11.1.2007 | 00:44
Sjálfstæðisflokkur og Framsókn tapa fylgi vegna RÚV-frumvarpsins
Ég finn að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur eru að tapa fylgi vegna afstöðu sinnar til Ríkisútvarpsins. Sérstaklega finnst mér eldra fólk vera ósátt við aðförina að Ríkisútvarpinu. Sumir þingmenn Sjálfstæðisflokks hafa jafnvel gengið svo langt að segjast vilja selja Ríkisútvarpið (Sigurður Kári og Pétur Blöndal). Ég leyfi mér að fullyrða að meirihluti Sjálfstæðismanna er á öndverðri skoðun. Framsóknarmenn þóttust lengi vel ætla að verja Ríkisútvarpið gegn einkavæðingaráformum, en hafa alveg svikið það - og ég leyfi mér að fullyrða að fjöldi Framsóknarmanna er ósáttur við það. (Þeir ósáttu eru líklega flestir þegar farnir úr flokknum, miðað við fylgistölur flokksins).
Ég er formaður samtakanna Hollvinir Ríkisútvarpsins. Ástæðan fyrir tilurð samtakanna árið 2002 voru m.a. hugmyndir um að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi. Við lögðum áherslu á að snúa vörn í sókn og efla Ríkisútvarpið svo það mætti áfram vera ríkisútvarp í almannaeign og hornsteinn menningar og lýðræðis í landinu. Ein meginskylda Ríkisútvarpsins skv. lögum er að það skal gæta fyllstu óhlutdrægni í frásögn, túlkun og dagskrárgerð. Það má eflaust deila um það hvort Ríkisútvarpinu tekst ávallt að rækja þessa skyldu. Hins vegar er óumdeilanlegt að fjölmiðlar í einkaeigu hafa engar slíkar skyldur! Þeir ákveða sjálfir hverjir fá að tjá sig og þeir geta birt efni að eigin geðþótta. Markmið einkareksturs er aðeins eitt: Að skila eigendunum fjárhagslegum hagnaði.Við þurfum þjóðarútvarp í eigu almennings sem er laust við þá fjötra sem fylgja því að vera rekið með arðsemiskröfuna eina að leiðarljósi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ertu ekki hér að beina spjótum þínum að vindmyllum, ágæta Margrét? Í hverju felst sú aðför að Ríkisútvarpinu, sem þú nefnir? Ég veit ekki betur en það sé yfirlýst stefna stjórnarflokkanna að Ríkisútvarpið verði EKKI einkavætt ...
Hlynur Þór Magnússon, 11.1.2007 kl. 08:41
Ekki get ég tekið undir þetta hjá þér, ég er sammála Hlyn hvað varðar vindmylluna. Ég fæ ekki skilið hvernig þú getur kallað RÚV þjóðarútvarp þegar það eru starfsmenn þess sem hafa stjórnað nánast öllu þar. Minni á að fréttatíminn hefur fallið niður vegna þess að starfsmenn voru að mótmæla. Ef Rúv á að gegna öryggishlutverki þá hefði það ekki gerst!
Hinsvegar tel ég að Rúv geti vel sinnt skyldum sýnum í óhlutdrægni í frásögn, túlkun og dagskrágerð hvort sem það heitir
Rúv, Rúv hf eða Rúv ohf. Fæ ekki séð hvernig fólk getur verið á móti því að minnka stofnanna brag RÚV með breytingum sem þessum, nýta skattpeninga okkar (hvort heldur sem um er að ræða í gegnum fjárframlög eða skylduáskrift) á betri veg en er nú gert, hvernig stendur til að mynda á því að 365 getur framleitt innlendan dagskrá á um og yfir helmingi lægra verði en Rúv gerir? Hvernig stendur á því að innheimtukerfi 365 er talsvert minna um sig og ódýrara í rekstri en innheimtudeild Rúv er? og svona mætti lengi telja! Öll viljum við samt hafa gott og öruggt "þjóðarútvarp" en það verður þá að standa undir nafni og ég sé ekki hvað "rekstrarformið" hefur með það að gera.
Óttarr Makuch, 11.1.2007 kl. 12:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.