17.4.2007 | 11:35
Evrópusambandið - breyttar forsendur
Mér hefur verið núið því um nasir nýverið að ég hafi breytt um afstöðu gagnvart inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Það er vegna þess að fyrir nokkrum árum skrifaði ég grein um afstöðu mína til Evrópusambandsins þar sem ég var mótfallin inngöngu Íslands í ESB. Ekki löngu áður en ég skrifaði hana hafði Franz Fischler, þáverandi yfirmaður sjávarútvegsmála Evrópusambandsins, talað tæpitungulaust varðandi undanþágur til handa Íslendingum. Hann útilokaði varanlega undanþágu fyrir Ísland frá sjávarútvegsstefnu sambandsins. Hann útilokaði að Íslendingar gætu gengið í Evrópusambandið og jafnframt haldið fullum yfirráðum yfir sjávarauðlindinni. Fischler sagði hreint út að við myndum missa yfirráð okkar yfir miðunum í kringum landið frá 12 mílum að 200 mílum ef við gengjum í sambandið. Það lá sem sagt fyrir að formleg yfirráð yfir Íslandsmiðum yrðu í höndum framkvæmdastjórnar ESB ef kæmi til aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Í ljósi þessara upplýsinga varaði ég eindregið við inngöngu í Evrópusambandið eins og staðan var þá, enda værum við þar með að gefa frá okkur fullveldi og sjálfstæði Íslands.
Hvað hefur breyst?
Ég hef alltaf haft þann fyrirvara að á meðan stefna Evrópusambandsins væri óbreytt varðandi yfirráð yfir okkar auðlindum kæmi aðild Íslands að ESB ekki til greina. En nú hefur tónninn breyst og meira að segja Þorsteinn Pálsson fyrrum forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins heldur því fram að við getum vænst þess að halda yfirráðum yfir fiskimiðunum okkar.Önnur breyting á högum Íslendinga er sú að eftir brotthvarf varnarliðsins hafa ráðamenn leitað hófanna varðandi samninga um varnir. Það hlýtur að teljast eðlilegast að hugað sé að samstarfi við aðrar Evrópuþjóðir, ekki síst nágrannalöndin Noreg og Danmörku, um ýmis verkefni á sviði öryggismála. Þriðja breytingin er sú að sá óstöðugleiki sem hefur einkennt krónuna um langa hríð hefur valdið því að við virðumst aðeins eiga um tvennt að velja: Að halda áfram með krónuna og flotgengisstefnuna eða taka upp evru með aðild að Evrópusambandinu.
Efasemdir
Við Íslendingar erum sannarlega Evrópuþjóð en þrátt fyrir það hef ég ennþá mínar efasemdir gagnvart Evrópusambandinu. Lýðræði innan Evrópusambandsins hefur verið gagnrýnt á þeirri forsendu að þar vanti grasrótartengingu, þ.e. lýðræðið kemur ekki frá grasrótinni heldur er yfirborðskennt og fjarlægt almenningi í þeim löndum sem tilheyra ESB. Það er langur vegur frá almenningi í hverju aðildarlandi til ákvarðana framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Þá má einnig velta því fyrir sér hvernig Evrópusambandið mun þróast næstu áratugina. Hversu langt í suður nær hin nýja Evrópa Evrópusambandsins? Lengra en til Tyrklands? Og hversu langt í austur teygir hin nýja Evrópa sig? Alla leið til Kamchatka í Rússlandi? Þurfa komandi kynslóðir á Íslandi hugsanlega að ganga í samevrópskan her? Það er ástæða til að velta þessum atriðum fyrir sér, ásamt fjölmörgum öðrum.
Stefna Íslandshreyfingarinnar
Íslendingar geta ekki hugað að inngöngu í ESB nema uppfylla skilyrði til þess, en þau uppfyllum við ekki nú. Í stefnuskrá Íslandshreyfingarinnar segir að nota skuli næsta kjörtímabil til að gera úttekt á kostum og göllum þess að Ísland gangi í Evrópusambandið. Í þessu felst að við munum skilgreina samningsmarkmið okkar og vega og meta kosti og galla. Þegar sú úttekt liggur fyrir er hægt að hefja samningaviðræður og eftir að niðurstaða er fengin þarf þjóðaratkvæðagreiðslu um hana. Hjá Eystrasaltslöndunum tók þetta ferli næstum áratug og það má ætla að það taki varla skemmri tíma fyrir okkur. Algjört skilyrði verður að við höldum fullum yfirráðum yfir okkar auðlindum.
(Viðhorfsgrein í Fréttablaðinu 17. apríl)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:45 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er tilbúningur það hafa engar forsendur breyst varðandi Evrópusambandsaðild. Hins vegar hefur fólk fulla heimild til að skipta um skoðun. Ég er þeirrar skoðunar og hef verið að Evrópusambandsaðild komi alltaf til skoðunar en þú varst eindreginn Evrópuandstæðingur. Þess vegna eru þessi sinnaskipti einkar athygliverð og ekki í samræmi við fyrri málflutning.
En er það ekki ansi mikið á tveim mánuðum að skipta um skoðun í þrem stór málum. Nú samþykkir þú að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýrinni. Þú vilt ganga í Evrópusambandið en fyrir nokkru sagðir þú að það væru landráð að sækja um aðild og þú vilt að sæfgreifarnir eigi kvótann. Hvernig skýrir þú þetta?
Einhvern veginn sé ég ekkert vitrænt samhengi í þessum málflutningi frekar en oft áður.
Jón Magnússon, 17.4.2007 kl. 22:56
Jón Magnússon lögfræðiverja, er alla vega ein góð ástæða fyrir því að ég kýs að kjósa aldrei neitt sem að hann kemur nálægt. Það er bara mitt val, mín skoðun sem tiltölulega frjálslyndur hægri maður í pólitík.
Ég er samt ekkert sannfærður heldur um að ég kjósi að kjósa þig eða þitt framboð, en ég virði rétt þinn til skoðanaskipta, & miðað við allann þennann skríl af bloggvinum sem að greinilega eru ekkert að kveikja á kertinu fyrir því að það sé réttur einstaklíngsins að breyta um skoðun, ef að þeim finnst það líklega rétt, þá legg ég eitt lítið lóð á þína póltísku vogarskál.
S.
Steingrímur Helgason, 19.4.2007 kl. 01:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.