8.3.2007 | 16:32
Hremmingar og stemmningar
Stuttri heimsókn til London lokið. Þetta var frábær ferð og ég naut þeirra forréttinda að vera með stórum og skemmtilegum hópi kvenna.
Mér sýnist ég ekki hafa misst af miklu í pólitíkinni hérna heima síðustu tvo sólarhringa. Framsóknarflokknum hefur tekist að snúa upp á handlegginn á samstarfsflokknum vegna auðlindaákvæðisins. Alltaf áhugavert að sjá menn hrökkva upp af værum blundi rétt fyrir kosningar.
Frjálslyndi flokkurinn á ekki sjö dagana sæla. Nú hefur leiðtogi þeirra á Akranesi yfirgefið flokkinn og það hlýtur að teljast áfall, sama hvernig Magnús Þór bölsótast. Hann veit ósköp vel og viðurkenndi raunar í samtali við Skessuhorn- að Karen Jónsdóttir sótti það mjög stíft að kona frá Akranesi skipaði 2. sæti á lista Frjálslyndra í Norðvesturkjördæmi og Magnús Þór studdi þá tillögu. En svo sneri hann við blaðinu þegar Kristinn H. Gunnarsson gekk til liðs við flokkinn og segir núna að pólitískt landslag hafi breyst. Þetta sætti Karen sig auðvitað ekki við. Hringlandahátturinn í Magnúsi Þór hefði hins vegar ekki átt að koma nokkrum manni á óvart.
Frá öðrum hremmingum Frjálslynda flokksins var sagt í fréttum RÚV í gær.
Frétt RÚV er svohljóðandi:
Iðnþing: Frjálslyndum úthýst
Engum fulltrúa Frjálslynda flokksins er boðið að taka þátt í iðnþingi Samtaka iðnaðarins sem haldið verður á föstudaginn í næstu viku.
Á þinginu munu m.a. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, og Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, koma fram sem álitsgjafar. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins er Illugi Gunnarsson.
Þingið ræðir hvernig velsæld verður áfram tryggð á Íslandi. Í bréfaskriftum milli frjálslyndra og Samtaka atvinnulífsins, sem fréttastofa hefur undir höndum, kemur fram að samtökin hafi við skipulagningu þingsins gert ráð fyrir að Margrét Sverrisdóttir kæmi fram fyrir hönd frjálslyndra en hún sé nú gengin úr flokknum og ekki sé hægt að breyta dagskrá þingsins.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
og finnst þér þetta eðlileg vinnubrögð Margrét?
Katrín, 8.3.2007 kl. 17:16
Margrét.
Þessi ummæli þín eru þér ekki til mikils sóma og þú tjáir þig hér gegn betri eigin vitund. Ég veit ekki til að ég hafi nokkru sinni bölsótast yfir því að Karen Jónsdóttir hafi gengið í Frjálslynda flokkinn nú í janúar til að styðja mig í varaformannskjöri gegn þér. Ekki hef ég heldur bölsótast yfir því að hún hafi kosið að segja sig aftur úr flokknum til að undirstrika andstöðu sína við að Kristinn H. Gunnarsson í öðru sæti listans í Norðvesturkjördæmi sem er ákvörðun innan flokksins sem nýtur yfirgnæfandi stuðnings flokksfélaga í kjördæminu. Ég sætti mig við þá niðurstöðu því það er nú þannig með mig ólíkt þér, að ég sætti mig við niðurstöðu meirihlutans og vinn bara úr því eftir bestu getu innan flokksins en segi mig ekki úr honum í fýlukasti og snýst svo gegn mínum gömlu félögum og vinum.
Þú veist það mæta vel að Karen var alltaf "óháð" á framboðslistanum í vor og þó hún gangi aftur úr flokknum þá breytist ekkert í meirihlutasamstarfinu á Akranesi. Ég er til að mynda enn varamaður hennar í bæjarstjórn, og fólkið sem var með okkur á listanum vinnur áfram að bæjarmálunum og verður með okkur í kosningabaráttunni sem nú fer í hönd.
