Teigsskógur

Við vestanverðan Þorskafjörð er einstök náttúruperla, Teigsskógur. Skógurinn sá er á náttúruminjaskrá og verndargildi hans er óumdeilanlega miklu meira en annarra birkiskóga á Vestfjörðum. Þetta er víðáttumesti náttúrulegi birkiskógurinn á Vestfjörðum og mjög stór á landsvísu. Mannvirki eru sárafá og falla afar vel að landslagi og fornminjar eru nokkrar á svæðinu. Um er að ræða upprunalegan birkiskóg með afar fjölbreyttu gróðurfari og telja  sérfræðingar að skógurinn hafi nokkra sérstöðu í sýslunni og landshlutanum öllum hvað varðar tegundafjölda botngróðurs. Dýra- og fuglalíf er óvenju mikið enda er svæðið afskekkt  og náttúrufar fjölskrúðugt.

Síðustu ár hefur staðið nokkur styr um fyrirhugaða vegagerð um skóginn og sýnist sitt hverjum. Ég þekki af eigin raun hve slæmt ástand vega hefur verið í Barðastrandasýslu um árabil; ófærð á vetrum og varla fólksbílafært víða á sumrin vegna aurbleytu.  Um árabil hefur reyndar verið  brýn þörf á að stórbæta vegakerfið á Vestfjörðum öllum.  En það fór þó um mig þegar ákveðið var að leggja nýjan veg gegnum náttúruperluna Teigsskóg, því það er alls ekki sama hvernig að málum er staðið á því svæði.  Fyrirhugað vegastæði mun liggja eftir skóginum endilöngum og valda þar með stórspjöllum á þessum einstæða skógi svo og á náttúrunni allri.

Mótmæli náttúruverndarsamtaka

Skipulagsstofnun lagðist upphaflega gegn því að vegur yrði lagður um Teigsskóg, vegna þess að skógurinn væri á náttúruminjaskrá auk þess sem stofnunin taldi að vegur um skóginn hefði umtalsverð umhverfisáhrif. Vegagerð um skóginn samræmdist því illa lögum um náttúruvernd og gengi einnig í berhögg við stefnumörkun stjórnvalda um sjálfbæra þróun.  Þrátt fyrir það lagði fyrrverandi umhverfisráðherra, Jónína Bjartmarz, til að Vestfjarðavegur yrði lagður um Teigsskóg og sagði að sjónarmið varðandi umferðaröryggi hefðu ráðið mestu um þá ákvörðun sína.

Náttúruverndarsamtök og umhverfissinnar hafa mótmælt þessum áætlunum harðlega og eindregið óskað þess að Vestfjarðavegur verði fremur lagður í göng undir Hjallaháls og Gufudalsháls.  Sú leið væri albesti kosturinn með tilliti til náttúrunnar, styttingar leiðar og umferðaröryggis.  Hins vegar var sá kostur aldrei á borði umhverfisráðherra af því að hún var ekki skoðuð í mati á umhverfisáhrifum.  Þess vegna gat umhverfisráðherra ekki gert ráð fyrir göngunum í sínum úrskurði.

Sérfræðiálit

Eftirfarandi klausa er úr sérfræðiáliti Ásu L. Aradóttur vistfræðings um skóglendi í utanverðum Þorskafirði (Teigsskógi):

Birkiskógurinn við utanverðan Þorskafjörð eru með stærstu og heillegustu birkiskógum á Vestfjörðum (...).  Skógurinn er afar þéttur og mannvirki í honum eru lítt áberandi. Þá bendir allt til þess að skógurinn hafi náð sér vel eftir að dró úr beit á svæðinu og annarri nýtingu var aflétt af honum. Skógurinn er það þéttur að líklega er hann meira eða minna varinn fyrir beit og hefur hann yfirbragð nær ósnortins lands. Víðast nær skógurinn milli fjalls og fjöru og myndar ásamt fjörunni og hjöllunum landslagsheild, sem er einstök fyrir það hversu lítt áberandi mannvirki og áhrif nýtingar eru þar. Sem slíkur hefur Teigsskógur sérstöðu á Vestfjörðum og á landsvísu.

Enn einu sinni má spyrja:  Hvers virði er óspillt náttúra í landi sem vill efla ímynd sína sem land stórbrotinnar og fagurrar náttúru?  Vilja landsmenn eyðileggja skóg sem er á náttúruminjaskrá?  Eyðilegging á Teigsskógi og umhverfi hans yrðu óafturkræf náttúruspjöll, því slíkur skógur verður aldrei endurheimtur. Rösum ekki um ráð fram.

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband