Náttúruverndarsamtök Vestfjarða stofnuð

Ég gerði mér ferð vestur á firði sl. laugardag, 5. apríl, þegar Náttúruverndarsamtök Vestfjarða voru stofnuð að viðstöddum umhverfisráðherra Þórunni Sveinbjarnardóttur sem ávarpaði fundinn. Einnig voru með innlegg á fundinum Árni Finnsson formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands og félagi minn Ómar Ragnarsson.  Um hundrað manns sóttu fundinn og var dagskrá öll hin vandaðasta.  Ólína Þorvarðardóttir stýrði fundinum styrkri hendi og auk þess að samþykkja lög samtakanna var eftirfarandi ályktun samþykkt:

Náttúruverndarsamtök Vestfjarða skora á stjórnvöld og forráðamenn sveitarstjórna á Vestfjörðum að standa vörð um vestfirska náttúru með hóflegri og skynsamlegri nýtingu náttúrugæða, rannsóknum á vistkerfi og verndun náttúruverðmæta. Tekið verði fyllsta tillit til náttúrufars, dýralífs, gróðurs og sjávarvistkerfa við stefnumótun og ákvarðanir um samgöngumannvirki, stóriðju, uppbyggingu í ferðaþjónustu og önnur umsvif sem áhrif hafa á umhverfi og landgæði.    Náttúruverndarsamtök Vestfjarða hvetja til þess að komið verði á virkri og víðtækri gagnasöfnun um náttúrufar, dýralíf, sjávarvistkerfi og gróður í samstarfi við rannsóknarstofnanir og fræðasetur á Vestfjörðum. Í þessu skyni verði veitt fé úr ríkissjóði til þess að stofna rannsóknastöðu í náttúru- og umhverfisfræðum. 

Náttúruverndarsamtök Vestfjarða kalla eftir samstarfi við stjórnvöld um verndun náttúru, umhverfisfræðslu, friðlýsingu merktra og fagurra staða, verndun minja og skynsamlega nýtingu náttúruauðlinda.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband