Úrelt fundaform borgarstjórnar og breytt merking hugtaka

Á fundi borgarstjórnar í gær, 16. janúar,  var meginumræðan um málefni heimilislausra.  Það setti óneitanlega svip á fundinn að þeir sem um var rætt, þ.e. heimilislausir, voru mættir á þingpalla og létu reyndar fremur ófriðlega.  Hins vegar leið mér hálfilla, því mér fannst við borgarfulltrúarnir svo skelfilega stífir og leiðinlegir.  Þarna voru menn mættir á pallana til að fylgjast með málflutningi um mál sem varðar þeirra daglega líf - sem er ákaflega erfitt -  og þeir tjáðu sig með frammíköllum eða lófataki.  Hvorugt er heimilt.  Þeir voru í sífellu minntir á að áheyrendur mættu ekki hafa sig í frammi. 

Fundir borgarstjórnar eru alltof ,,virðulegir" til að hægt sé að líða svona lagað, að því er virðist. Ég er hlynnt því að haldið sé í hefðir að flestu leyti, borgarfulltrúar klæði sig snyrtilega, hagi sér prúðmannlega og ávarpi hver annan af fyllstu virðingu.  Hins vegar finnst mér fundaformið vera úr sér gengið.  Væri ekki athugandi að almennir borgarar fengju tækifæri til að tjá sig?   Gæti það ekki verið skemmtilegt, þó það væri bara gert endrum og eins? 

Ég vil líka geta skýrt mál mitt með því að nota glærur.  Það virðist ekki vera inni í myndinni.  Frekar má ég ryðja útúr mér langloku-lýsingum á staðháttum sem enginn botnar í en að sýna það á skýrri yfirlitsmynd.  Hvað er að því að nota glærur á borgarstjórnarfundum og á Alþingi?  Það gæti jafnvel orðið til þess að einhver fundarmanna rumskaði!

Einnig má ég til með að nefna eitt atriði sem tengist þessari umræðu sem ég nefndi um heimilislausa.  Yfirskrift umræðunnar var: Umræða um málefni húsnæðislausra.  Allt í einu er búið að breyta hugtakinu ,,heimilislaus" sem hefur þýtt ,,á götunni" í ,,húsnæðislaus".  Þetta er hugtakabrengl sem einfaldar ekki umræðuna, því heilu fjölskyldurnar geta verið húsnæðislausar um lengri eða skemmri tíma án þess að vera heimilislausar, ekki satt?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Sverrisdóttir

Leiðindin, maður lifandi! Ég sat nokkra borgarstjórnarfundi fyrir Moggann fyrir mörgum árum. Ég hef aldrei verið jafn óskaplega dugleg við að skrifa niður hvert einasta orð, satt best að segja hamaðist ég stanslaust og var komin með skrifkrampa eftir fundina. Þetta var þó ekki af því að málefnin væru öll svo óskaplega forvitnileg, heldur af því að um leið og ég hætti að skrifa sótti á mig óskapleg syfja og doði. Valið var einfalt: Skrifa og skrifa, eða steinsofna.

Ragnhildur Sverrisdóttir, 17.1.2007 kl. 10:05

2 identicon

Þó að ég sé hvorki í sama flokki og þú né með sömu skoðanir þá hefuru lög að mæla varðandi það að sniðugt væri að koma einhverju kerfi í gagnið þannig að almennir borgarar fengu að tjá sig á alþingi og á borgarstjórnarfundum, þó í hófi. 

Líka þetta með glærushow.. brilliant hugmynd..

get reyndar ekki skrifað undir það að mér finnist borgarstjórnarfundir svæfandi einsog Ragnhildur segir.. sit hluta af borgarstjórnarfundum þegar ég hef tíma og nennu og oftast mjög áhugaverðar umræður..

Guðfinnur Sveinsson (IP-tala skráð) 18.1.2007 kl. 01:15

3 identicon

ég styð þig Margrét heilshugar, áfram fram veginn og öruggustu leið valin...

kv

Tryggvi

Tryggvi (tbee) (IP-tala skráð) 24.1.2007 kl. 01:23

4 identicon

Sæl Margrét

ég skora á þig að vera með í að byggja upp stjórnmálaafl sem hefur skýra stefnu í umhverfismálum að leiðarljósi og geti unnið með samtökunum Framtíðarlandið.

Gunnsteinn

Gunnsteinn Gíslason (IP-tala skráð) 30.1.2007 kl. 09:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband