Færsluflokkur: Bloggar
5.12.2006 | 16:03
Fyrsta bloggið mitt, Master-mind framaplottið og jólafundur í kvöld
Ég hef ekki bloggað hingað til, en svo virðist sem líf mitt gerist æ fjörugra og kannski vill stuðningsfólk mitt fylgjast með því helsta sem á dagana drífur. Ég er mjög þakklát og beinlínis hrærð yfir viðbrögðum sem ég hef fengið frá fólki um allt land eftir viðtalið við mig í Kastljósinu 3. des. Síminn hefur ekki stoppað, sms-skeytum rigndi inn og fólk er ótrúlega hlýlegt og hvetjandi.
Örfá dæmi úr tölvupóstinum mínum:
Sæl Margrét,vildi bara senda stutta kveðju.
Það var sérlega ánægjulegt að fylgjast með þér í sjónvarpinu í kvöld.
Óneitanlega tilbreyting að sjá stjórnmálamann sem maður treystir.
Um það voru allir á mínu heimili sammála.
Heil og sæl Margrét! Ég, við og okkar fólk stöndum með þér á þessum umrótartímum. Góður þáttur í sjónvarpinu. Flokkurinn væri stærri í Reykjaneskjördæmi ef þú værir þar.
Sæl Margrét! Þú þekkir mig nú ekki og ég fylgist nú ekki mikið með pólitík, en nú blöskrar mér framkoma sumra ónefndra þingmanna. Þú hefur staðið þig alveg frábærlega vel í öllu sem þú hefur tekið þér fyrir hendur. Oft þurft að vera í vörn, en alltaf svarað kurteislega og komið vel fram. Ég treysti þér.
Sæl Margrét. Þú stóðst þig frábærlega vel í Kastljósþættinum í gærkvöldi. Hvet þig eindregið til að bjóða þig fram til formanns í flokknum. Þú átt minn stuðning.
Langaði að senda þér þennan tölvupóst til að lýsa stuðningi við þig og þína afstöðu er varðar þetta mál. Eg tek fram að ég er ekki flokksbundinn og hef ekki verið en hef fylgst með þér í gegn um tíðinna. Stattu þig stúlka því þú hefur góðan og vandaðan málstað að verja. Bestu kveðjur, með ósk um gott gengi þitt í framtíðarstjórnmálum.
Vertu sterk, Margrét og láttu ekki draga úr þér kjarkinn - ein af dauðasyndunum sjö er öfundin og henni skýtur upp kollinum þegar e-r ber af eins og þú gerir! Svona nornaveiðar standa yfirleitt stutt en mjög mikilvægt að standa þær af sér!
Alveg á hreinu að þú hefur mikið persónulegt fylgi hef lýst því yfir oftar en einu sinni að ég styddi þig til hverra þeirra verka sem þú gæfir kost á þér er reyndar ekki einu sinni í sama kjördæmi.
Treysti því enn að þú komist á þing og hristir upp í þessum skápum! Baráttukveðjur!
En ég má til með að nota tækifærið hér og vísa á bug kenningum um að ég hafi búið til einhvern málefnaágreining til þess eins að sækjast eftir valdastöðu innan flokksins. Ég hef alltaf haft metnað til þess að vera í forystu flokksins - og reyndar verið í forystu. En málefnaágreiningurinn sem ég á að hafa búið til var öllum svo auðsær, að landsþekktur sjónvarpsmaður spurði strax flokksfélaga minn hvort það væri öruggt að mér félli málflutningur Jóns Magnússonar um múslima. Gárungarnir kalla þetta núna Master-mind framaplottið, en er það ekki ansi langsótt skýring að ég hafi reynt að skapa ágreining og látið segja mér upp störfum vegna þess ef ég ætlaði að sækja í valdastöðu sem allir hafa lengi talið sjálfsagt að ég sæktist eftir :)
Í kvöld fer ég á jólafund Kvenréttindafélags Íslands og Kvennasögusafnsins sem hefst kl. 20 á Kvennaheimilinu Hallveigarstöðum við Túngötu. Ég er varaformaður Kvenréttindafélagsins.
Þar verður fjallað um upphaf kvenréttindabaráttu á Íslandi og þátt karla (og kvenna!) í henni.
Þórunn Valdimarsdóttir rithöfundur les upp úr bókinni um Matthías Jochumsson, lesið verður upp úr bókinni um Ólafíu og Auður Styrkársdóttir forstöðumaður Kvennasögusafns Íslands fjallar um Hannes Hafstein og þátt hans í kvenréttindabaráttu.
Auk þess verða veitingar, tónlist, happdrætti og fleira. Ég hlakka til og vona að jafnréttissinnar láti sjá sig!
Bloggar | Breytt 6.12.2006 kl. 01:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)