því úr miklu að moða á meðan ný framboð eru rekin á yfirdrætti frambjóðendanna sjálfra. Svo var líka sett í lög að ný framboð yrðu að ná 5% fylgi til að ná manni á þing. Eina markmiðið var að hækka þröskuld nýrra framboða í von um að þau næðu ekki árangri. Þar með verður enn minni endurnýjun í stjórnmálum og gömlu flokkarnir festa sig enn frekar í sessi.
Margrét SverrisdóttirHöfundur skipar efsta sæti á lista Íslandshreyfingarinnar í Reykjavík norður
Skoðið www.islandshreyfingin.is
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:51 | Facebook
Athugasemdir
Held því miður að það sé alldrei strerkur leikur að ráðast á fjölmiðla sem pólitíkus. Sérstaklega í aðdraganda kosninga þegar flokkurinn okkar stendur svona tæpt.
Ekki það að þetta sé einhver árás en svona gagnrýni kannski frekar.
Hákon Unnar Seljan Jóhannsson, 3.5.2007 kl. 01:28
Ég tek undir með þér. Þessi töffaraskapur er skelfilega leiðinlegur. Spurningarnar eru svo oft út í hött: Hvernig er það Margrét, voruð þið ekki of sein? - Til hvers er þessi spurning eiginlega og hvað ætlar spyrill að laða fram annað en vandræðagang og vesen. Hvorki spurningin né svarið vekja nokkurn einasta áhuga hjá mér og sennilega ekki öðrum kjósendum. Þess vegna er ég alveg hissa á ykkur stjórnmálamönnunum að svara ekki svona lokuðum spurningum bara pent og smekklega: Jú eða Já eða Nei. Og bíða svo átekta. Hver verður þá að gjalti? Spyrillinn lendir í vandræðum og þarf að redda sér en ekki svarandinn. Veistu það Magga að það er búið að leiða ykkur hvað eftir annað í þessa gildru. Þið gerið öll þau mistök að taka á ykkur ábyrgð sem spyrlunum ber. Þeir eiga aldrei að spyrja spurninga þar sem hægt er að komast upp með já eða nei svar. Við könnumst öll við gamla þreytta grínið sem Spaugstofan gerir stundum að gömlu góðu þáttunum "Maður er nefndur". Þetta gengur auðvitað ekki.
Pétur Tyrfingsson, 3.5.2007 kl. 01:56
Hverjir eru þessir spyrlar sem hafa verið Formenn SUS? Það væri ágætt að þú svaraðir því bara en værir ekki að dylgja á þennan hátt eða kæmir bara með nöfn.
Er það þín meining að menn megi ekki vinna á fjölmiðli sem hafa verið skráðir í stjórnmálaflokk? Eru fleiri starfsstéttir sem eru á bannlista eða bara fjölmiðlamenn?
TómasHa, 3.5.2007 kl. 02:00
Á þessi 5% regla ekki við öll framboð - bæði ný og gömul. Hefur oft komið upp í umræðunni að skv skoðanakönnunum hafi Framsókn þurft að óttast að ná ekki manni á þing þar sem þeir næðu ekki 5% fylgi .... það er þá röng túlkun hér að þetta sé einhver atlaga að nýjum flokkum sem mæta til leiks korter í kosningar.
Harpa (IP-tala skráð) 3.5.2007 kl. 11:42
Hvaða spyrlar í þessum þáttum innvígðir og innmúraðir í stjórmálaflokka ?
Hvaða spyrlar í þessum þáttum hafa verið formenn SUS ? ( þú segir sum )
Jens Sigurjónsson, 3.5.2007 kl. 11:58
Mig langar að benda á það að Vaka félag lýðræðis sinntra stúdenta er ekki hluti af Sjálfstæðisflokknum. Ég sit í stjórn Vöku til að mynda og er engan vegin í Sjálfstæðisflokknum. Vaka er breiðfylking og meðlimir hennar hafa afar mismunandi skoðanir, t.d. er Oddviti okkar yfirlýst vinstri manneskja. Vaka er hagsmunafélag stúdenta og berst einmitt gegn því að stúdentaráð sé tengt ákveðnum stjórnmálaflokk, enda mikilvægt að ráðið geti starfað sem þrýstiafl óháð hverjir eru í ríkisstjórn.
Vildi bara koma þessu á framfæri.