Og þér ferst nú ekki að tala um hringlandahátt hjá fólki þegar þú hefur sýnt meira en nóg af slíku sjálf. Hvað varðar málefni tengd iðnþingi þá eru þau mál í skoðun eins og ótal margt annað sem tengdist störfum þínum á meðan þú varst innan Frjálslynda flokksins.
Og hafðu það.
Magnús Þór
Magnús Þór Hafsteinsson (IP-tala skráð) 8.3.2007 kl. 18:21
hehehe af hverju hlæ ég alltaf er ég sé athugasemdir frá Magnúsi á blogginu alltaf vörn alltaf skætingur og allir ófullkomnir nema hann grey kallinn
Guðmundur H. Bragason, 8.3.2007 kl. 19:52
Er verið að rengja störf fyrrverandi framkvæmdastjóra þarna í niðurlaginu? Kannski aðeins verið að impra á að þeim hafi ekki verið sinnt eins og skyldi. Lúalegt.
Ragnar Bjarnason, 8.3.2007 kl. 20:22
Því miður Margrét er þetta nú afskaplega léleg frétt að sjá má sem þú gerir þér hér mál úr, satt best að segja, einkum og sér í lagi sökum þess að tilgangurinn virðist sá að upphefja eigin persónu sem uno. Það atriði að Samtök Atvinnulífsins geti ekki breytt dagskrá er stórhlægilegt bókstaflega stórhlægilegt ekkert annað og þvi hér um EKKI frétt að ræða , eins og svo margar aðrar oft og iðulega.
kv.gmaria.
Guðrún María Óskarsdóttir., 8.3.2007 kl. 23:48
Sit hér eiginlega hálf stjörf eftir lestur pistils gömlu bekkjarsystur minnar. Hef fylgst vel með þér Margrét og oft verið nokkuð hrifin af stefnu og skrifum þínum, ekki síst eftir uppgjörið hjá ykkur í Frjálslyndum. Það er nú alltaf svo að sjaldan veldur einn er tveir deila, sökin er yfirleitt beggja, a.m.k af einhverju leyti. Ég er nú sannfærð um að fyrrum félagar þínir hafa ekki verið að fá "sanngjarna meðhöndlun" síðustu vikur. Mér finnst þú sýna það berlega að skotgrafahernaður er þitt "fag". Ég ætla svo sem ekki að vera í ráðgjafahlutverki en mér segir svo hugur að þú sért á góðri leið með að skjóta sjálfa þig í báðar fætur.
Hvað varðar Samtök Iðnaðarins þá sér hver heilvita maður í gegnum þann málflutning sem kemur fram. Maður veltir óneitanlega fyrir sér tengslum......
GBG (IP-tala skráð) 9.3.2007 kl. 00:19
Sæl Margrét
Ég er alveg hættur að botna í þér og þínum skrifum oft á tíðum.
Nánast öll þín skrif sem tengist frjálslyndum eru skrifuð af þér í einhverju fýlukasti, ég veit ekki til þess að þeir séu
að úthúða þér í fjölmiðlum, allavega ekki undanfarnar vikur.
þú ert gjörsamlega að skjóta þig í fótin með þessu háttalagi
reyndu nú að vera málefnaleg en ekki með einhvern skíthátt.
En annars finnst mér þú afskaplega sorgleg manneskja,
vona að þú jafnir þig
Steinar Guðgeirsson (IP-tala skráð) 9.3.2007 kl. 01:05
"If they are down, kick them"
ehm..
ég hefði nú sjáfur sleppt þessari grein. Hún virkar ekki mjög málefnaleg.
Púkinn, 9.3.2007 kl. 18:49
þú ert ómissandi í FF!
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 9.3.2007 kl. 22:55
Það sem mestu máli varðar nú er að eftir klofning frjálsa, virðumst við vera komin á upphafsreit. Það virðist vera okkar ær að kljúfa hvert annað og sídera endalausan titlingaskít. Sættir er eitthvað sem ekki er okkar stíll og nú fitna eingöngu púkarnir á framsóknaflór samfélags sem við saman hefðum svo vel getað lagað. Kv.Trausti Hólm.
Trausti Hólm Jónasson. (IP-tala skráð) 19.3.2007 kl. 14:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.