Sigrún Ingibjörg Gísladóttir, 3.5.2007 kl. 12:10
Frábær grein hjá þér, allt sem þú sagðir er fullkomnlega satt. Ég var til dæmis á báðum Kastljósborgarafundunum og þá sneri spyrillinn sér ítrekað frá fulltrúum stjórnarandsstöðu og íslandshreyfingar en spurði stjórnarliða fullt af spurningum og leyfði þeim að mala mikið. En Margrét ég vona svo sannarlega að þú komist inn í RN-kjördæmi...:D Gangi þér vel.
Daníel Haukur (IP-tala skráð) 3.5.2007 kl. 15:47
Getur ekki verið að lítið fylgi sumra flokka og hreyfinga sé vegna einhvers annars en hlutdrægna sjónvarpsþátta? Að hvaða leyti hefði Íslandshreyfingin til dæmis getað ábyrgst meira fylgi ef fulltrúar þeirra í þáttunum hefðu staðið vinstra megin og virkað hærri ... ?
Þetta er alltof barnalegt finnst mér. Bara svo það sé á hreinu, þá er ég ekki stuðningsmaður stjórnarflokkanna og vill breytingar í vor. En mín ósk um "nýliðun í pólitík" felst í einstaklingunum - ekki endilega nýjum framboðum. Ég er ekki hrifinn af Frjálslynda flokknum og "studdi" þig Margrét í því máli (bara svona einn með sjálfum mér, því þannig séð er ég ekki aktívur áhugamaður um pólitík), þegar brotthvarf þitt úr flokknum fékk alla athygli fjölmiðla.
En einhvern veginn finnst mér þessi Íslandshreyfing ekki vera sú hreyfing sem á að bjarga málunum. Spurningin um hvort þið hafið verið of sein á fullkomlega rétt á sér! Kannski þurfið þið tíma og komið endurnærð og sterk inn í kosningar eftir 4 ár. Á meðan getiði starfað sem þrýstihópur sem pressar reglulega á alþingi um þau mál sem þið standið fyrir. Og gert ykkur sjáanlegri og mögulega náð inn fólki. En ég sé bara ekki hvernig það á að gerast núna, með svo skömmum tíma. Og þetta er alls ekki fjölmiðlum að kenna!!
Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 3.5.2007 kl. 18:07
Það er einhver sannleikur í þessu en það er líka mjög erfitt og nánast ómögulegt fyrir spyrjendur að vera algerlega hlautlaus. Þeir þurfa að gæta hagsmuna kjósenda og ganga á eftir frambjóðendum þar sem veika hlekki er að finna, hvort sem það eru stjórnarliðar, stjórnarandstöðuliðar eða nýliðar. Stjórnmál eru miskunarlaus í eðli sínu því þau eru dauðans alvara. Það er eðlilegt að gera kröfur til nýliða og það er ekki nóg að stofna stjórnmálaflokk 3 mánuðum fyrir kosningar og ætlast til að hafa öll svör.
Hins vegar hefur mér sýnst að t.d. Ómar Ragnarsson hafi fengið sérstaka meðferð hvað kostnaðarspurningar varðar. Mér hefur virst að hann fái mun oftar spurningar um kostnað tillagna en aðrir frambjóðendur og þá sérstaklega frambjóðendur stjórnarflokkanna. Þetta getur ekki talist alveg sanngjarnt en á hinn bóginn er skiljanlegt að það sé nokkur tortryggni gagnvart nýliðum og þeir þurfi að ganga í gegnum vissan eldvegg áður en þeir fá að njóta trausts.
Svo fer þetta eftir mælikvarðanum. Mikil áhersla er lögð á að menn kunni að reikna dæmin (sem er vissulega nauðsynlegt) en það er ekki að sama skapi krafist þess að menn komi með frjóar hugmyndir. Ómar hefur nóg af þeim og alþjóðlegur flugvöllur á Barðaströnd er dæmi þess. Þurfum við ekki stjórnmálamenn sem þora að hugsa út fyrir rammann? Þó að Ómar hafi ekki getað svarað því hversu dýr sú framkvæmd geti orðið, er rétt að gefa honum prik fyrir frjóa hugsun sem gæti leitt til góðrar lausnar.
Nýju lögin um fjáröflun stjórnmálaflokkana voru framfaraspor því þau minnka talsvert líkur á illa fengnu fé og óhófi í kosningarbaráttunni. Hins vegar finnst mér 5% reglan ekki réttlát og er sammála þér í því.
Annars væri nú vinalegt ef þú Margrét "óhreinkaðir" þig aðeins með því að taka þátt í umræðum á eigin bloggi. Kannski myndi vakna meiri áhugi á Íslandshreyfingunni fyrir vikið.
Svanur Sigurbjörnsson, 3.5.2007 kl. 18:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.